Leonardo da Vinci

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi mynd af Leonardo eftir Francesco Melzi frá um 1515 til 1518 er eina samtímamyndin sem er örugglega talin vera af honum.

Leonardo da Vinci (15. apríl 14522. maí 1519) var ítalskur endurreisnarmaður; málari, myndhöggvari, arkitekt, vísindamaður, stærðfræðingur,[1] verkfræðingur og uppfinningamaður sem kom inn á ýmis svið, svo sem líffærafræði, tónlist, náttúrufræði, rúmfræði, kortagerð og grasafræði. Hann var lengi fyrst og fremst þekktur sem myndlistarmaður, en hefur síðar orðið frægur fyrir umfangsmiklar og ítarlegar stílabækur þar sem hann teiknaði og skrifaði um ýmis efni, eins og líffærafræði, stjörnufræði, grasafræði, kortagerð, málun og steingervingafræði.[2] Vegna snilligáfu sinnar hefur Leonardo verið nefndur sem dæmi um hinn fullkomna húmanista endurreisnartímans.

Vítrúvíski maðurinn

Leonardo da Vinci fæddist utan hjónabands árið 1452, hugsanlega í þorpinu Vinci nálægt Flórens á Ítalíu. Foreldrar hans voru lögmaðurinn Piero Frusino di Antonio da Vinci og verkakonan Catarina. Faðir Leonardo kvæntist fjórum sinnum og Leonardo eignaðist ellefu hálfsystkini. Hann var í litlu sambandi við þau, meðal annars vegna mikils aldursmunar, og lenti í deilum við þau vegna arfs eftir föður sinn þegar hann lést. Leonardo gerðist lærlingur hjá myndlistarmanninum Andrea del Verrocchio í Flórens. Síðar starfaði hann lengi sem hirðmálari hjá Ludovico Sforza í Mílanó. Eftir það sneri hann aftur til Flórens um stutt skeið og fór svo til Rómar þar sem hann starfaði fyrir Leó 10. páfa, ásamt bæði Michelangelo og Raffaello Sanzio. Eftir fund páfa og Frans 1. Frakkakonungs í Bologna árið 1516, gekk Leonardo í þjónustu hans og flutti í herragarðinn Clos Lucé í Amboise þar sem hann bjó til dauðadags. Hann vann ýmis verk fyrir konung eins til dæmis ljónastyttu sem gat gengið. Leonardo da Vinci lést 67 ára árið 1519 vegna heilablóðfalls. Góður vinur hans, Francesco Melzi, fékk stærsta hlutann af eigum hans, bæði reiðufé, málverk og ýmsa persónulega muni. Leonardo er grafinn í kapellu heilags Húberts í kirkju í höllinni Château d'Amboise í Frakklandi.

Leonardo hefur verið kallaður helsti meistari listasögunnar og upphafsmaður háendurreisnarinnar á 16. öld. Þrátt fyrir að innan við 25 málverk séu þekkt eftir hann, þar á meðal mörg ókláruð og umdeild verk, er hann talinn áhrifamesti listamaðurinn í vestrænni myndlist. Þekktasta verk hans, Mona Lisa, er talið frægasta málverk heims[3] og Síðasta kvöldmáltíðin er eitt þekktasta kristilega trúarmálverk allra tíma. Þekktasta skissan hans er teikningin Vitrúvíski maðurinn sem er mynd af mannslíkamanum og er algeng táknmynd í ýmsu samhengi. Málverkið Salvator Mundi seldist á uppboði árið 2017 fyrir 450,3 milljónir dala, sem var heimsmet í málverkasölu á opinberu uppboði.

Leonardo da Vinci er ekki síður minnst fyrir fjölmargar uppfinningar sem hann teiknaði í stílabækur sínar og fæstar urðu að veruleika.[4] Meðal þeirra er hugmynd að „bardagavél“ (eins konar frumgerð skriðdreka), ýmsar tegundir flugvéla, hugmyndir um hagnýtingu sólarorku með linsum, reiknivél og tvöfaldur skipsskrokkur. Tiltölulega fáar af uppfinningum hans voru í raun mögulegar, þar sem bæði málmfræði og verkfræði voru að stíga sín fyrstu skref á þeim árum sem hann lifði. Sumar af uppfinningunum urðu þó að veruleika, eins og vél til að vinda þráð upp á kefli og tæki til að mæla togstyrk víra. Hann gerði mikilvægar uppgötvanir á sviðum líffærafræði, verkfræði, vökvaaflfræði, jarðfræði, ljósfræði og núningsfræði, en gaf þær ekki út, svo þær höfðu lítil áhrif á þróun vísindanna eftir hans dag.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Æska (1452–1472)[breyta | breyta frumkóða]

Fæðingarvottorð Leonardo Da Vinci.

