Óháðir bindindismenn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Óháðir bindindismenn var óformlegt heiti á framboði bindindismanna við borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík árið 1962. Listinn hlaut tæplega 900 atkvæði eða um 2,5% greiddra atkvæða og var langt frá því að fá kjörinn borgarfulltrúa.

Framboð bindindismanna átti skamman aðdraganda. Í byrjun árs 1962 sendi hópur áhugafólks um bindindismál erindi til allra stjórnmálaflokkanna þar sem farið var fram á að yfirlýstir bindindismenn yrðu í öruggum sætum, en að öðrum kosti yrði blásið til sjálfstæðs framboðs. Erindið hlaut dræmar undirtektir.

Framboðslisti var kynntur um mánuði fyrir kosningar. Í efsta sæti var Gísli Sigurbjörnsson forstjóri eilliheimilisins Grundar. Þar á eftir komu Benedikt Bjarklind stórtemplar, frú Sigþrúður Pétursdóttir og Loftur Guðmundsson rithöfundur.

Stefnuskrá framboðsins snerist nær einvörðungu um bindismál. Þar var þess krafist að borgarstjórn hætti að bjóða upp á vínveitingar í veislum, að hömlur á sölu áfengis væru auknar, fjárstuðningur til bindindissamtaka og að reist yrði ofdrykkjumannahæli.

Framboðið naut ekki formlegs stuðnings Góðtemplarahreyfingarinnar og lögðu málgögn Sjálfstæðisflokksins ríka áherslu á að eðlilegra væri að bindindismenn fylktu sér á bak við Sjálfstæðismenn. Ekki varð framhald á starfsemi Óháðra bindindismanna að kosningunum loknum.