Íslandsmeistarar í frjálsíþróttum
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. |
Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fór fyrst fram árið 1927, á íþróttavellinum á Melunum í Reykjavík, eða agana 6., 7. og 10. ágúst. Forveri þess var Allsherjarmót ÍSÍ sem farið hafði fram um nokkurra ára skeið en þar var keppni í frjálsíþróttum þungamiðjan.
Forstöðu fyrsta mótsins hafði Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) og var stjórn félagsins jafnframt framkvæmdanefnd mótsins. Keppendur voru 11, þar af 10 úr Reykjavík. Eini utanbæjarmaðurinn var Þorgeir Jónsson frá Gufunesi sem keppti fyrir Íþróttafélag Kjósarsýslu.
Það bar m.a. til tíðinda á mótinu, að 10.000 metra hlaupið var dæmt ónýtt eftir að annar keppandinn hratt hinum út úr brautinni að hálfnuðu hlaupi. Annars var keppt í 100, 200, 400, 800, 1500 og 5000 metra hlaupum, langstökki, þrístökki, hástökki, kúluvarpi, kringlukasti beggja handa og fimmtarþraut. Keppni var auglýst í spjótkasti en féll niður.