Fara í innihald

Benedikt Gíslason frá Hofteigi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Benedikt Gíslason (21. desember 1894 – 1. október 1989) var íslenskur fræðimaður, bóndi, rithöfundur og skáld. Hann bjó lengst af í Hofteigi á Jökuldal (1928 – 1944) og kenndi sig við þann stað. Hann var í Búnaðarskólanum á Eiðum 1911–1913 og lauk þaðan búfræðiprófi. Síðar skrifaði hann sögu Eiðaskóla. Hann var í fyrsta árgangi Samvinnuskólans veturinn 1918-1919, og útskrifaðist þaðan. Á unglingsárum kynntist hann ættfræðirannsóknum séra Einars Jónssonar en sem fullorðinn maður gaf hann út verk hans Ættir Austfirðinga ásamt fleirum.

Samvinnunámskeiðið 1918, Benedikt er annar frá vinstri í efstu línu.

Benedikt var bóndi til fimmtugs, og síðar starfaði hann alllengi hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Hann var afkastamikill rithöfundur seinni hluta ævi sinnar. Hann gaf út ljóðabók 1947, og lítið vísnasafn kom út 1981, en aðrar bækur hans eru af sagnfræðilegum toga.

Hinn 19. nóv. 1921 giftist Benedikt Geirþrúði Bjarnadóttur (30. október 1921 – 8. febrúar 1978). Þau bjuggu fyrst á Egilsstöðum í Vopnafirði þar sem þau áttu fjögur börn, en síðan í Hofteigi þar sem sjö börn bættust við. Þau brugðu búi 1944 og fluttu til Reykjavíkur. Benedikt keypti jörðina Helgavatn í Borgarfirði og síðar jörðina Litladal í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, en þessar tilraunir til að hefja búskap aftur stóðu stutt.

Fornbókmenntir og saga þjóðarinnar voru Benedikt hjartfólgin viðfangsefni. Hann vildi ekki rengja ritaðar heimildir, heldur leita skýringa á textum þeirra og komast að niðurstöðu um hvernig bæri að túlka þá texta. Hann var kunnugur á söguslóðum Hrafnkelssögu og hélt því fram gagnstætt ríkjandi söguskoðun, að rétt væri þar farið með frásagnir af byggð í Hrafnkelsdal. Nýjasta tækni við könnun á landi hefur nú sannað, að þar hafði Benedikt rétt fyrir sér.

Útgefnar bækur

[breyta | breyta frumkóða]
  • Við vötnin ströng, kvæði 1947
  • Smiður Andrésson og þættir, 1949
  • Íslenzki bóndinn, 1950
  • Páll Ólafsson, ævisaga 1956
  • Þjóð í hrapi, bæklingur 1957
  • Eiðasaga, 1958
  • Fólk og saga, 1958
  • Saga Kaupfélags Héraðsbúa, 1959
  • Íslenda, 1963 (2. útgáfa 1974)
  • Ljósið í norðri og Dimmagil, bæklingur, 1968
  • Í sögutúni (um útgáfu sá Árni Benediktsson frá Hofteigi), 1979
  • Kvöldvísur, 1981
  • Ævisaga Jónasar Kristjánssonar (um útgáfu sá Anna Ólafsdóttir Björnsson) 1987
  • Benedikt sá um útgáfu á Ættum Austfirðinga eftir handriti Séra Einars Jónssonar frá Hofi (með öðrum) 1953–1959

- Íslenskir samtímamenn.

- Gunnar Valdimarsson, 1985. Aldursforseti íslenzkra skálda og fræðimanna : Dagskrá flutt í Ríkisútvarpið á níræðisafmæli Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi 21. des. síðastliðinn. Heimilispósturinn, 21. árgangur, 8-9. bls. 111-117.