Fara í innihald

Eldfjallajörð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eldfjallajörð eða sortujörð er jarðvegsgerð sem myndast á eldfjallasvæðum. Í flokkun FAO á jarðvegi og bandarískri flokkun er slíkur jarðvegur nefndur Andosol eða Andisol og er það dregið af japanska orðinu An-do sem þýðir dökk eða svört jörð. Íslensk eldfjallajörð er ljósari en víðast annars staðar á eldfjallasvæðum. Slík jörð myndast þar sem gjóska er eitt aðalefni jarðvegs. Jarðveg eldfjallasvæða er sérstakur vegna þess að gjóskan veðrast hratt og það veldur því að í jarðveginum verður hár styrkur efna sem losna við veðrunina svo sem Ca2+, Mg2+, Al3+, Fe og Si (ýmis form). Efnaveðrun er m.a. mjög hröð á Íslandi og gjóska veðrast því hraðar sem hún er basískari. Ál og kísill sem losna við veðrunina falla út með súrefni og hýdroxíð og mynda leirsteindirnar allófan, ímógólít og halloysít. Járn fellur út sem ferrihýdrít sem er skærrauð járnsteind og hefur það mikil áhrif á heildarlit jarðvegs.