Dráttarvextir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dráttarvextir eru vextir sem reiknaðir eru á gjaldfallna fjárkröfu vegna vanefnda í formi greiðsludráttar, þ.e.a.s. þegar krafan hefur ekki verið greidd á tilsettum tíma. Dráttarvextir eru í eðli sínu samningsbundnar eða lögákveðnar skaðabætur sem byggjast á hlutlægum grundvelli, án tillits til raunverulegs tjóns kröfuhafa af völdum greiðsludráttarins, en um leið hafa þeir einnig það hlutverk að hvetja skuldara til þess að efna greiðsluskyldu sína sem fyrst. Dráttarvextir geta átt sér stoð í samningi eða lögum, en algengt er að byggt sé á hvoru tveggja, það er að segja samningsskilmálum sem vísa jafnframt til viðeigandi lagareglna. Reglur um dráttarvexti eru að meginefni lögfestar í III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Dráttarvextir eru samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana (grunnur dráttarvaxta) auk sjö prósenta álags (vanefndaálag), nema um annað sé samið sérstaklega. Almennt er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með umsömdum gjalddaga fram að greiðsludegi. Auk þess er algengt í framkvæmd að veittur sé frestur til greiðslu innan ákveðins tíma eftir gjalddaga og er þá lokadagur þess frests kallaður eindagi, en sé greitt eftir þann frest reiknast dráttarvextir engu að síður frá gjalddaga en ekki eindaga. Hafi ekki verið samið um gjalddaga kröfu er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu eða höfðað var dómsmál um kröfuna. Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram eða skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa, til dæmis stöðvunarrétti, eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar, skal þó ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þeim sökum.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]