Fara í innihald

Beitusmokkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Beitusmokkur

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Lindýr (Mollusca)
Flokkur: Smokkfiskar (Cephalopoda)
Ættbálkur: Sundsmokkar (Teuthoidea)
Ætt: Beitusmokkar (Ommastrephidae)
Tegund:
Beitusmokkur (Todarodes sagittatus) (Lamarck, 1798)

Beitusmokkur (Todarodes sagittatus) er þekktasta tegund smokkfiska við ísland, enda eini þeirra sem eitthvað hefur verið veiddur. Auk beitusmokks eru tíu tegundir smokkfiska tiltölulega algengar við Ísland. Þó hafa um 40 tegundir fundist á íslensku hafsvæði. Til samanburðar má nefna að um 500 tegundir smokka eru þektar í heiminum. Smokkar hafa annaðhvort átta eða tíu arma og lengi vel var þeim skipt í tvo ættbálka eftir því hvor fjöldan þeir höfðu. Nú eru þó ættbálkarnir þrír þar sem smokkar með tíu arma er skipt í tvennt eftir því hvort þeir eru spretthörð upp- og miðsjávardýr (Teuthoidea) eða hægfara botndýr (Sepioidea). Beitusmokkurinn tilheyrir ættbálki Teuthoidea sem kallast á íslenski sundsmokkar. Tíarma tegundir eru mun algengari en áttarma smokkar.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Armar eða fálmarar smokksins eru aðaleinkenni hans. Hjá beitusmokki sitja þeir framan á hausnum og hafa harðar sogskálar allstaðar á þeim, sumar tegundir smokka hafa króka í stað sogskála. Sogskálarnar eru notaðar til að halda bráð þeirra fastri. Tveir armar beitusmokksins eru lengri en hinir átta. Hjá hængunum breytist annar þeirra eða báðir tímabundið í einskonar getnaðarlim. Framan á haus dýrsins er skolturinn. Í honum eru tveir hárbeittir kítingoggar, ekki ólíkir goggum á páfagaukum. Smokkar hafa engin bein en sumstaðar í líkamanum, aðallega í hausnum, má finna brjósk. Hryggjaplatan er aflöng brjóskstoð sem nefnist fjöður. Bolurinn sjálfur er linur en utan um hann er sterk vöðvakápa. Þessi kápa einkennir alla smokkfiska. Hún er vaxin við hann að ofan en lokuð að aftan. Aftast á kápunni eru tvær blöðkur sem mynda tígullaga sporð. Undir kápunni, milli hennar og bolsins, liggja síðan tálknin. Smokkurinn getur dælt sjó inn og út úr kápuholinu. Í opi kápunnar, undir hausnum, er stútur sem smokkurinn getur spýtt sjó út um af miklum krafti. Þannig getur hann farið aftur á bak með miklum hraða. Einnig getur hann blandað svörtum vökva, bleki, í sjóinn og þannig horfið í dökku blekskýi. Smokkar hafa mjög góða sjón en stór augu hans sitja beggja vegna á hausnum.

Líffræði og útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Útbreiðsla beitusmokks

Beitusmokkurinn er úthafstegund. Hann er mjög hraðvaxta og á sér stuttan æviferil, oft ekki nema tvö ár. Hann er að finna í austanverðu Atlantshafi. Tegundin finnst við Evrópustrendur frá Barentshafi í norðri, meðfram ströndum Afríku allt suður undir miðbaug. Í vestri finnst hún við Ísland, Madeira og Azoreyjar. Einnig er beitusmokkinn að finna í Miðjarðarhafinu. Göngur beitusmokks eru óútreiknanlegar. Sum ár er mikinn beitusmokk að finna við Ísland en önnur ekki neinn. Engar tiltækar skýringar eru á þessu brotthvarfi tegundarinnar. Lítið sem ekkert er vitað um hrygningar beitusmokksins. Vísindamenn hafa sett fram tilgátur um að hrygning þeirra fari fram við landgrunnsbrúnir vestur af Evrópu allt suður til Azoreyja. Einnig hefur Mið-Atlantshafshryggurinn verið nefndur sem líkleg hrygningarslóð. Ekki er vitað hvenær hrygningin fer fram. Vísbendingar benda þó til að hrygning sé mismunandi eftir svæðum og geti jafnvel farið fram stóran hluta ársins.

Saga beitusmokks við Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Beitusmokkurinn er fardýr. Hann gengur að ströndum Íslands í ætisleit um sumar og dvelur við strendur landsins fram eftir hausti. Elstu heimildir um Beitusmokk hér við land eru frá aldamótunum 1700. Þá fannst hann við Vestfirðina. Eins og nafnið gefur til kynna er hann mjög góð beita en miklar fiskigöngur fylgdu oft göngum smokksins. Það var þó ekki fyrr en um 1880 sem íslendingar lærðu að veiða smokkinn á sérstakan smokkfisköngul. Þetta kenndu franskir sjómenn íslendingunum. Algengast var að smokkurinn gengi að landi við vesturland, sérstaklega vestfirðina, en hann fannst þó allstaðar í kringum landið. Göngur beitusmokksins að landinu og veiðar á honum voru lengi reglubundnar en ekki árlegar. Allt til ársins 1966 fóru reglulega fram veiðar á tegundinni en eftir það hefur nánast ekkert verið veitt af henni. Veiðarnar voru aðallega til að afla beitu fyrir eigin báta.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Beitusmokkur“ (PDF). Sótt 24. október 2019.