Coco Chanel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Coco Chanel.
CHANEL N°5

Gabrielle Bonheur Chanel oftast nefnd Coco Chanel (19. ágúst 1883 – 10. janúar 1971)[1] var franskur brautryðjandi á sviði kventískuhönnunar. Nútímaleg viðhorf hennar, innblástur frá herratísku og eftirsókn eftir þokkafullum einfaldleika gerðu hana eina af mikilvægustu persónum í fatahönnun 20. aldar.[2] Chanel lagði áherslu á látlausan glæsileika í fatnaði. Það var þó ekki einungis fatahönnunin sem skóp henni sérstöðu heldur einnig persónulegur stíll hennar. Í stað þess að vera eins og hin dæmigerða föla, síðhærða og holduga kona síns tíma hafði Chanel strákslegan vöxt, var stuttklippt og sólbrún. Hún setti ný viðmið í fegurð og glæsileika sem hafa gríðarleg áhrif enn í dag.

Æska[breyta | breyta frumkóða]

Gabrielle Chanel, iðulega nefnd Coco Chanel, fæddist árið 1883 á líknardeild fátækraheimilis í bænum Saumur í Frakklandi.[3] Hún var óskilgetið barn efnalítilla foreldra. Þegar hún var aðeins tólf ára lést móðir hennar og í kjölfarið yfirgaf faðir hennar hana og kom henni fyrir á muðanarleysingjahæli nálægt Brive-la-Gaillarde. Þar átti hún dapurlega æsku þar sem fátækum stelpum var haldið frá þeim sem borgað var með og þær skikkaðar í sérstaka búninga. Mörgum árum síðar hafði vinur Chanel það á orði að hún væri að reyna að fá allar konur heimsins í búninginn sem hún var neydd til að klæðast í æsku; það er svartan kjól með hvítum kraga.[4]

Átján ára að aldri fékk hún inngöngu í kristilegan heimavistarskóla í Moulins og vakti strax athygli fyrir útlit sitt; sérstaklega langan og þokkafullan hálsinn og djúp svört augu. Kaupmaðurinn Henri Desboutin réð hana sem afgreiðslustúlku í undirfata- og sokkaverslun sinni. Einnig kom Chanel fram sem söngkona í La Rotonde um tíma og þar fékk hún nafnið Coco sem vísar í vinsælt lag á þeim tíma.[5]

Upphaf ferilsins[breyta | breyta frumkóða]

Það auðveldaði Chanel að komast áfram í tískuheiminum að hún átti í ástarsamböndum við ríka og vel tengda menn.[6] Fyrsti elskhugi hennar var Etienne Balsan sem átti sveitasetur í Royallieu þar sem Chanel bjó í nokkur ár. Balsan styrkti frumraun hennar í fatahönnun, sölu á höttum í íbúð hans á boulevard Malesherbes.

Því næst átti hún í sambandi við enska glaumgosann Arthur Capel, þekktan sem Boy. Ævisagnaritarar Chanel eru sammála um að Boy hafi verið stóra ástin í lífi hennar en hann dó árið 1919 í bílslysi. Boy fjármagnaði fyrsta verkefni hennar á rue Cambon en sú gata átti síðar eftir að verða tengd við nafn hennar. Þar opnaði Chanel hattaverslun árið 1910. Því næst opnaði hún tískuverslun í Deauville árið 1913 þar sem hún seldi prjónaflíkur og kjóla.[7]

Chanel var tiltölulega fljót að öðlast frægð og byggðist velgengnin á sérstökum stíl hennar. Stíllinn grundvallaðist á prjóni og flanneli, efnum sem almennt voru aðeins talin viðeigandi fyrir íþróttafatnað. Haft var eftir henni að auður hennar hefði sprottið af gamalli prjónapeysu sem hún fékk lánaða frá Boy og breytti í golftreyju með því að klippa framhliðina í sundur. Margt úr smiðju Chanel var fengið frá herrafatnaði og hún gróf gjarnan upp innblástur í fataskápum elskhuga sinna.[8]

