Múhameð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Múhameð (محمد Muhammad) er, samkvæmt íslam, síðasti spámaður Guðs á jörðinni. Hann var uppi frá 570 til 632.

Uppvaxtarár Múhameðs[breyta]

Múhameð spámaður fæddist 20. apríl árið 570 í Mekka, faðir hans hafði dáið áður en hann fæddist svo hann var alinn upp af afa sínum Abd al-Muttalib.

Móðir Múhameðs dó þegar hann var 6 ára gamall og afi hans þegar hann var 8 ára. Eftir að afi hans dó var honum komið í fóstur hjá frænda sínum Abu Talib voldugum ættbálkahöfðingja í Mekka.

Múhameð átti seinna eftir að fylgja frænda sínum í verslunarleiðangra og fræðast um umheiminn. Múhameð giftist auðugri ekkju sem hét Khadijah árið 595, þau áttu saman fimm börn, fjórar dætur og einn son; öll börnin voru fædd áður en hann byrjaði að kenna íslam.

Byrjar að kenna íslam[breyta]

Árið 610 fékk Múhameð vitrun frá erkienglinum Gabríel sem sagði honum að hann væri spámaður Guðs og bæri að breiða út boðskap hans, þrem árum seinna byrjaði Múhameð að predika opinberlega í Mekka, flestir sem á hann hlustuðu virtu hann ekki viðlits en nokkrir hlustuðu á hann og hann byrjaði að safna um sig litlum hóp fylgjenda.

Þegar fylgjendum Múhameðs fjölgaði fóru ættbálkaleiðtogarnir í Mekka að óttast að hann gæti ógnað stjórn þeirra yfir Mekka. Bæði kona Múhameðs og frændi dóu árið 619 en eftir dauða frændans naut hann ekki lengur verndar Hashim ættbálksins.

Flóttinn frá Mekka[breyta]

Árið 622 eftir fjölda hótana og ofsókna flúðu Múhameð og fylgjendur hans frá Mekka til Medina þar sem hann aflaði sér margra fylgismanna. Þessi flótti er kallaður Hijira, það er við þessa dagsetningu sem múslimar miða dagatal sitt EH (Eftir Hijira). Óvinsemd milli Mekka og Medina óx stöðugt, árið 624 réðst Múhameð með hóp 300 múslima á úlfaldalest frá Mekka. Árásin mistókst og íbúar í Mekka ákváðu að senda lítinn her til Medina til að útrýma múslimum.

15. mars árið 624 börðust múslimar og íbúar Mekka nálægt Badr. Þó að herlið Mekka væri tvöfalt fjölmennara tókst múslimum að vinna sigur.

Snýr vörn í sókn[breyta]

Múslimar álitu að sigurinn við Badr hefði unnist fyrir tilskipan Allah, eftir sigurinn rak Múhameð alla gyðinga út úr borginni og eftir það voru nánast allir íbúar Medina múslimar.

Árið 625 réðst Abu Sufyan hershöfðingi frá Mekka á Medina með 3000 menn, þó að Abu Sufyan hefði unnið bardagann þá missti hann of marga menn til þess að elta múslimana inn í Medina.

Árið 627 réðst Abu Sufyan aftur á Medina, hann fékk hjálp frá gyðingaættbálknum Banu Qurayza sem Múhameð hafði rekið út úr Medina. En Múhameð hafði látið grafa skurð í kringum Medina og tókst að verjast öllum árásum Abu Sufyan.

Eftir bardagann var öllum karlmönnum og táningsdrengjum úr Banu Qurayza ættbálknum slátrað og konurnar og börnin voru seld sem þrælar.

Snýr aftur til Mekka[breyta]

Árið 628 voru múslimar orðnir svo voldugir að Múhameð þorði að snúa aftur til Mekka sem friðsamur pílagrímur. Með honum í för voru 1600 múslimar. Eftir nokkrar samningaviðræður var samningur undirritaður í smábænum al-Hudaybiyah nálægt Mekka, sem gaf múslimum leyfi til að ferðast til Mekka í pílagrímsferðir. Samingurinn var rofinn árið 630 og Múhameð réðst á Mekka með yfir 10.000 menn. Þegar íbúar Mekka sáu fjölda liðsmanna Múhameðs þá gáfust þeir upp án nokkurrar mótspyrnu. Átta árum eftir að Múhameð flúði frá Mekka sneri hann aftur sem sigurvegari.

Múhameð dó 8. júní árið 632, 63 ára gamall eftir skammvinn veikindi (talið er að hann hafi þjáðst af malaríu). Rúmum 100 árum eftir dauða hans höfðu múslimar lagt undir sig stór landsvæði allt frá miðausturlöndum til Spánar.