Fara í innihald

Börn og skilnaðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Í þessari grein er fjallað náið um hvernig skilnaður foreldra hefur áhrif á börn, almennt um skilnað, hvernig á að segja börnum frá skilnaði, viðbrögð barna við skilnaði, það sem er best fyrir börnin við skilnað og tengsl foreldra og barna eftir skilnaðinn.

Vitað er að skilnaður foreldra er börnum nær alltaf vonbrigði og kallar oft fram mikla erfiðleika í sálarlífi barna. Börn gera sér yfirleitt ekki grein fyrir skilnaði og eru oftast óviðbúin þegar hann kemur upp.

Óhamingjusamt fjölskyldulíf er alltaf mjög erfitt fyrir börnin í fjölskyldunni. Þau skilja oft ekki ástæðurnar fyrir deilum eða þögn foreldra sinna. Mörg börn reyna oft að leiða hjá sér ósætti foreldranna. Fæst börn hugsa um skilnaðinn sem raunhæfan möguleika. Ákvörðunin um að skilja kemur því oft eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Almennt um skilnað

[breyta | breyta frumkóða]

Skilnaður er viðkvæmt efni, sem snertir tilfinningar margra, einkum vegna þeirra barna sem í hlut eiga. Á Vesturlöndum er skilnaður nú almennt viðurkenndur sem útgönguleið ef hjónin finna ekki aðra lausn á vandamálum sínum. Hjónaskilnaðir eru tíðastir eftir 5-10 ára samband og á milli 24-40 ára aldurs.

Ákvörðunin um skilnað þýðir að viðkomandi einstaklingar hafa misst vonina um ánægjulegt líf með maka sínum. Skilnaður er oft sársaukafull breyting og hefur í för með sér talsvert álag, sem reynir verulega á tilfinningalíf og jafnvel heilsufar þeirra sem í hlut eiga. Þeir sem skilja þurfta oft að endurskipuleggja líf sitt, að laga sig að nýjum aðstæðum og jafna sig tilfinningalega. Algengt er að þessi aðlögun taki um eitt til tvö ár. Málið verður hinsvegar erfiðara og flóknara ef að börn eru inn í myndinni. Flestir hika við að skilja og reyna til hins ýtrasta að bjarga sambandinu, barnanna vegna. Helsta áhyggjuefnið varðandi skilnað er hvaða áhrif skilnaðurinn getur haft á börnin.

Viðbrögð og áhrif barna við skilnað

[breyta | breyta frumkóða]

Skilnaður foreldra er oftast talsvert áfall fyrir börn og setur þau úr lagi tilfinningalega. Skilnaðurinn getur þó orðið léttir fyrir börnin ef ástandið hefur verið lengi mjög slæmt, til dæmis orðið vitna að líkamlegum átökum milli foreldranna. Það er mikið komið undir foreldrum hve vel börnin ná að jafna sig eftir skilnaðinn.

Ýmsar tilfinningar geta brotist um í börnum eftir skilnað foreldranna, oftast eru það sorg og depurð vegna þess missis sem skilnaðurinn hefur í för með sér. Sorgin getur leitt til þess að börnin loki sig af með tilfinningar sinar og dragi sig í hlé um sinn gagnvart umhverfinu. Skilnaðurinn vekur einnig oft reiði hjá börnunum við foreldranna vegna sársaukans og óþægindanna sem þeir leggja á börnin með skilnaðinum. Það eykur líka á reiðina, ef fljótlega eftir skilnaðinn er stofnað til nýs ástarsambands.

Viðbrögð barna við skilnaði foreldra fer eftir þroska þeirra og aldri og geta því verið mjög mismunandi.

Yngstu börnin (0-2 ára) hafa tæplega þroska til þess að gera sér grein fyrir skilnaðinum, en ef foreldrið líður illa þá getur það átt erfitt með að hugsa um barnið af sömu vellíðan og áður. Um leið og foreldrinu sem annast barnið líður betur þá fer barninu einnig að líða betur.

