Stöð 2

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Merki Stöðvar 2.

Stöð 2 er íslensk sjónvarpsstöð sem hefur verið starfandi frá því 9. október 1986. Stöðin var stofnuð að frumkvæði Jóns Óttars Ragnarssonar matvælafræðings og Hans Kristjáns Árnasonar hagfræðings. Valgerður Matthíasdóttir (Vala Matt) gekk svo til liðs við þá og var áberandi í útlitshönnun og dagskrárgerð stöðvarinnar frá upphafi. Í dag er Stöð 2 rekin af fyrirtækinu Sýn.

Saga Stöðvar 2[breyta | breyta frumkóða]

Nýju útvarpslögin 1986[breyta | breyta frumkóða]

Í stóra BSRB verkfallinu haustið 1984 lagðist nánast öll starfsemi RÚV niður og upp spruttu nokkrar ólöglegar útvarpsstöðvar. Í kjölfarið var farið að huga að endurskoðun útvarpslaga í menntamálaráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur. Ný lög, sem leyfðu einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, voru samþykkt á Alþingi 13. júní 1985 og tóku gildi í ársbyrjun 1986. Fram að þeim tíma höfðu verið starfandi á Íslandi tvær útvarpsstöðvar og ein sjónvarpsstöð, Rás 1 og Rás 2 og Ríkissjónvarpið.

Stofnun Stöðvar 2[breyta | breyta frumkóða]

Stöð 2 fór í loftið 9. október þetta sama ár sem áskriftarstöð með ruglaðri dagskrá þar sem þurfti að kaupa lykilnúmer og slá inn í myndlykil til að afrugla útsendinguna. Jón Óttar var sjónvarpsstjóri og þau Vala Matt voru áberandi á skjánum þessa fyrstu daga stöðvarinnar. Dagskráin var byggð upp á aðkeyptu afþreyingarefni, leiknu íslensku skemmtiefni og fréttum. Erfiðlega gekk að fá fjárfesta til að taka þátt í starfseminni til að byrja með. Í byrjun árs 1987 voru áskrifendur um fimm þúsund, en voru orðnir tæplega þrjátíu þúsund fyrir árslok. Á sama tíma fjölgaði starfsfólki og stöðin fór í samkeppni við RÚV um dagskrárgerðarfólk og fréttamenn, sem þótti fáheyrt.

Allar stöðvar verða Stöð 2[breyta | breyta frumkóða]

Margar systurstöðvar voru starfræktar undir sama fyrirtæki en árið 2008 voru þær allar sameinaðar undir nafn stöðvar 2, þannig varð íþrótta-stöðin Sýn að Stöð 2 Sport. Sirkus varð að Stöð 2 Extra og Fjölvarpið varð að Stöð 2 Fjölvarp aftur á móti hélt Stöð 2 Bíó sínu nafni.

Þættir í sýningu[breyta | breyta frumkóða]

Fréttatengt[breyta | breyta frumkóða]

  • Kvöldfréttir, öll kvöld klukkan 18:30.
  • Hádegisfréttir, alla daga klukkan 12:00 (Sendar út á Bylgjunni)
  • Ísland í dag, Umsjónarmenn þáttarins fara yfir helstu tíðindi dagsins úr pólitík, menngingu og mannlífinu. Ítarlegur íþróttapakki og veðurfréttir.
  • Ísland í bítið/Í bítið á Bylgjunni, eini morgunþátturinn í íslensku sjónvarpi. Frá kl. 6:50 til 9:00. Umsjónarmenn: Heimir, Solla og Þráinn.
  • Silfur Egils, sunnudagsspjallþáttur um atburði liðinnar viku. (Sýnt á RÚV)
  • Kompás, Vikulegur fréttaskýringaþáttur Fréttastofu Stöðvar 2, þriðjudaga klukkan 21:40.

Innlent[breyta | breyta frumkóða]

Barnatíminn[breyta | breyta frumkóða]

Barnatíminn er fastur liður Stöðvar 2. Alla virka daga hefst hann klukkan 16:00 og endar 17:30. Hann er líka sýndur um helgar frá 07:00 til 12:00. Á helgidögum er líka sýndur barnatími þegar börnin borða páskaeggin sín eða bíða eftir jólum. Einkennismerki barnatímans er hoppandi grænn fugl sem kynnir næsta þátt. Einnig sjást bregða fyrir kettir og fleiri dýr þegar þátturinn er kynnntur. Barnatími Stöðvar 2 sýnir bæði þætti fyrir þau yngstu og þau eldri börnin.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]