Leonardo da Vinci, fullt nafn Leonardo di ser Piero da Vinci („Leonardo, sonur herra Piero frá Vinci“)[5][6] fæddist 15. apríl árið 1452 í eða nálægt þorpinu Vinci, um 30 km frá Flórens.[7][8] Hann var óskilgetinn sonur Piero da Vinci (Ser Piero da Vinci d'Antonio di ser Piero di ser Guido; 1426–1504)[9] sem var lögbókandi frá Flórens,[7] og Caterinu di Meo Lippi (um 1434–1494) sem var af lægri stigum.[10][11] Fæðingarstaður Leonardos er óviss. Samkvæmt munnlegri hefð, sem sagnfræðingurinn Emanuele Repetti segir frá,[12] er hann sagður hafa fæðst í hverfinu Anchiano þar sem fæðingin gat farið fram í kyrrþey. Það er samt líka mögulegt að hann hafi fæðst í húsi í Flórens, sem ser Piero átti örugglega á þeim tíma.[13] Foreldrar Leonardos giftust öðrum sama ár og hann fæddist. Caterina, sem í skrifum Leonardos síðar er einfaldlega nefnd „Caterina“ eða „Catelina“—er oftast talin hafa verið Caterina Buti del Vacca sem giftist iðnaðarmanninum Antonio di Piero Buti del Vacca.[10][12] Ser Piero giftist Albieru Amadori, sem hann hafði trúlofast árið áður, og eftir andlát hennar 1464 giftist hann þrisvar.[12][14] Leonardo eignaðist 16 hálfsystkini (þar af 11 sem komust á legg)[15] sem voru yngri en hann (það síðasta fæddist þegar Leonardo var 46 ára gamall)[15] og hann hafði lítil tengsl við.

Hugsanlegur fæðingarstaður og æskuheimili Leonardos í Anchiano, Vinci, Ítalíu

Mjög lítið er vitað um barnæsku Leonardos og mikið af því eru munnmælasögur. Að hluta er það vegna þess að þekktasta ævisaga hans er Le vite de' più eccellenti pittori, scultori, e architettori eftir Giorgio Vasari frá 1550. Vasari vísar oft í sögusagnir sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum.[16][17] Samkvæmt skattaskjölum bjó hann alla vega árið 1457 í húsi föðurafa síns, Antonio da Vinci,[7] en hugsanlega var hann áður í umsjá móður sinnar í Vinci, annað hvort í Anchiano eða Campo Zeppi, í San Pantaleone-sókn.[18][19] Hann er talinn hafa verið náinn frænda sínum, Francesco da Vinci,[20] en faðir hans hélt sig líklega mest í Flórens.[7] Ser Piero, sem var af mikilli ætt lögbókanda, kom sér upp lögheimili í Flórens að minnsta kosti frá 1469, og átti þar farsælan feril.[7] Þrátt fyrir ætternið fékk Leonardo litla og óformlega menntun í lestri og skrift (á alþýðumáli), og stærðfræði. Hugsanlega hafa listrænir hæfileikar hans komið snemma í ljós og fjölskyldan ákveðið að leggja heldur áherslu á þá.[7]

Síðar skrifaði Leonardo niður fyrstu minningu sína (nú í handritinu Codex Atlanticus).[21] Þar sem hann skrifar um flug fugla segist hann muna eftir að hafa legið í vöggu þegar völsungur flaug til hans og opnaði munn hans með stélinu. Deilt er um hvort þessi saga sé raunveruleg minning eða ímyndun.[22]

Á verkstæði Verrocchios[breyta | breyta frumkóða]

Kristur skírður (1472–1475) eftir Verrocchio og Leonardo, Uffizi.

Um miðjan 7. áratuginn flutti fjölskylda Leonardos til Flórens, sem á þeim tíma var helsta miðstöð fornmenntastefnunnar.[23] Þegar hann var um 14 ára[24] varð hann vikapiltur (garzone) á verkstæði Andrea del Verrocchio, sem var helsti listmálari og höggmyndasmiður borgarinnar á þeim tíma.[23] Þetta var um sama leyti og kennari Verrocchios, höggmyndasmiðurinn Donatello, lést. Leonardo varð lærlingur 17 ára og var sjö ár í læri.[25] Aðrir frægir listamenn sem lærðu á verkstæðinu eða tengdust því með öðrum hætti voru meðal annars Ghirlandaio, Perugino, Botticelli og Lorenzo di Credi.[26][27] Leonardo fékk bæði bóklega og verklega menntun,[28] meðal annars í tækniteikningu, efnafræði, málmfræði og málmvinnslu, gerð gifsmóta, leðurvinnslu, vélfræði og tréskurði, auk þess að læra teikningu, málun og mótun höggmynda.[29]