Börn á leikskólaaldri (2ja-5 ára) verða oft kvíðin, vansæl, ergileg, gráta mikið og suða. Algengt er að þau hangi í foreldrunum og þoli illa að sjá af þeim. Sú vitneskja að annað foreldrið er farið getur gert barnið hrætt um að missa hitt foreldrið líka. Börnin sýna líka oft afturhvarf í þroska og taka aftur upp smábarnahegðun. Þetta gera börnin ómeðvitað í leit að öryggi sem þau hafa misst. Drengir verða oft hávaðasamari, reiðigjarnari og ókyrrari. Stúlkur verða stundum litlar fyrirmyndarfrúr sem leggja ofuráherslu á að vera snyrtilegar og góðar til að vinna sér inn viðurkenningu fullorðinna. Samt geta þær líka sýnt sömu viðbrögð og drengir. Börn á leikskólaaldrinum þurfa oft á mikilli umhyggju og líkamlegri snertingu að halda fyrst eftir skilnaðinn.

Barnaskólaaldurinn (6-12 ára) er erfiðastur fyrir börn sem lenda í skilnaði foreldra, sérstaklega sex til átta ára börnum. Börn á þessum aldri verða fyrst og fremst döpur og þurfa mikið að gráta út af skilnaðinum. Þau sakna mjög foreldrið sem fluttist í burtu. Þau eiga erfitt með að sætta sig við skilnaðinn og reyna jafnvel að koma í veg fyrir hann. Börn á aldrinum níu til tólf ára hættir til að taka afstöðu með öðru foreldrinu á móti hinu og dragast þannig inn í deilur. Í því mikla tilfinningaróti vanmáttarkenndar, gremju, söknuðar og einmanaleika, sem ríkir, getur börnunum reynst erfitt að einbeita sér í námi. Frammistaða í skóla slaknar hjá um það bil helmingi barna á þessum aldri, þegar að skilnaðarferli foreldra er í gangi.

Unglingar bregðast mjög misjafnlega við skilnaði foreldra. Skilnaður foreldra getur auðveldlega aukið á ójafnvægi og tilfinningarót unglingsáranna, einkum á gelgjuskeiðinu. Sumir unglingar bregðast við skilnaði með því að draga sig úr fjölskyldunni og leita til vina. Skilnaðurinn getur einnig ýtt undir vantrú þeirra á samböndum, vakið áhyggjur um eigin framtíð í samskiptum við hitt kynið og stundum hafa unglingar áhyggjur af fjármálum vegna skilnaðarins. Mikilvægt er að gefa þeim færi á að ræða um þær tilfinningar sem skilnaðurinn vekur upp.

Að segja börnum frá skilnaði

[breyta | breyta frumkóða]

Erfitt er fyrir foreldra að setjast með barninu sínu eða börnum og segja þeim frá ákvörðun um skilnað. Sumir fresta því um lengri tíma til þess að forða sér frá því að gera börnin leið. Það er þó oftast misráðið að fresta slíku samtali, vegna þess að börnin skynja þegar að ákvörðunin um skilnað liggur í loftinu. Börnin virðast yfirleitt gera sér grein fyrir að foreldrarnir eiga í erfiðleikum, en hafa ekki gert sér grein fyrir að skilnaður lægi fyrir. Það er mikilvægt að útskýra fyrir börnunum af hverju foreldrar þeirra sjá ekki aðra leið úr erfiðleikunum og að þeir fullorðnu hafi tekið þessa ákvörðun sjálfir.

Í mörgum tilvikum geta börnin tekið á sig mikla ábyrgð við að reyna að koma foreldrunum saman aftur. Ábyrgð sem þau eiga ekki að geta ráðið við. Börn þurfa að vita hvar þau eiga að búa, hvort þau haldi áfram í sama skóla og hvað breytist hjá foreldrunum. Ráðlegt er að segja við barnið að það eigi engan þátt í skilnaðinum.

Ef foreldrarnir sýna sjálfir sínar eigin tilfinningar þá hjálpa þeir börnunum að segja hvernig þeim líður og minnka hættuna á að þau loki sig af með einmanakennd og söknuð sem kemur oftast upp.

Það sem er best fyrir börnin við skilnað

[breyta | breyta frumkóða]

Eins og viðbrögð barna við skilnaði foreldra ráðast af mörgu er það líka misjafnt hve fljótt börn ná sér. Hvernig til tekst er líklegast mest undir foreldrum komið.

