Fara í innihald

Brjóstahaldari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kona í hvítum blúndubrjóstahaldara.

Brjóstahaldari (stundum einnig brjóstahald eða brjóstahöld) er flík sem konur klæðas til að halda uppi brjóstunum og styðja við þau. Brjóstahaldarar eru með skálum sem lykja um brjóstin og í neðri jöðrum þeirra eru oft vírar til stuðnings.

Sérstakar flíkur til að hylja og styðja brjóstin hafa þekkst í þúsundir ára og voru stundum notaðir lindar sem reyrðir voru um brjóstin, stundum til að þrýsta þeim upp. Á síðmiðöldum urðu lífstykki algeng og eitt hlutverk þeirra var að lyfta brjóstunum og móta þau. Talið er að nútímabrjóstahaldarar hafi þróast út frá lífstykkjum en fyrsta flíkin sem segja má að kallast geti brjóstahaldari var hönnuð af Oliviu P. Flynt árið 1876. Flíkin sem hún fékk einkaleyfi á var þó með stuttum ermum en ekki hlýrum. Umdeilt er hvort það hafi verið Herminie Cadolle eða Mary Phelps Jacob sem skapaði fyrsta brjóstahaldarann með nútímasniði en Jacob fékk einkaleyfi fyrir sínum haldara árið 1914.

Nú eru til fjölmargar gerðir brjóstahaldara, svo sem upplyftingar (e. push-up) og aðrir slíkir sem láta brjóstin virðast stærri og gera meira úr brjóstaskorunni en ella en einnig eru til brjóstahaldarar sem láta brjóstin sýnast minni. Einnig eru til hlýralausir haldarar, íþróttabrjóstahaldarar, meðgöngubrjóstahaldarar og brjóstagjafahaldarar, auk annarra gerða. Flestir brjóstahaldarar eru kræktir á bakinu með krókum og höldum en einnig eru til brjóstahaldarar sem eru kræktir að framan.

Stærðaflokkun brjóstahaldara er tvöföld, annars vegar er um að ræða ummál líkamans undir brjóstum og hins vegar skálastærð. Því eru brjóstahaldrar framleiddir í mun fleiri stærðum en aðrar flíkur og er ekki óalgengt að hver tegund sé framleidd í 36 mismunandi stærðum og jafnvel fleiri. Skálastærðin er táknuð með bókstöfum og gefur til kynna mismuninn á ummáli undir brjóstum og um brjóstin; því er skálarnar á C 38-brjóstahaldara í raun mun stærri en á C 32-brjóstahaldara.

Minnsta stærðin sem fæst í verslunum er A (í Bandaríkjunum er AA minnst) en þá er innan við 10 cm munur á brjóstmáli og ummáli undir brjóstum. D táknar að munurinn sé um 18 cm en þegar komið er í stærri stærðir er í raun ekki um neina stöðlun að ræða og þegar munur á ummáli og brjóstmáli er um 25 cm kallast skálastærðin G í Bretlandi en I, J eða K í Bandaríkjunum. Stærstu brjóstahaldarar sem fást í almennum undirfataverslunum eru yfirleitt af stærð G, GG eða H í Bretlandi og J-L í Bandaríkjunum. Konur sem þurfa stærri skálar þurfa að leita til sérverslana.