Tískuhús[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1915 hafði hún opnað tískuhús í Biarritz með fjármagni frá Boy. Ári síðar frumsýndi hún fyrstu fatalínu sína í Biarritz og hlaut þegar mikið lof fyrir. Í þeirri línu var hennar útgáfa af karlmannspeysu, þar sem hálsmálið var skorið neðar og borði dreginn í gegnum hnappagötin, ásamt pilsi með fellingum. Einnig sýndi hún þar kaki-prjónadragt með jakka sem vísaði í stríðsfatnað. Þetta var á stríðstímum þar sem hagnýtur fatnaður var talinn nauðsynlegur.[9]

Áður en Chanel kom til sögunnar var prjónaefni nánast eingöngu notað í nærföt og vinnufatnað. Það þótti síður en svo bera nokkurn vott um glæsileika en samt tókst Chanel að bylta tískuheiminum árið 1916 með því að nota prjónaefni í fatalínu sinni. Á þann hátt bjó hún til nýja tegund þokka.[10]

Ári eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk opnaði Chanel tískuhús á 31 rue Cambon – þar sem höfuðstöðvar Chanel-merkisins eru enn staðsettar í dag. Í slagtogi við franska fatahönnuðinn Jean Patou kynnti hún einfaldleika og hagsýni til sögunnar í tísku þriðja áratugs 20. aldar. Hún losaði tískuheiminn úr viðjum hins oflátungslega „belle époque“ tímabils og framleiddi aðgengilegan fatnað sem bar töluverðan keim af klæðaskápi hins vinnandi manns.[11]

Því hefur verið haldið fram að Chanel hafi sóst eftir að ganga í þægilegum fatnaði sem svipaði til fatanna sem sterkir og sjálfstæðir karlmenn klæddust. Í upphafi ferils hennar var hún fjárhagslega háð þeim karlmönnum sem hún átti í sambandi við en hún þráði þá stöðu og völd sem þeir höfðu.[12]

Arfleifð[breyta | breyta frumkóða]

Chanel No. 5[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1921 bjó hinn rússnesk-franski Earnest Beaux til nýjan ilm sérstaklega fyrir Chanel. Hún veðjaði á happatöluna sína og setti ilmvatnið Chanel No. 5 á markað. Það var fyrsti ilmurinn til að bera nafn hönnuðar.[13] Ilmurinn átti eftir að gera hana ríka. Einfaldleikinn sem einkenndi Chanel mátti einnig sjá á ilmvatnsflöskunni en hönnun flöskunnar hefur aldrei verið breytt og enn þann dag í dag er ilmvatnið hið mest selda í heimi.[14] Haft var eftir Chanel að ilmvatn væri grundvallarfylgihlutur í tísku, ósjáanlegur og ógleymanlegur – hann boðaði komu þess sem hann bæri og drægi brottförina á langinn.[15]

Garçonne[breyta | breyta frumkóða]

Snemma á þriðja áratug 20. aldar varð Chanel einn fremsti talsmaður „garçonne“ eða „flapper“ stílsins. Fyrirsætur hennar klæddust peysum og stuttum pilsum með fellingum og lágu mitti. Boni de Castellane, spjátrungur frá París, hélt því fram að konur væru ekki lengur til – það eina sem væri eftir væru strákarnir sem Chanel hafði skapað.[16]

Litli svarti kjóllinn[breyta | breyta frumkóða]

Chanel gerði „litla svarta kjólinn“ vinsælan. Kjóllinn var að hluta til svar við austurlenskum litum franska fatahönnuðarins Paul Poiret og átti rætur að rekja til chemise-kjóla. Litli svarti kjóllinn var eins konar auðkennisflík Chanel. Áður fyrr hafði aðeins verið notast við svartan lit á sorgarklæðum – en Chanel kom honum í tísku. Fyrir henni mynduðu svart og hvítt hinn fullkomna samhljóm.[17]

Chanel-dragtin[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1925 kynnti hún til sögunnar Chanel-dragtina sem samanstóð af jakka án kraga og vel sniðnu pilsi. Hönnunin var byltingarkennd á þeim tíma vegna þess að notast var við þætti úr herratísku og þægindum gert hærra undir höfði en þeim þröngu sniðum sem þá voru í tísku.[18]

Hertoginn af Westminster[breyta | breyta frumkóða]

Chanel átti um tíma í ástarsambandi við hertogann af Westminster, ríkasta mann Bretlands. Chanel varð fyrir áhrifum af hinum bresku tvídflíkum hans sem hún breytti í kápur með loðfeldi fyrir viðskiptavini sína. Hún framleiddi jafnvel útvíðar buxur sem sóttu innblástur til fatnaðar háseta á snekkju hertogans.

