Fara í innihald

Logi Bergmann Eiðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Logi Bergmann Eiðsson (fæddur 2. desember 1966) er íslenskur fjölmiðlamaður og stjórnmálafræðingur.

Logi er fæddur í Reykjavík og eru foreldrar hans Valborg Sveinsdóttir húsmóðir og Eiður Bergmann Helgason fyrrverandi framkvæmdastjóri Þjóðviljans. Logi gekk í hjónaband með Svanhildi Hólm Valsdóttur, þáverandi sjónvarpskonu þann 16. júní 2005. Logi og Svanhildur eiga tvær dætur saman og Logi á einnig fjórar dætur með fyrrverandi konu sinni Ólöfu Dagnýju Óskarsdóttur.[1]

Menntun og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Logi Bergmann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla árið 1987 og námi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands árið 1994. Hann hóf nám í stjórnmálafræði við HÍ árið 1993[1] en gerði langt hlé á námi og útskrifaðist tuttugu og fimm árum síðar með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ árið 2018.[2]

Fjölmiðlaferill Loga hófst er hann var blaðamaður á Þjóðviljanum frá 1986-1988. Hann starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1988-1991. Logi Bergmann hóf störf sem íþróttafréttamaður á Ríkissjónvarpinu árið 1991 en fór síðan yfir í almennar fréttir. Hann var fréttamaður þar til ársins 2005 og var einnig varafréttastjóri Ríkissjónvarpsins frá 2001-2005.[1] Hann færði sig yfir til Stöðvar 2 árið 2005 og starfaði þar sem fréttamaður og þáttagerðarmaður til ársins 2017. Nokkrum dögum eftir að hann sagði upp störfum á Stöð 2, var tilkynnt að hann hefði verið ráðinn til starfa hjá fjölmiðlasamsteypu Árvakurs og Símans. Fyrirtækið 365 miðlar, sem þá rak Stöð 2 taldi að með því að ganga til liðs við annað fjölmiðlafyrirtæki hefði Logi brotið gegn ráðningarsamningi sínum og krafðist 365 miðlar lögbanns á störf hans hjá Árvakri og Símanum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu varð við þeirri beiðni og því hóf Logi ekki störf hjá Árvakri fyrr en töluvert síðar en til stóð.[3]

Hann gegndi stöðu spyrils í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, á árunum 1999 - 2005.

Logi hefur sungið lagið Run to the Hills með hljómsveitinni Iron Maiden á tónleikum á Spáni fyrir framan 15.000 áhorfendur.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn J-Ö bls. 552, (Reykjavík, 2003)
  2. Frettabladid.is, „Logi útskrifast eftir 25 ára nám: Lögbannið var lán í óláni“ (skoðað 9. janúar 2021)
  3. Visir.is, „Lögbann lagt á störf Loga Bergmann hjá Árvakri og Símanum“ (skoðað 9. janúar 2021)