Leonardo var samtímamaður Botticellis, Ghirlandaios og Peruginos, sem allir voru eilítið eldri en hann.[30] Hann hefur hitt þá á verkstæði Verrocchios eða í Platónsku akademíunni hjá Medici-fjölskyldunni.[26] Í Flórens var þá mikið af listaverkum eftir samtímamenn Donatellos, eins og Masaccio og Lorenzo Ghiberti. Piero della Francesca hafði auk þess samið áhrifamikla ritgerð um fjarvídd[31] og var fyrsti listamaðurinn sem fékkst við vísindarannsóknir á ljósi. Ásamt ritgerð Leon Battista Alberti, De pictura, höfðu þessi skrif mikil áhrif á yngri kynslóð listamanna, og sérstaklega á bæði athuganir og listaverk Leonardos.[32][33]

Verrocchio lét aðstoðarmenn sína um að mála mikið af þeim myndum sem verkstæði hans framleiddi. Samkvæmt Vasari vann Leonardo að myndinni Kristur skírður (um 1472–1475) og málaði engilinn unga sem heldur á skikkju Jesú af slíkri list að Verrocchio lagði frá sér pensilinn og hét því að mála aldrei framar.[‡ 1] Það síðastnefnda er þó líklega þjóðsaga.[34] Í myndinni er olíumálning, sem var nýtt efni, notuð að hluta í málverki sem er að mestu úr tempera, þar á meðal í landslagið, klettana sem sjást á bak við ána, og mikið af líkama Jesú, þar á meðal höndina.[35] Leonardo gæti auk þess hafa setið fyrir í tveimur myndum eftir Verrocchio: annars vegar fyrir bronsstyttuna af Davíð sem stendur í Bargello, og hins vegar fyrir Rafael erkiengil í myndinni Tóbías og engillinn.[34]

Vasari segir þá sögu af Leonardo, að þegar hann hafi verið ungur maður hafi bóndi nokkur smíðað sér hringlaga skjöld og beðið Ser Piero um að láta mála á hann. Leonardo hafi þá málað á skjöldinn mynd af Medúsu sem spúði eldi. Myndin var svo ógnvænleg að faðir hans keypti annan skjöld handa bóndanum, en seldi skjöld Leonardos til listaverkasala í Flórens fyrir 100 dúkata. Hann seldi svo hertoganum af Mílanó skjöldinn.[‡ 2]

Fyrsta dvöl í Flórens (1472–um 1482)[breyta | breyta frumkóða]

Lotning vitringanna um 1478–1482, Uffizi, Flórens.

Árið 1472, þegar hann var tvítugur að aldri, varð Leonardo meistari í Lúkasargildi þar sem meðlimir voru myndlistarmenn og læknar. Jafnvel þótt faðir hans hafi greitt fyrir verkstæði handa honum, var hann svo tengdur Verrocchio að hann hélt áfram að starfa með og búa hjá honum.[26][36] Elsta dagsetta verkið eftir Leonardo einan er pennateikning af árdal Arnó frá 1473.[27][37] Samkvæmt Vasari var Leonardo sá fyrsti sem stakk upp á því að gera ána skipgenga milli Flórens og Písa.[38]

Í janúar 1478 fékk Leonardo pöntun þar sem hann var beðinn um að mála altaristöflu fyrir kapellu heilags Bernharðs í Palazzo Vecchio,[39] sem sýnir að hann var orðinn sjálfstæður meistari. Óþekktur ævisagnaritari hans sem kallaður er Ónefndur Gaddiano, hélt því fram að hann hafi búið hjá Medici-fjölskyldunni um 1480 og hafi oft starfað í garðinum við Piazza San Marco, þar sem nýplatónskur skóli listamanna, skálda og heimspekinga, kom saman undir verndarvæng Medici-fjölskyldunnar. Í mars 1481 fékk hann pöntun frá munkum í kirkjunni San Donato in Scopeto til að mála Lotningu vitringanna.[40] Hann lauk við hvoruga pöntunina og hvarf frá verkinu þegar hann ákvað að bjóða Ludovico Sforza þjónustu sína. Leonardo ritaði Sforza bréf þar sem hann lýsti því sem hann gæti gert á sviði verkfræði og vopnahönnunar, og minntist á að hann gæti líka málað.[27][41] Hann tók með sér strengjahljóðfæri úr silfri, annað hvort lútu eða lýru, sem var í laginu eins og hestshöfuð.[41]

