Frilla
Frilla (byrgiskona eða launkona) er hjákona eða ástkona kvænts manns. Orðið frilla var einnig fyrir siðaskipti haft um sambýliskonu kaþólsks prests. Frillur eru stundum einnig nefndar lagskonur eða tíðleikakonur, þó það séu almennari hugtök.
Að fornu var talsvert um það að höfðingjasynir tækju sér frillur áður en þeir giftust, og stundum héldu höfðingjar frillur eftir að þeir gengu í hjónaband (sbr: taka e-a frillutaki). Stundum gat frillulífið verið svipað óvígðri sambúð, það er að viðkomandi maður tók stúlkuna til sín af því að honum leist vel á hana, en hún var of ættsmá til að hann gæti kvænst henni. Þegar hann svo gekk í hjónaband með stúlku sem talin var álíka ættstór og hann, var frillunni vísað til foreldrahúsa eða henni fundinn hæfilegur maki. Hreint frillulífi var hins vegar þegar kvæntir menn héldu frillur, annað hvort á eigin heimili eða á nálægum bæjum. Frillubörn voru óskilgetin og höfðu minni rétt en skilgetin börn.
Í kaþólskri tíð máttu prestar ekki kvænast, sem reyndist mörgum erfitt. Þeir fóru því oft í kringum kirkjulögin og tóku sér frillur eða ráðskonur. Við upphaf sambúðar var þá stundum haldin veisla sem var eins og brúðkaupsveisla að öðru leyti en því að ekki var um neina kirkjulega athöfn að ræða.
Orðið „friðill“ er samsvarandi orð um karlmann, það er ástmaður giftrar konu. Orðin „friðill“ og „frilla“ (frið-la => frilla) fela það í sér að viðkomandi sé til að friða ástríðurnar.
Gamall málsháttur
[breyta | breyta frumkóða]Betra er að vera góðs manns frilla en gefin illa. |