Fara í innihald

Ævintýri Alexar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ævintýri Alexar (franska: Alix) er heiti á vinsælum fransk-belgískum teiknimyndasögum eftir teiknarann Jacques Martin sem komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 1948. Sögurnar fjalla um ungan, gallverskan pilt, Alex, á dögum Júlíusar Sesars í Rómarveldi á 1. öld fyrir Krist. Ungur að árum er Alex hnepptur í þrældóm í fjarlægum hluta Rómaveldis, en tekst að ávinna sér frelsi og er síðan ættleiddur af rómverskum aðalsmanni. Ýmsar sögufrægar persónur frá tíma Rómaveldis koma við sögu í bókaflokknum, svo sem Pompeius, Kleópatra drottning Egyptalands og Júlíus Sesar. Bækurnar um Alex hafa víða hlotið lof fyrir vandvirkni og nákvæmni í endursköpun á hinum rómverska heimi og fyrir uppeldis- og fræðslugildi sitt. Höfundurinn Jaques Martin var mikill áhugamaður um sögu fornaldar og lagði mikið á sig til að tryggja raunsannar lýsingar á lífinu í Rómarveldi á 1. öld fyrir Krist. Hann leyfði sér þó nokkurt svigrúm í tíma: þannig gerast sumar sögurnar nokkrum öldum síðar. Bækurnar um Alex hafa verið þýddar á fjölmörg önnur tungumál, þar með talið á þýsku, spönsku, grísku, dönsku og sænsku. Sex bækur í bókaflokknum komu út á íslensku á vegum Fjölva-útgáfu á áttunda og níunda áratugnum.

Fyrsta ævintýri Alexar birtist upprunalega í fransk-belgíska teiknimyndablaðinu Tintin þann 16. september 1948. Höfundurinn Jacques Martin samdi sjálfur og teiknaði allar sögurnar í um 50 ár eða allt þar til hann þurfti að leggja teikniblýantinn á hilluna vegna aldurs árið 1998. Hann hélt þó áfram að semja sögurnar allt til ársins 2006 þegar aðrir tóku við keflinu. Hafa nú komið út samtals 36 bækur í bókaflokknum.

Eftirfarandi er listi yfir Alex-bækurnar sem Jacques Martin samdi og teiknaði. Sýnir listinn nöfn og útgáfuár bókanna á frönsku og íslenskt heiti og útgáfuár þar sem við á.

  1. Alex hugdjarfi (Alix l'intrépide, 1956) [Ísl. útg. 1974, bók 1]
  2. Gullni sfinxinn (Le sphinx d'or, 1956) [Ísl. útg. 1977, bók 2]
  3. Álagaeyjan (L'lle Maudite, 1957) [Ísl. útg. 1981, bók 5]
  4. La tiare d'Oribal, 1958.
  5. La griffe noire, 1959.
  6. Les légions perdues, 1965.
  7. Síðasti Spartverjinn (Le dernier Spartiate, 1967) [Ísl. útg. 1978, bók 4]
  8. Le tombeau étrusque, 1968.
  9. Le dieu Sauvage, 1970.
  10. Iorix le grand, 1972.
  11. Le prince du Nil, 1974.
  12. Le fils de Spartacus, 1975.
  13. Vofa Karþagóar (Le spectre de Carthage, 1977) [Ísl. útg. 1977, bók 3]
  14. Les proies du volcan, 1978.
  15. L'enfant grec, 1980.
  16. La tour de Babel, 1981.
  17. Keisarinn af Kína (L'empereur de Chine, 1983) [Ísl. útg. 1988, bók 6]
  18. Vercingétorix, 1985.
  19. Le cheval de Troie, 1988.
  20. O Alexandrie, 1996.