Constance Tipper
Constance Tipper (fædd Constance Fligg Elam; 16. febrúar 1894 – 14. desember 1995) var enskur málmfræðingur og kristallafræðingur.[1] Hún rannsakaði stökkvabrot og seigju-stökkvamörk málma sem notaðir voru í herskip. Hún var fyrsta konan sem var fastráðin við verkfræðideild Cambridge-háskóla.
Hún lærði verkfræði og málmfræði og vann verðlaun fyrir rannsóknir sínar á togþoli áls, en mátti ekki mæta í verðlaunaafhendinguna þar sem konum var ekki heimill aðgangur. Í síðari heimsstyrjöld uppgötvaði hún ástæðuna fyrir sprungum í frelsisskipum Bandaríkjamanna, sem voru soðin saman úr fjöldaframleiddum einingum. Hún komst að því að ástæðan væri ekki í suðunni heldur vegna stökkva málmsins í köldum sjó og að suðan ylli því að þær næðu meiri útbreiðslu en í hnoðuðum plötum. Hún þróaði Tipper-prófið til að kanna brotþol málma sem notaðir voru í skipasmíði. Eftir stríð var hún fyrst til að rannsaka málma með rafeindasmásjá Charles Oatley í Cambridge.
Árið 1949 var hún skipuð reader í verkfræði við Cambridge-háskóla þar sem hún vann til 1960 þegar hún fór á eftirlaun. Hún var eina konan sem var fastráðin við verkfræðideild skólans allan þann tíma.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Constance Tipper: her life and work“. Materials World: 336–337. júní 1996.