Aronska

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Aronskan var stefna í íslenskum stjórnmálum sem kennd var við Aron Guðbrandsson stjórnanda Kauphallarinnar í Reykjavík sem hann kynnti í ræðu og riti á árinu 1977.

Kröfugerð Arons var á þá leið að bandarísk stjórnvöld skyldu greiða sem næmi öllum skuldum ríkissjóðs fyrir afnot af íslensku landi undangenginn aldarfjórðung og upp frá því fasta árlega leigu sem renna skyldi til samgöngumála og sjúkrahússbygginga. Fyrirmynd þessa kerfis var sögð fengin frá bandarískum herstöðvum á Spáni.

Aronskan hlaut nokkurn hljómsgrunn hjá drjúgum hópi fólks, en vakti geysihörð viðbrögð bæði stuðningsmanna og andstæðinga hersetunnar. Töldu báðir hópar tillögurnar siðlausar. Andstæðingar hersins vildu ekki að efnahagsleg áhrif hans ykjust en stuðningsmennirnir litu svo á að herstöðin væri Íslendingum til varnar og skyldi því ekki höfð að féþúfu. Fáar stjórnmálahreyfingar tóku upp aronskuna, má þó nefna Stjórnmálaflokkinn í þingkosningunum 1978. Engu að síður skutu viðhorf þessi reglulega upp kollinum næstu árin.