Það þarf að búa börn undir skilnað, ef skilnaðurinn kemur barni í opna skjöldu getur verið erfiðara fyrir það að átta sig á hlutunum. Börn þurfa að umgangast báða foreldra sína. Samvinna foreldra er best fyrir barnið, ef foreldrar barns deila heiftarlega eftir skilnað og blanda jafnvel barninu í þessar deilur, getur það haft langvarandi áhrif á barnið. Ef báðir foreldrar sýna börnum sínum áfram hlýju og áhuga og hafa samvinnu um uppeldi þeirra og umgengni við þau, þá hjálpar það börnum mikið að koma jafnvægi á tilfinningar sínar, sérstaklega fyrstu árin eftir skilnað. Það þarf að hlusta og tala við börnin, það þýðir ekki að þvinga börn til að tala um það sem þau vilja ekki ræða. Sérstaklega er það brýnt ef börnin ala með sér ranghugmyndir um skilnaðinn að ræða við þau um það. Fullorðið fólk verður að sýna mikla nærgætni í slíkum samræðum og vera tilbúið til að hlusta þegar að barnið vill tala. Afkoma fjölskyldunnar, húsnæði hennar og félagslíf skipta miklu máli. Ef barni er falin óhóflega mikið ábyrgð á heimilisstörfum eða í samskiptum við foreldrana verður það barni fjötur um fót.

Oftast skánar ástanið þegar að á líður. Flestum foreldrum tekst smám saman að ná tökum á nýjum aðstæðum og þeir ná betri stjórn á börnunum. Þó svo að mörg börn nái sé eftir skilnað foreldra, þá halda þau samt áfram að líta á skilnaðinn sem dapurlegan atburð sem varpar skugga á bernsku þeirra og unglingsár.

Tengsl foreldra og barna eftir skilnað

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir skilnað, þegar foreldrarnir þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum og um leið gera upp tilfinningar í garð fyrrverandi maka breytast samskipti þeirra við börnin. Algegnt er að foreldrar sýni börnunum minni hlýju en áður, tali sjaldnar við þau og hafi minna eftirlit með þeim. Foreldrar hafa minni tíma en áður til að sinna börnum sínum. Þetta ástand er mjög óheppilegt fyrir börnin þar sem þau eru sjálf viðkvæm, oft einmana, hrædd og hjálparvana eftir skilnað.

Aðstæður á heimili eftir skilnað getur komið í vítahring þar sem barn og foreldri ásaka hvort annað um langvarandi skilningsleysi og deilur magnast, uppeldisaðferðir verða harkalegri og samskipti háværari. Slíkan vítahring er hægt að rjúfa ef foreldri áttar sig og reynir að breyta aðstæðum.

Stundum keppa foreldrar um hylli barns, bæði fyrir og eftir skilnað. Ef barn er ánægt hjá föður sínum þá telur hann að barnið vilji hvergi annars staðar vera. Móðirin kýs hinsvegar að skýra þetta þannig að faðirinn kaupi ástúð barnsins með gjöfum og fleiru. Ef barnið grætur þegar að það kveður föður sinn telur hann að það sé harmi slegið að þurfa að fara til móðurinnar. Ef barnið er pirrað þegar það kemur aftur til móðurinnar finnst henni að samneyti við föðurinn sé skaðlegt fyrir barnið. En viðbrögð barnsins eru eðlileg í flókinni og erfiðri aðstöðu og bera aðeins vott um ráðaleysi þess og vanlíðan. Slíkar deilur eru því óheppilegar fyrir barn sem er að reyna að átta sig eftir skilnað.

Í rannsóknum kemur fram að börn telji það eitt erfiðasta atriðið í skilnaði foreldra sinna að missa samband við annað foreldrið. Flest börn missa sambandið og traust föður síns við skilnað. Síðar meir eftir skilnaðinn leggja þau minna upp úr föðurtengslum yfirleitt. Út af þessu er fyrsta tímabilið eftir skilnað sem skiptir mestu máli fyrir það sem síðar verður. Það er ánægja samskiptanna, á milli barnsins og föðurins/móðurinnar sem skipta sem skiptir mestu en ekki fjöldi heimsókna.

Í þeim tiltölulega fáu tilvikum sem mæður búa ekki hjá börnum sínum eftir skilnað halda þær yfirleitt umgengni við börnin. Fátítt er því að börn missi af samskiptum við móður sína við skilnað, á sama hátt og sum börn missa af föður sínum.

  • Hörður Þorgilsson. 1993. Sálfræðibókin (Reykjavík: Mál og menning).
  • Sigrún Júlíusdóttir. 1995. Barnafjölskyldur (samfélag- lífsgildi-mótun) (Reykjavík: Félagsmálaráðuneytið).
  • Sigurður J. Grétarsson. 1986. Um hjónaskilnaði (Reykjavík: Fræðslurit barnaverndarráð).
  • Benedikt Jóhannsson. 1996. Börn og skilnaðir (Reykjavík: Gráskinna).