Þórður Kristleifsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þórður Kristleifsson (f. 1893. d. 1997) var íslenskur tónlistarfrömuður, kórstjóri og menntaskólakennari. Hann fæddist á Uppsölum í Hálsasveit og var sonur Kristleifs Þorsteinssonar á Stóra-Kroppi, bónda og fræðimanns, og Andrínu Guðrúnar Einarsdóttur húsfreyju.

Þórður stjórnaði kór Menntaskólans á Laugarvatni í áratugi og kenndi þar meðal annars þýsku við góðan orðstír. Á efri árum kenndi Þórður einnig sönglist í Menntaskólanum í Reykjavík. Á öðrum áratug 20. aldar var Þórður fenginn af menntamálaráðherra til þess að rannsaka söngkennslu í skólum landsins og átti ríkan þátt í því að bæta og efla sönglist á Íslandi.

Þórður var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til söngmenningar á Íslandi á Þjóðhátíðardaginn árið 1989.

Þórður átti eftir að verða með langlífustu karlmönnum Íslandssögunnar en hann lést 104 ára gamall, og þá elstur karlmanna á Íslandi.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]