Batteríið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Batteríið var virki úr torfi og grjóti norður af Arnarhólstúni í Reykjavík. Það var reist á tíma Jörundar hundadagakonungs og endurbætt síðar. Batteríið stóð á svipuðum slóðum og hús Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg stendur núna en mikið landfylling hefur verið gerð á þessu svæði.

Benedikt Gröndal lýsir Batteríinu svo í grein sinni Reykjavík um aldamótin 1900: [1]

"Þar er efstur Arnarhóll (sem í daglegri ræðu er oft kallaður Batteríið) og sér þar enn merki virkis nokkurs, sem gert var þegar Jörgensen var hér; þá voru þangað fluttir einhverjir gamlir fallbyssuhólkar frá Bessastaðaskansi. Þá er dátarnir voru sendir hingað þjóðfundarsumarið 1851, þá var líka eitthvert virki gert, eða garðar fyrir fallbyssur, og púðurhús nokkurt úr torfi og varðhús hjá eða varðhylki, og kvað Brynjólfur Oddson um þetta í Dátarímu; þar segir svo:
Hjá því reistu rauðan strók,
er rambaði á einum fæti;
var í holum viðarbrók
vökumannsins sæti.
Þegar mæddi sorg og sút
af settum vöku-pressum
í grimmviðrunum gægðust út
úr gapastokki þessum.
En nú er þetta horfið fyrir löngu og á landið enga slíka vörn, en engum dettur í hug, að ef manni tekst að eignast eitthvað, þá þarf að hafa einhver ráð til að verja það; sjálfir getum vér enga vörn veitt, en megum horfa á, að botnvörpumenn ræni oss eins og þeim þóknast, heimtum svo alt af Dönum og höfum ekkert nema stóryrðin."

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Benedikt Gröndal, Reykjavík um aldamótin 1900 – Eimreiðin, 1.-2. tölublað (01.01.1900), Bls. 57-124