Fara í innihald

Samgöngustofa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Afskráning)
Aðalskrifstofur Samgöngstofu eru við Ármúla 2 í Reykjavík.

Samgöngustofa er stjórnsýslustofnun samgöngumála á Íslandi. Hún fer með stjórnsýslu og eftirlit er varðar flug, siglingar, umferð, sem og öryggiseftirlit með samgöngumannvirkjum og leiðsögu. Henni er ætlað að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum í landinu. Stofnunin sem hóf starfssemi árið 2013, hefur aðsetur í Reykjavík og er með starfsstöðvar í Stykkishólmi og á Ísafirði.


Samgöngustofa er stjórnsýslustofnun samgangna í lofti, vatni og á landi á Íslandi. Stofnunin heyrir undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og starfar í samræmi við lög nr. 119 frá 30. nóvember 2012.[1] Samgöngustofa er ríkisstofnun í svokölluðum A-hluta ríkissjóðs og er starfsemi hennar að stærstum hluta fjármögnuð af skatttekjum ríkissjóðs.

Samgöngustofa fer með stjórnsýslu flugmála, hafna, siglinga og sjóvarna, umferðar- og vegamála. Meginhlutverk hennar er að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum í landinu.[2][3]

Samgöngustofa annast eftirlit, vottanir og leyfisveitingar íslenskra fyrirtækja sem starfa á sviði samgangna á landi, í lofti og á sjó, og úttektir á öryggismálum. Stofnunin sinnir undirbúningi og innleiðingu laga og reglna á starfsviði hennar, fer með gerð öryggisáætlana í öllum samgöngugreinum og sinnir fræðslu sem unnin er út frá greiningu á atvikum og slysum.[2]

Alþjóðastarf Samgöngustofu

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd af höfuðstöðvum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í Montréal Kanada.
Höfuðstöðvar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) eru í Montréal Kanada. Samgöngustofa vinnur með ICAO.

Mikilvægur þáttur í starfssemi Samgöngustofu er þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og mótun alþjóðareglna samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasamningum. Stofnunin annast þannig undirbúning samninga við erlend ríki og alþjóðastofnanir og eftir atvikum gerð slíkra samninga; vinnur að innleiðingu og framfylgd alþjóðasamninga og EES-reglna; og hefur eftirlit með því að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar og þátttöku í alþjóðlegum úttektum.[2]

Samstarf Samgöngustofu við alþjóðastofnanir er af ýmsum toga:[4] Til að mynda aðild að EUCARIS; EReg; Evrópusamtökum prófunaraðila ökuprófa (CIECA); Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO); Samtökum flugmálastjórna í Evrópu (ECAC); Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO); Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA), Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA) og Eurocontrol.

Loftmynd af Keflavíkurflugvelli. Allir íslenskir flugvellir eru vottaðir af Samgöngustofu.

Samgöngustofu var komið á fót sem stjórnsýslustofnun samgöngumála með lögum frá 30. nóvember 2012. Öll verkefni sem áður heyrðu undir Flugmálastjórn Íslands og Umferðarstofu færðust þá til Samgöngustofu, svo og stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni Siglingastofnunar Íslands auk leyfisveitinga og umferðareftirlits sem áður voru á hendi Vegagerðarinnar. Samhliða þessu færðust framkvæmda- og rekstrarverkefni Siglingastofnunar til Vegagerðarinnar.

Upphaflega átti stofnunin að bera nafnið „Farsýslan“ en það þótti óþjált og ákveðið var að hin nýja stofnun bæri heitið Samgöngustofa. [5] Hún tók formlega til starfa 1. júlí 2013.[6]

Ráðherra skipar forstjóra sem ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.

Samgöngustofu er skipti niður í fimm svið.

  • Farsvið annast leyfisveitingar, skírteini einstaklinga í flugi og siglingum, ökunám, tæknimál, skráningu farartækja og öryggiseftirlit með leyfishöfum.
  • Mannvirkja- og leiðsögusvið ber ábyrgð á verndarmálum í siglingum og flugi, flugleiðsögu og leiðsögu á sjó, skipulagi loftrýmisins, málefnum samgöngumannvirkja á Íslandi og eftirliti með höfnum.
  • Rekstrarsvið annast fjármálastjórn og bókhald, skjalastjórn, umsjón með upplýsingatækni og skrám auk reksturs NorType, samnorræns gagnagrunns um tækniupplýsingar ökutækja.
  • Samhæfingarsvið sér um stjórnsýslu samgöngumála, samræmingu alþjóðlegra samskipta, samgönguáætlun, samgönguvirkt og neytendamál og öryggis- og fræðslumál.
  • Þjónustusvið er með móttöku- og verkefnaver og sér um leyfisveitingar af ýmsum toga.

Starfsfólk

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt ársskýrslu Samgöngustofu 2017 voru starfsmenn 142 talsins auk 10 verktaka.[7] Í mars 2018 voru 181 á starfsmannaskrá á vef Samgöngustofu .[8] Ári síðar voru ársverk orðin rúmlega 149 talsins. Samkvæmt ársskýrslu Samgöngustofu árið 2019 voru starfsmenn í árslok voru alls 154, samtals 66 konur (43%) og 88 karlar (57%).[9]. Á vef stofnunarinnar voru í mars árið 2021 listaðir 119 starfsmenn.[10]

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Lagasafn“. Alþingi. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2021. Sótt 10. mars 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 „119/2012: Lög um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála“. Alþingi. Sótt 10. mars 2019.
  3. „Siglingar“. Samgöngustofa. Sótt 10. mars 2019.
  4. Samgöngustofa (2018). „Ársskýrsla Samgöngustofu 2017“ (PDF). Samgöngustofa. Sótt 10. mars 2018.
  5. „Lög um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála“. Alþingi. Sótt 10. mars 2019.
  6. María Margrét- Morgunblaðið (26. júní 2013). „Samgöngustofa tekur til starfa í júlí“. Morgunblaðið - Árvakur. bls. 8. Sótt 5. mars 2021.
  7. Samgöngustofa (2018). „Ársskýrsla Samgöngustofu 2017“ (PDF). Samgöngustofa. Sótt 10. mars 2019.
  8. „Starfsmannaskrá“. Samgöngustofa. Sótt 10. mars 2019.
  9. Samgöngustofa (2020). „Ársskýrsla Samgöngustofu 2019“ (PDF). bls. 3. Sótt 18. mars 2021.
  10. Samgöngustofa (2021). „Starfsmannaskrá - Samgöngustofa“. Sótt 18. mars 2021.