Fara í innihald

Bárujárn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bárujárnsþak í Reykjavík.

Bárujárn er plötujárn sem er aðallega notað á þök og skemmur, en hefur einnig verið notað á Íslandi til að klæða hús. Bárujárn er fest með þaksaumi í hábárur járnsins.

Saga bárujárns á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta bárujárnið var flutt hingað til lands einhvern tímann á árunum 1870-1880.[1]Það var Slimmons-verslunin sem flutti það inn, og í upphafi var það bæði þykkt og þungt og plöturnar um 3 metrar á lengd. Voru þá mikil vandkvæði á því að sníða það eins og þurfti.

Fyrsta húsið sem bárujárn var lagt á var hús í Krísuvíkurnámum um 1870, en það hús var síðar rifið og flutt þaðan 1872. Fyrsta húsið í Reykjavík sem járnið var sett á, var hús í eigu Geirs Zoëga kaupmanns og útgerðarmanns við Vesturgötu í Reykjavík (Sjóbúð), en hann klæddi viðbyggingu hjá sér með galvaniseruðu bárujárni. Árið 1876 lagði svo W. Ó. Breiðfjörð bárujárn á þak og veggi húss síns. En notkun bárujárns fór þó ekki að verða almenn fyrr en eftir 1880 og almennt var það ekki lagt á húsveggi fyrr en eftir 1890.[2]Bárujárn einkenndi mjög íslensk timburhús fram til 1935 eða þar til steinsteypa tók við sem helsta byggingarefni.

Menn þóttust hafa himin höndum tekið þar sem bárujárnið var komið, og breiddist það út um allt land á fáum árum. Kostir þess voru augljósir, en „gallarnir“ komu í ljós síðar. Ekki var laust við að það vefðist fyrir mönnum, hvernig skyldi negla það á þökin. Þannig var um hús á Sauðarkróki sem byggt var 1894. Þar var neglt í lágbárurnar á járninu svo að þakið hriplak, þangað til plötunum var snúið við og þær festar í hábáru.[3] Í upphafi reyndu jafnvel sumir að tyrfa yfir bárujárnsþök til hlýinda.[4]

  1. Greinarhluti í Lesbók Morgunblaðsins
  2. „Bárótta þakjárnið“. Reykvíkingur, 8. september, 1894. Sótt 3. september 2012.
  3. Klausa í Lesbók Morgunblaðsins
  4. Grein í Þjóðólfi
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.