Leonardo heimsótti Medici-höllina ásamt Alberti, og kynntist þar eldri húmanískum heimspekingum á borð við nýplatónistann Marsilio Ficino, fornfræðinginn Cristoforo Landino, og grískukennarann og þýðandann Jóhannes Argyropoulos. Á þeim tíma var skáldið og heimspekingurinn Pico della Mirandola líka viðloðandi akademíuna.[30][33][42] Árið 1482 sendi Lorenzo de' Medici Leonardo sem erindreka til Ludovico il Moro, sem ríkti yfir Mílanó milli 1479 og 1499.[30][34]

Fyrsta dvöl í Mílanó (um 1482–1499)[breyta | breyta frumkóða]

Klettamærin, um 1483–1493, útgáfan í Louvre.

Leonardo starfaði í Mílanó frá 1482 til 1499. Hann var ráðinn til að mála Klettamærina fyrir Bræðralag hins heilaga getnaðar fyrir klaustrið Santa Maria delle Grazie.[43] Vorið 1485 ferðaðist Leonardo til Ungverjalands til að heimsækja konunginn, Matthias Corvinus, fyrir hönd Sforza. Corvinus fékk hann til að mála Maríumynd.[44] Árið 1490 voru hann og Francesco di Giorgio Martini ráðnir sem ráðgjafar fyrir byggingu Dómkirkjunnar í Pavía[45][46] þar sem hann varð fyrir áhrifum frá riddarastyttunni Regisole sem hann gerði teikningu af.[47] Sforza fékk Leonardo alls kyns önnur verkefni, eins og að hanna vagna og skrautsýningar fyrir sérstök tilefni. Hann gerði teikningu og líkan af hvolfþaki fyrir Dómkirkjuna í Mílanó,[48] og líkan af risavaxinni riddarastyttu tileinkaðri Francesco Sforza, fyrirrennara Ludovicos. Ef hún hefði verið reist hefði hún verið stærri en tvær slíkar styttur sem reistar voru á endurreisnartímanum: stytta Donatellos af Gattamelata í Padúa og Bartolomeo Colleoni eftir Verrocchio í Feneyjum. Hún varð þekkt sem „stóri hesturinn“ (grande cavallo).[27] Leonardo gerði líkan af hestinum og áætlun fyrir afsteypuna,[27] en í nóvember 1494 gaf Ludovico mági sínum, Ercole 1. af Este, málminn til að nota í fallbyssu til að verja borgina fyrir Karli 8. Frakkakonungi.[27]

Samkvæmt bréfum frá þessum tíma fékk hertoginn af Mílanó Leonardo og aðstoðarmenn hans til að mála salinn Sala delle Asse í Kastala Sforza um 1498.[49] Úr varð trompe-l'œil-skreyting þar sem salurinn virtist vera með laufþak gert úr samtvinnuðum greinum sextán mórberjatrjáa.[50] Trjákrónurnar mynduðu flækju úr laufum og hnútum á loftinu.[51]

Önnur dvöl í Flórens (1500–1508)[breyta | breyta frumkóða]

María og Jesúbarnið með heilagri Önnu og Jóhannesi skírara, um 1499–1508, National Gallery, London.

Þegar Frakkar steyptu Ludovico Sforza af stóli árið 1500, flúði Leonardo frá Mílanó til Feneyja, ásamt vini sínum og aðstoðarmanni, Salaì, og stærðfræðingnum Luca Pacioli.[53] Í Feneyjum fékk hann vinnu sem hertæknifræðingur og verkfræðingur, og hannaði tækni til að verja borgina fyrir árás af hafi.[26] Hann sneri aftur til Flórens sama ár og gisti, ásamt föruneyti sínu, í klaustrinu Santissima Annunziata, þar sem hann fékk aðgang að verkstæði. Samkvæmt Vasari gerði hann þar teikningu af Maríu og Jesúbarninu með heilagri Önnu og Jóhannesi skírara sem vakti svo mikla athygli að „karlar [og] konur, ungir og aldnir“ flykktust til að sjá hana „eins og þau væru á leið á trúarhátíð“.[‡ 3]

Í Cesena árið 1502 gekk Leonardo í þjónustu Cesare Borgia, sonar Alexanders 6. páfa, þar sem hann gegndi hlutverki hernaðarverkfræðings og ferðaðist um alla Ítalíu með yfirmanni sínum.[53] Leonardo gerði kort af helstu bækistöð Cesare Borgia, borginni Imola, til að komast í þjónustu hans. Þegar hann sá kortið, réði Cesare Leonardo sem aðalhertæknifræðing sinn og byggingameistara. Seinna sama ár gerði Leonardo annað kort handa yfirmanni sínum, af Val di Chiana í Toskana, til að gefa honum betri yfirsýn yfir landið og þar með hernaðarlega yfirburði. Hann gerði kortið samhliða öðru verkefni, sem var að gera skurð frá dalnum til Flórens til að tryggja stöðugt flæði vatns þar árið um kring.

