Einar Snorrason Ölduhryggjarskáld
Einar Snorrason (d. 1538), kallaður Einar Ölduhryggjarskáld, var íslenskur prestur og skáld á 16. öld. Synir hans og tengdasonur voru framarlega í hópi siðaskiptamanna um miðja öldina.
Talið er að Einar hafi verið sonur Snorra Sveinssonar bónda í Ytra-Skógarnesi í Miklaholtshreppi en að öðru leyti er ætt hans óþekkt. Einar kemur fyrst við skjöl árið 1497 og var þá orðinn prestur, líklega á Stað á Ölduhrygg, þar sem hann var alla tíð síðan. Hann mun hafa verið þekkt skáld á sinni tíð og Jón Arason kallar hann höfuðskáld vestanlands, en ekkert er nú þekkt af kveðskap hans.
Fylgikona Einars var Guðrún Oddsdóttir, bróðurdóttir Sveins biskups spaka, og voru synir þeirra Gleraugna-Pétur, prestur og sýslumaður, og Moldar-Brandur, sýslumaður á Snorrastöðum og í Hítarnesi. Einar átti líka börn með Ingiríði Jónsdóttur, systur Stefáns biskups, en ekki er ljóst hvort hún var fylgikona hans. Börn þeirra voru Marteinn biskup Einarsson og Guðrún, kona Daða Guðmundssonar í Snóksdal. Fleiri börn átti Einar en um mæður þeirra er ekki vitað.