Chagoseyjar
6°00′S 71°30′A / 6.000°S 71.500°A
Chagoseyjar er eyjaklasi í Indlandshafi. Heildarflatarmál eyjanna er 60 km². Eyjarnar eru breskt yfirráðasvæði. Eyjarnar eru Salómonseyjar, Peros Banhos kóralhringeyjan, Bræðurnir þrír, Arney, Háskaeyjar, Egmonteyjar og Diego Garcia. Diego Garcia er stærsta eyjan en hún er í kringum 44 ferkílómetrar. Á þeirri eyju hafa Bandaríkjamenn sett upp herstöð. Í Persaflóastríðinu 1991, árás bandamanna á Talibana í Afghanistan 2001 og í innrásinni í Írak 2003 lá hún mjög vel við fyrir flugvélar bandamanna á leið frá Bandaríkjunum. Fangabúðir eru á eyjunni.
Portúgalskir landkönnuðir komu til Diego Garcia á 16. öld. Eyjan var undir yfirráðum Máritíus á tímabilinu 1814-1965. Íbúar eyjunnar Diego Garcia voru um 2000 en þeir voru allir fluttir á brott með valdi á árunum 1967-73 þegar samningar voru gerðir milli Breta og Bandaríkjamanna að gera eyjuna að herstöð. Chagossar en svo nefnast eyjarskeggjar voru fluttir til Máritíus þar sem þeir búa ennþá í örbirgð um 2000 km frá heimkynnum sínum. Árið 2000 kvað breskur dómstóll upp þann úrskurð að skipun um brottflutning fólksins hefði verið ólögleg og þar með ógild en einnig að hernaðarmannvirkin á eyjunni væru nauðsynleg og að búseta þar yrði eingöngu í tengslum við herstöðina. Chagossar stefndu breskum yfirvöldum og kröfðust skaðabóta og að eyjarskeggjar fengju að snúa aftur. Dómur féll árið 2003 og í honum er fallist á að meðferðin á eyjarskeggjum hafi verið skammarleg en ekki viðurkenndur bótaréttur.
Bretar afhentu Máritíus yfirráð yfir Chagos-eyjum árið 2024 eftir samning milli ríkjanna. Samkvæmt samkomulaginu fá Bretar þó áfram að reka herstöð sína ásamt Bandaríkjamönnum á Diego Garcia.[1]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Flutt nauðug frá Paradís“, Morgunblaðið, 166. tölublað (21.06.2009), Blaðsíða 16
- John Pilger, Stealing a nation, 2004 (heimildarmynd)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Bretar sleppa takinu á Chagos-eyjum“. mbl.is. 3. október 2024. Sótt 7. október 2024.