Leonardo hvarf úr þjónustu Borgia og sneri aftur til Flórens snemma árs 1503,[54] þar sem hann gekk í Lúkasargildi 18. október sama ár. Í sama mánuði hóf hann að mála andlitsmynd af Lisa del Giocondo, sem varð Mona Lisa.[55][56] Hann hélt áfram vinnu við málverkið fram á efri ár. Í janúar 1504 varð hann hluti af nefnd sem átti að finna stað fyrir Davíð eftir Michelangelo.[57] Næstu tveimur árum varði hann í að mála fresku af Orrustunni við Anghiari fyrir borgarstjórnina,[53] meðan Michelangelo málaði systurmálverkið, Orrustuna við Cascina.

Árið 1506 boðaði Karl 2. af Amboise, landstjóri Frakka í borginni, Leonardo til Mílanó.[58] Þar tók Leonardo að sér annan lærling, greifann Francesco Melzi sem var sonur aðalsmanns frá Langbarðalandi og er talinn hafa verið eftirlætisnemandi hans.[26] Bæjarráð Flórens vildi að Leonardo sneri aftur til að ljúka við Orrustuna við Anghiari, en hann fékk leyfi að undirlagi Loðvíks 12. sem vildi ráða listamanninn til að gera nokkrar andlitsmyndir.[58] Hugsanlega hóf Leonardo vinnu við riddarastyttu af d'Amboise.[59] Til er vaxlíkan sem, ef það er ekta, er eina varðveitta dæmið um höggmyndalist Leonardos. Leonardo fékk frjálsar hendur til að fást við vísindarannsóknir sínar.[58] Margir af frægustu nemendum Leonardos kynntust honum eða störfuðu með honum í Mílanó.[26] Þeirra á meðal eru Bernardino Luini, Giovanni Antonio Boltraffio og Marco d'Oggiono. Árið 1507 var Leonardo í Flórens til að leysa deilur við bræður sínar út af dánarbúi föður þeirra, sem lést árið 1504.

Önnur dvöl í Mílanó (1508–1513)[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1508 var Leonardo aftur kominn til Mílanó þar sem hann bjó í eigin húsi við Porta Orientale, í Santa Babila-sókin.[60]

Árið 1512 vann hann við teikningar að riddarastyttu fyrir Gian Giacomo Trivulzio, en ekkert varð af henni þegar bandalag herja frá Sviss, Spáni og Feneyjum gerði innrás og hrakti Frakka frá borginni. Leonardo varð eftir í borginni, en dvaldi í nokkra mánuði í herragarði Medici-ættarinnar í Vaprio d'Adda.[61]

Róm og Frakkland (1513–1519)[breyta | breyta frumkóða]

Syndaflóð sem Leonardo teiknaði með svartri krít síðustu árin (hluti af 10 mynda röð sem fylgir rituðum athugasemdum í stílabókum hans).[62]

Í mars 1513 tók Giovanni, sonur Lorenzo de' Medici, við páfadómi sem Leó 10. Leonardo hélt til Rómar í september sama ár, þar sem bróðir páfans, Giuliano de' Medici, hertogi af Nemours, tók á móti honum.[61] Frá september 1513 til 1516 hélt Leonardo sig mest í Belvedere-hallargarðinum í Páfahöllinni, þar sem bæði Michelangelo og Raffaello Sanzio unnu líka.[60] Leonardo fékk 33 dúkata í lífeyri á mánuði, og samkvæmt Vasari skreytti hann eðlu með hreisturflögum sem hann dýfði í kvikasilfur.[63] Páfinn réði hann til að mála mynd af óþekktu viðfangsefni, en afpantaði þegar listamaðurinn hóf að þróa nýja tegund af lakki.[63] Leonardo veiktist vegna þess sem gæti hafa verið hið fyrsta af mörgum heilablóðföllum sem drógu hann að lokum til dauða.[63] Hann lagði stund á grasafræði í Vatíkangörðunum og var ráðinn til að gera teikningar fyrir fyrirætlanir páfa um að þurrka upp Páfamýrarnar.[64] Hann krufði líka lík og skrifaði niður athugasemdir fyrir ritgerð um raddböndin.[65] Hann lét embættismann hafa hana, í von um að komast aftur í náðina hjá páfa, en án árangurs.[63]

