Þórdís Snorradóttir
Þórdís Snorradóttir var íslensk kona á 13. öld en um fæðingar- og dánarár hennar er ekki vitað. Hún var laundóttir Snorra Sturlusonar en móðir hennar hét Oddný. Árið 1224 gifti Snorri hana Þorvaldi Vatnsfirðingi, sem var orðinn roskinn og mörgum áratugum eldri en Þórdís, og tengdist hjónabandið sættum þeirra Snorra og Þorvaldar, sem höfðu átt í deilum. Þau bjuggu í Vatnsfirði og áttu saman tvö börn, Kolfinnu og Einar. Þórdís var á Gillastöðum í Króksfirði með manni sínum 6. ágúst 1228, er Hrafnssynir brenndu hann þar inni, og var hún dregin út um op á vegg og bjargaðist. Stjúpsynir hennar, Þórður og Snorri, tóku þá við veldi föður síns þótt ungir væru en Þórdís vildi ekki fara í Reykholt til föður síns þótt hann vildi fá hana til sín. Ekki löngu síðar eignaðist hún barn með manni sem kallaðist Ólafur Æðeyingur en var síðan í tygjum við Odd Álason bónda á Söndum, og voru kærleikar miklir með þeim að því er segir í Sturlungu. Eftir að Sturla Sighvatsson drap Þorvaldssyni 1232 tók Þórdís við búi í Vatnsfirði en Snorri setti Órækju son sinn til að hafa mannaforráð þar vestra þar til Einar sonur Þórdísar væri fullvaxinn og hraktist Þórdís frá Vatnsfirði að Mýrum í Dýrafirði og neitaði aftur að fara til föður síns. Órækja taldi systur sína og Odd sitja á svikráðum við sig og fór að Oddi, sem þá bjó á Eyri í Arnarfirði, og drap hann 13. janúar 1234.
Þórdís bjó í Vatnsfirði eftir að Órækja fór þaðan og virðist hafa ráðið mestu við Ísafjarðardjúp um tíma, jafnvel þar til Einar sonur hennar var fullvaxinn.