Ævintýri Alexar
Ævintýri Alexar (franska: Alix) er heiti á vinsælum fransk-belgískum teiknimyndasögum eftir teiknarann Jacques Martin sem komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 1948. Sögurnar fjalla um ungan, gallverskan pilt, Alex, á dögum Júlíusar Sesars í Rómarveldi á 1. öld fyrir Krist. Ungur að árum er Alex hnepptur í þrældóm í fjarlægum hluta Rómaveldis, en tekst að ávinna sér frelsi og er síðan ættleiddur af rómverskum aðalsmanni. Ýmsar sögufrægar persónur frá tíma Rómaveldis koma við sögu í bókaflokknum, svo sem Pompeius, Kleópatra drottning Egyptalands og Júlíus Sesar. Bækurnar um Alex hafa víða hlotið lof fyrir vandvirkni og nákvæmni í endursköpun á hinum rómverska heimi og fyrir uppeldis- og fræðslugildi sitt. Höfundurinn Jaques Martin var mikill áhugamaður um sögu fornaldar og lagði mikið á sig til að tryggja raunsannar lýsingar á lífinu í Rómarveldi á 1. öld fyrir Krist. Hann leyfði sér þó nokkurt svigrúm í tíma: þannig gerast sumar sögurnar nokkrum öldum síðar. Bækurnar um Alex hafa verið þýddar á fjölmörg önnur tungumál, þar með talið á þýsku, spönsku, grísku, dönsku og sænsku. Sex bækur í bókaflokknum komu út á íslensku á vegum Fjölva-útgáfu á áttunda og níunda áratugnum.
Fyrsta ævintýri Alexar birtist upprunalega í fransk-belgíska teiknimyndablaðinu Tintin þann 16. september 1948. Höfundurinn Jacques Martin samdi sjálfur og teiknaði allar sögurnar í um 50 ár eða allt þar til hann þurfti að leggja teikniblýantinn á hilluna vegna aldurs árið 1998. Hann hélt þó áfram að semja sögurnar allt til ársins 2006 þegar aðrir tóku við keflinu. Hafa nú komið út samtals 36 bækur í bókaflokknum.
Titlar
[breyta | breyta frumkóða]Eftirfarandi er listi yfir Alex-bækurnar sem Jacques Martin samdi og teiknaði. Sýnir listinn nöfn og útgáfuár bókanna á frönsku og íslenskt heiti og útgáfuár þar sem við á.
- Alex hugdjarfi (Alix l'intrépide, 1956) [Ísl. útg. 1974, bók 1]
- Gullni sfinxinn (Le sphinx d'or, 1956) [Ísl. útg. 1977, bók 2]
- Álagaeyjan (L'lle Maudite, 1957) [Ísl. útg. 1981, bók 5]
- La tiare d'Oribal, 1958.
- La griffe noire, 1959.
- Les légions perdues, 1965.
- Síðasti Spartverjinn (Le dernier Spartiate, 1967) [Ísl. útg. 1978, bók 4]
- Le tombeau étrusque, 1968.
- Le dieu Sauvage, 1970.
- Iorix le grand, 1972.
- Le prince du Nil, 1974.
- Le fils de Spartacus, 1975.
- Vofa Karþagóar (Le spectre de Carthage, 1977) [Ísl. útg. 1977, bók 3]
- Les proies du volcan, 1978.
- L'enfant grec, 1980.
- La tour de Babel, 1981.
- Keisarinn af Kína (L'empereur de Chine, 1983) [Ísl. útg. 1988, bók 6]
- Vercingétorix, 1985.
- Le cheval de Troie, 1988.
- O Alexandrie, 1996.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- https://www.lambiek.net/artists/m/martin_jacq.htm Sótt 28. nóv. 2017