Í október 1515 náði Frans 1. Frakkakonungur Mílanó aftur á sitt vald.[40] Leonardo var viðstaddur fund Frans og Leós 10. í Bologna þann 19. desember.[26][66][67] Árið 1516 gekk Leonardo í þjónustu Frans og fékk til afnota herragarðinn Clos Lucé, nálægt bústað konungsins í Château d'Amboise. Frans heimsótti hann oft og hann gerði teikningu af stórum kastalabæ sem konungur hugðist reisa í Romorantin. Hann bjó líka til vélljón, sem gekk til konungsins í skrautsýningu, og þegar það var slegið með sprota opnaðist bringa þess og liljuvöndur kom í ljós.[68][‡ 3] Á þessum tíma var Leonardo með vini sínum og nemanda, Francesco Melzi, og fékk 10.000 skúta lífeyri.[60] Á einhverjum tímapunkti teiknaði Melzi fræga andlitsmynd af Leonardo. Aðeins tvær aðrar samtímamyndir eru þekktar: ein skyssa eftir óþekktan aðstoðarmann á bakhlið einnar af skyssum Leonardos (frá um 1517)[69] og teikning eftir Giovanni Ambrogio Figino sem sýnir aldraðan Leonardo með hægri höndina vafða inn í klæði.[70] Ásamt heimild um heimsókn Luigi d'Aragona í október 1517, staðfestir myndin þá sögu að hægri hönd Leonardos hafi lamast þegar hann var 65 ára,[71] sem gæti skýrt af hverju hann lauk ekki við málverk eins og Monu Lisu.[72][73][74] Hann hélt samt áfram að vinna eins og hann gat þar til hann veiktist að lokum og varð rúmfastur í nokkra mánuði.[71]

Andlát[breyta | breyta frumkóða]

Leonardo lést í Clos Lucé 2. maí 1519, 67 ára að aldri, hugsanlega úr heilablóðfalli.[75][74][76] Frans 1. var orðinn náinn vinur hans og Vasari segir að Leonardo hafi grátið á dánarbeði sínu, fullur iðrunar yfir að hafa „misboðið guði og mönnum með því að mistakast að ástunda list sína eins og hann hefði átt að gera.“[77] Vasari segir að síðustu dagana sem hann lifði hafi Leonardo sent eftir presti til að hlýða á játningar sínar og veita sér sakramenti.[‡ 4] Vasari segir líka að konungur hafi haldið höfði Leonardos þegar hann dó, þótt það geti verið þjóðsaga. Samkvæmt erfðaskrá hans fylgdu sextíu betlarar kistu hans með kerti.[42] Melzi var aðalerfingi og dánarbússtjóri Leonardos. Auk peninga, fékk hann málverk Leonardos, verkfæri hans, bókasafn og persónulega muni. Annar lærisveinn Leonardos til margra ára, Salaì, og Baptista de Vilanis, þjónn hans, fengu hvor um sig helming af vínekrum Leonardos.[78] Bræður hans fengu landareignir og þjónustustúlkan hans fékk kápu með loðkraga. Þann 12. ágúst 1519 voru líkamsleifar Leonardos grafnar í kirkju heilags Florentins í Château d'Amboise.[79]

Teikning af Château d'Amboise frá um 1518 sem er eignuð Francesco Melzi.

Salaì eða Il Salaino („litli sóðinn“, það er djöfullinn) gerðist aðstoðarmaður Leonardos árið 1490. Aðeins ári síðar gerði Leonardo lista yfir syndir hans og sagði að hann væri „þjófur, lygari, þrjóskur og gráðugur,“ eftir að hann hafði stolið peningum og öðrum verðmætum í minnst fimm skipti og eytt stórfé í föt.[80] Samt sem áður hélt Leonardo mikið upp á hann og hann bjó hjá honum næstu þrjátíu árin.[81] Salaì málaði nokkur málverk sem voru merkt Andrea Salaì, en þótt Vasari haldi því fram að Leonardo hafi „kennt honum margt um málverk,"[‡ 3] eru verk hans almennt talin hafa minna listrænt gildi en önnur verk eftir lærisveina Leonardos, eins og Marco d'Oggiono og Boltraffio.

