Cathy Freeman
Cathy Freeman (f. Catherine Astrid Salome, 16. febrúar árið 1973 í Mackay í Queensland) er fyrrverandi hlaupakona. Catherine, betur þekkt sem Cathy, var einn frægasti ástralski íþróttamaður 10. áratugs síðustu aldar. Aðalkeppnisgrein Cathy var 400 metra spretthlaup. Cathy varð heimsfræg á ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 þegar hún vann gullverðlaun og vakti athygli á stöðu frumbyggja Ástralíu.
Hlaupaferill
[breyta | breyta frumkóða]Cathy byrjaði snemma að æfa frjálsar íþróttir. Stjúppabbi hennar þjálfaði hana þegar hún var ung.[1] Árið 1989 fékk Cathy námsstyrk og fékk betri þjálfun í skólanum. Þegar hún var 17 ára vann hún sín fyrstu gullverðlaun á stórmóti þegar hún sigraði í bæði 200 metra og 400 metra halupi á samveldisleikunum. Þá setti hún einnig Ástralíumet í 200 metra hlaupi sem var 22,2 sekúndur. Cathy var fyrsti frumbyggi Ástralíu sem tók þátt í ólympíuleikum. Árið 1992 tók hún þátt á sínum fyrstu ólympíuleikum en vann ekki til verðlauna.[2]
Árið 1995 naut Cathy mikillar velgengni. Hún hljóp meðal annars hraðar en Marie-José Pérec frá Frakklandi sem var heimsmeistari í 400 metra hlaupi það ár. Sá sigur kom Freeman í annað sæti heimslistans í 400 metra hlaupi. Hún hélt því sæti næsta ár, og varð fyrsta ástralska konan til að hlaupa 400 metra á undir 50 sekúndum, sem hún gerði sjö sinnum í úrslitahlaupum á ferlinum.
Árið 2000 var tímamótaár fyrir Cathy. Hún keppti á ólympíuleikunum í Sydney og var þá þegar orðin mjög þekkt í Ástralíu. Hún var valin til að kveikja á ólympíueldinum á opnunarhátíðinni. Þegar hún kom fyrst í mark í 400 metra hlaupinu hljóp hún sigurhringinn með tvo fána á sér; ástralska fánann og fána frumbyggja Ástralíu. Hún var fyrsti frumbyggi Ástralíu til þess að vinna gull á ólympíuleikum. Eftir ólympíuleikana tók hún aðeins þátt í einu móti og árið 2003 lagði Cathy skóna á hilluna.[3]
Annað
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að Cathy Freeman lagði skóna á hilluna stofnaði hún Cathy Freeman Foundation. Eitt af því sem góðgerðarfélag hennar gerir er að styrkja ungt fólk til náms.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Australian Overseas Information Service (2010). „Olympic athlete Cathy Freeman“. Australian Overseas Information Service.
- ↑ „Cathy Freeman | Biography, Facts, Olympic Medals, Achievements, & Foundation | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 26. nóvember 2024.
- ↑ „Cathy Freeman“. Sótt Nóvember 2024.
- ↑ „Cathy Freeman Foundation, Horizons Project | Closing the Gap“. www.niaa.gov.au. Sótt 26. nóvember 2024.