Þegar hertoginn kvæntist annarri konu árið 1930 sökkti Chanel sér í vinnu og tískuhúsið náði nýjum hæðum. Starfsmennirnir voru á tímabili um 4.000 og allt að 28.000 kjólar framleiddir á ári. Chanel var að jafnaði staðsett í París þar sem hún dvaldi í svítu á Ritz hótelinu og tók á móti gestum í íbúð sinni á rue Cambon.[19]

Seinni heimsstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1939 varð til þess að Chanel ákvað að loka saumastofunni en halda versluninni opinni. Þar seldi hún aðeins hinn vinsæla ilm Chanel No. 5 og aðra fylgihluti. Á þessum tíma hóf hún ástarsamband við þýska diplómatann og njósnarann Gunther von Dincklage. Það átti eftir að reynast henni örlagaríkt.

Þegar stríðinu lauk var hún handtekin – grunuð um landráð – meðal annars vegna sambands hennar við Gunther. Hún var þvinguð í útlegð til Sviss þar sem hún flæktist um í borginni Lausanne allt til ársins 1953 og heimsótti París aðeins endrum og eins.

Loks árið 1954, þegar hún var 70 ára, kom hún tískuheiminum í opna skjöldu með því að gera boð um endurkomu. Þá hafði París gleymt Chanel og Dior var á hraðri uppleið.

Fyrsta sýningin eftir stríð árið 1954 sló ekki samstundis í gegn en eftir að hafa sýnt þrjár fatalínur hafði Chanel fest sig í sessi á ný.[20][21]

Síðustu ár[breyta | breyta frumkóða]

Á efri árum sínum varð Chanel að eins konar táknmynd. Hún umgekkst aðeins ungar fyrirsætur á hennar vegum og samheldinn hóp af traustum vinum og þjónustufólki. Mörg spakmælanna sem Chanel er þekkt fyrir koma fram á þessum tíma – í kringum sjöunda áratug 20. aldar.

Coco Chanel lést árið 1971. Þá var hún 88 að aldri og vann enn fullan vinnudag eins og áður. Eftir lát Chanel féll tískuhúsið í umsjá Yvonne Dudel, Jean Cazaubon og Philippe Guibourge. Vörurnar seldust grimmt sem fyrr en það var sem neistinn hefði slökknað. Alain Wertheimer tók við árið 1974 og reyndi í nokkur ár að endurreisa veldið. Loks réð hann hinn þýska fatahönnuð Karl Lagerfeld sem yfirhönnuð og árið 1983 tók Lagerfeld yfir Chanel tískuhúsið. Merki Chanel hefður síðan lifað áfram undir stjórn hans og heldur áfram að blómstra.[22][23]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Coco Chanel Biography“, bio., sótt 19. maí af http://www.biography.com/people/coco-chanel-9244165.
 2. „Gabrielle Chanel“, Fashion Model Directory, sótt 20. maí 2015 af http://www.fashionmodeldirectory.com/designers/gabrielle-chanel/.
 3. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, Oxford: Berg, 2009, bls. 39.
 4. „Gabrielle Chanel“.
 5. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 39.
 6. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 39.
 7. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 40.
 8. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 40.
 9. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 40.
 10. Laura Bradley, „Mademoiselle Chanel Loved Jersey“, 18. mars 2014, sótt 19. maí 2015 af http://www.anothermag.com/fashion-beauty/3490/mademoiselle-chanel-loved-jersey.
 11. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 40.
 12. Vala S. Valdimarsdóttir, „Fékk konur til að ganga í buxum“, Vera, 1. júní 1995, bls. 28–29, sótt 19. maí 2015 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000582198, bls. 29.
 13. „Coco Chanel Biography“.
 14. „Gabrielle Chanel“.
 15. „Coco Chanel Biography“.
 16. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 40.
 17. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 40.
 18. „Coco Chanel Biography“.
 19. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 40–41.
 20. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 41.
 21. „Gabrielle Chanel“.
 22. Brenda Polan, Roger Tredre, The Great Fashion Designers, bls. 41.
 23. „Gabrielle Chanel“.