Þegar hann lést árið 1524 átti Salai málverk sem var nefnt Joconda samkvæmt yfirliti yfir dánarbú hans. Það var metið á 505 lírur, sem var óvenju mikið fyrir lítið spjaldmálverk.[82] Um 20 árum eftir lát Leonardos sagði gullsmiðurinn Benvenuto Cellini að Frans konungur hefði sagt: „Sá maður hefur aldrei fæðst í þennan heim sem vissi jafn mikið og Leonardo; ekki aðeins um málverk, höggmyndir og byggingarlist, heldur var hann frábær heimspekingur.“[83]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Eldri heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Vasari 1991, bls. 287
  2. Vasari 1991, bls. 287–289
  3. 3,0 3,1 3,2 Vasari 1991, bls. 293
  4. Vasari 1991, bls. 297

Yngri heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Lagði Leonardó da Vinci eitthvað af mörkum til stærðfræðinnar?“. Vísindavefurinn.
  2. „Af hverju er svona erfitt að lesa minnisbækur Leonardó da Vinci?“. Vísindavefurinn.
  3. „Af hverju er málverkið af Mónu Lísu svona frægt? Eru til fleiri gerðir af því en ein?“. Vísindavefurinn.
  4. „Hvað voru uppfinningar Leonardós da Vincis margar og hverjar voru þær?“. Vísindavefurinn.
  5. Brown 1998, bls. 7.
  6. Kemp 2006, bls. 1.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 7,5 Brown 1998, bls. 5.
  8. Nicholl 2005, bls. 17.
  9. Bambach 2019, bls. 16, 24.
  10. 10,0 10,1 Marani 2003, bls. 13.
  11. Bambach 2019, bls. 16.
  12. 12,0 12,1 12,2 Bambach 2019, bls. 24.
  13. Nicholl 2005, bls. 18.
  14. Kemp & Pallanti 2017, bls. 65.
  15. 15,0 15,1 Kemp & Pallanti 2017, bls. 65–66.
  16. Brown 1998, bls. 1, 5.
  17. Marani 2003, bls. 12.
  18. Brown 1998, bls. 175.
  19. Nicholl 2005, bls. 28.
  20. Kemp 2003.
  21. Nicholl 2005, bls. 30, 506.
  22. Nicholl 2005, bls. 30. Sjá s. 506 fyrir ítölsku útgáfuna.
  23. 23,0 23,1 Rosci 1977, bls. 13.
  24. Wallace 1972, bls. 11.
  25. Bacci, Mina (1978) [1963]. The Great Artists: Da Vinci. Þýðing eftir Tanguy, J. New York: Funk & Wagnalls.
  26. 26,0 26,1 26,2 26,3 26,4 26,5 26,6 Bortolon 1967.
  27. 27,0 27,1 27,2 27,3 27,4 27,5 Arasse 1998.
  28. Rosci 1977, bls. 27.
  29. Martindale 1972.
  30. 30,0 30,1 30,2 Rosci 1977, bls. 9–20.
  31. Piero della Francesca, De Prospectiva Pingendi
  32. Hartt 1970, bls. 127–133.
  33. 33,0 33,1 Rachum, Ilan (1979). The Renaissance, an Illustrated Encyclopedia.
  34. 34,0 34,1 34,2 Ottino della Chiesa 1967, bls. 83.
  35. Ottino della Chiesa 1967, bls. 88.
  36. Wallace 1972, bls. 13.
  37. Polidoro, Massimo (2019). „The Mind of Leonardo da Vinci, Part 1“. Skeptical Inquirer. Center for Inquiry. 43 (2): 30–31.
  38. Wallace 1972, bls. 15.
  39. Clark, Kenneth; Kemp, Martin (26. nóvember 2015). Leonardo da Vinci. United Kingdom: Penguin. bls. 45. ISBN 978-0-14-198237-3.
  40. 40,0 40,1 Wasserman 1975, bls. 77–78.
  41. 41,0 41,1 Wallace 1972, bls. 53–54.
  42. 42,0 42,1 Williamson 1974.
  43. Kemp 2011.
  44. Franz-Joachim Verspohl, Michelangelo Buonarroti und Leonardo Da Vinci: Republikanischer Alltag und Künstlerkonkurrenz in Florenz zwischen 1501 und 1505 (Wallstein Verlag, 2007), p. 151.
  45. Schofield, Richard. „Amadeo, Bramante and Leonardo and the Cupola of Milan Cathedral“. Achademia Leonardi Vinci. Sótt 9. ágúst 2022.
  46. Barbieri, Ezio; Catanese, Filippo (janúar 2020). „Leonardo a (e i rapporti con) Pavia: una verifica sui documenti“. Annuario dell'Archivio di Stato di Milano. Sótt 9. ágúst 2022.
  47. Carlo Pedretti, Leonardo da Vinci: drawings of horses and other animals (Windsor Castle. Royal Library) 1984.
  48. Wallace 1972, bls. 79.
  49. Moffitt, John F. (1990). „Leonardo's «Sala delle Asse» and the Primordial Origins of Architecture“. Arte Lombarda. Vita e Pensiero – Pubblicazioni dell’Università Cattolica del Sacro Cuore (92/93 (1-2)): 76–90. JSTOR 43132702.
