Fara í innihald

Leoncie

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Leoncie (réttu nafni Leoncia María Martin, fædd 19. mars 1953) er listamannsnafn indversk-íslenskrar söngkonu sem hefur stundum kallað sig „indversku prinsessuna“ (e. Indian Princess Leoncie) eða „Ískryddið“ (e. Icy Spicy Leoncie).[1] Hún er þekkt fyrir óvenjulega tónlist sína og tónlistarmyndbönd, og umdeildar yfirlýsingar í fjölmiðlum.

Tónlistarstíll Leonciar, „austurlenskt diskópopp leikið á skemmtara“[2], þykir óvenjulegur. Lög hennar eru ýmist á ensku eða íslensku og textinn er oft af kynferðislegum toga. Meðal þekktustu laga hennar eru Ást á pöbbnum, Enginn þríkantur hér, Gay World, og Wrestler. Hún á sér dyggan aðdáendahóp og tónlist hennar hefur náð ákveðinni költ-stöðu.

Leoncie er þekkt fyrir að fara mikinn í viðtölum við fjölmiðla, á Fésbókarsíðu sinni, og í athugasemdakerfum dagblaða. Hún hefur farið hörðum orðum um ýmsa listamenn, ríkisstofnanir og stjórnmálamenn, og endurtekið sakað landa sína um frændhygli, einelti, og kynþáttahatur.

Leoncie er fædd í Góa-héraðinu á miðvesturströnd Indlands. Hún er af indverskum og portúgölskum ættum, en Góa var portúgölsk nýlenda fram til 1961.[3] Móðurmál hennar er konkaní. Að eigin sögn stundaði hún nám við Trinity College of Music í Lundúnum og er með BA-gráðu í enskum bókmenntum.

Leoncie kom til Íslands árið 1982 eftir að hafa búið í Danmörku í 2 ár,[4] og starfaði hér sem skemmtikraftur í allnokkur ár. Hún kynntist fljótt eiginmanni sínum, Viktori Albertssyni, sem hefur verið umboðsmaður hennar og oft leikið í myndböndum hennar.

Árið 1997 fluttist hún aftur til Danmerkur.[3] Hún sneri aftur árið 2000 en flutti svo aftur út 2004 og ætlaði sér að öðlast frægð á Englandi.[5] Hún tók hún þátt í áheyrnarprufum fyrir X-factor í Bretlandi 2006. Árið 2012 sneri Leoncie aftur til Íslands og hélt tvenna tónleika fyrir fullu húsi.

Leoncie er kaþólsk.[6] Hún býr í Keflavík en hefur áður búið í Kópavogi og Sandgerði.

  • My Icelandic Man (1985). Á plötuumslaginu er mynd af Leoncie og kraftlyftingamanninum Jóni Páli.
  • Story from Brooklyn (1992)
  • Love Message from Overseas (2001 eða 2003). Á plötunni er dúett með Páli Óskari.
  • Sexy Loverboy (2002)
  • Invisible Girl (2005)
  • Radio Rapist-Wrestler (2005)
  • Pukki Bollywood Baby (2008)
  • Wild American Sherrif (2009)
  • Dansaðu við Leoncie (2011)
  • Gay World (2012)
  • Mr. Lusty (2017)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Icy Spicy Leoncie gefur út sína fimmtu plötu“, Mbl.is 1. nóvember 2003.
  2. Leoncie. Glatkistan, 2015.
  3. 3,0 3,1 Prinsessan opnar sig. DV, 28. september 2002.
  4. Myndarlegustu karlmenn sem ég hef hitt. Tíminn, 15 október 1982
  5. „Leoncie farin“, Mbl.is 30. mars 2004.
  6. „Enginn rænir Leoncie þrumunni“, Mbl.is 9. júní 2003.