  50. Rocky, Ruggiero (6. október 2021). „Episode 142 – Leonardo da Vinci's Sala delle Asse“. rockyruggiero.com. Making Art and History Come to Life, Rebuilding the Renaissance.
  51. „Segui il restauro“ [Follow the restoration]. Castello Sforzesco – Sala delle Asse (ítalska). Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2018. Sótt 19. október 2018.
  52. Wallace 1972, bls. 65.
  53. 53,0 53,1 53,2 Ottino della Chiesa 1967, bls. 85.
  54. Wallace 1972, bls. 124.
  55. „Mona Lisa – Heidelberg discovery confirms identity“. University of Heidelberg. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. nóvember 2013. Sótt 4. júlí 2010.
  56. Delieuvin, Vincent (15. janúar 2008). „Télématin“. Journal Télévisé. France 2 Télévision.
  57. Coughlan, Robert (1966). The World of Michelangelo: 1475–1564. et al. Time-Life Books. bls. 90.
  58. 58,0 58,1 58,2 Wallace 1972, bls. 145.
  59. „Achademia Leonardi Vinci“. Journal of Leonardo Studies & Bibliography of Vinciana. VIII: 243–244. 1990.
  60. 60,0 60,1 60,2 Ottino della Chiesa 1967, bls. 86.
  61. 61,0 61,1 Wallace 1972, bls. 149–150.
  62. Wallace 1972, bls. 151.
  63. 63,0 63,1 63,2 63,3 Wallace 1972, bls. 150.
  64. Ohlig, Christoph P. J., ritstjóri (2005). Integrated Land and Water Resources Management in History. Books on Demand. bls. 33. ISBN 978-3-8334-2463-2.
  65. Gillette, Henry Sampson (2017). Leonardo da Vinci: Pathfinder of Science. Prabhat Prakashan. bls. 84.
  66. Georges Goyau, François I, Transcribed by Gerald Rossi. The Catholic Encyclopedia, Volume VI. Published 1909. New York: Robert Appleton Company. Retrieved on 4 October 2007
  67. Miranda, Salvador (1998–2007). „The Cardinals of the Holy Roman Church: Antoine du Prat“. Sótt 4. október 2007.
  68. Wallace 1972, bls. 163, 164.
  69. Brown, Mark (1. maí 2019). „Newly identified sketch of Leonardo da Vinci to go on display in London“. The Guardian. Sótt 2. maí 2019.
  70. Strickland, Ashley (4. maí 2019). „What caused Leonardo da Vinci's hand impairment?“. CNN. Sótt 4. maí 2019.
  71. 71,0 71,1 Lorenzi, Rossella (10. maí 2016). „Did a Stroke Kill Leonardo da Vinci?“. Seeker. Sótt 5. maí 2019.
  72. McMahon, Barbara (1. maí 2005). „Da Vinci 'paralysis left Mona Lisa unfinished'. The Guardian. Sótt 2. maí 2019.
  73. Saplakoglu, Yasemin (4. maí 2019). „A Portrait of Leonardo da Vinci May Reveal Why He Never Finished the Mona Lisa“. Live Science. Sótt 5. maí 2019.
  74. 74,0 74,1 Bodkin, Henry (4. maí 2019). „Leonardo da Vinci never finished the Mona Lisa because he injured his arm while fainting, experts say“. The Telegraph. Afrit af uppruna á 10. janúar 2022. Sótt 6. maí 2019.
  75. Charlier, Philippe; Deo, Saudamini. "A physical sign of stroke sequel on the skeleton of Leonardo da Vinci?". Neurology. 4 April 2017; 88(14): 1381–1382
  76. Ian Chilvers (2003). The Concise Oxford Dictionary of Art and Artists. Oxford, England: Oxford University Press. bls. 354. ISBN 978-0-19-953294-0.
  77. Antonina Vallentin, Leonardo da Vinci: The Tragic Pursuit of Perfection, (New York: The Viking Press, 1938), 533
  78. Kemp 2011, bls. 26.
  79. Florentine editorial staff (2. maí 2019). „Hair believed to have belonged to Leonardo on display in Vinci“. The Florentine. Sótt 4. maí 2019.
  80. Leonardo, Codex C. 15v. Institut of France. Trans. Richter.
  81. Ottino della Chiesa 1967, bls. 84.
  82. Rossiter, Nick (4. júlí 2003). „Could this be the secret of her smile?“. Daily Telegraph. London. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. september 2003. Sótt 3. október 2007.
  83. Gasca, Nicolò & Lucertini 2004, bls. 13.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Eldri[breyta | breyta frumkóða]

Yngri[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]