Karl 8. Frakkakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Valois-ætt Konungur Frakklands
Valois-ætt
Karl 8. Frakkakonungur
Karl 8.
Ríkisár 30. ágúst 1483 – 7. apríl 1498
SkírnarnafnCharles de Valois
Fæddur30. júní 1470
 Château d'Amboise, Frakklandi
Dáinn7. apríl 1498 (27 ára)
 Château d'Amboise, Frakklandi
GröfBasilique Saint-Denis, Frakklandi
Konungsfjölskyldan
Faðir Loðvík 11.
Móðir Karlotta af Savoja
DrottningAnna af Bretagne
Börn7

Karl 8. (30. júní 14707. apríl 1498) var konungur Frakklands frá 1483 til dauðadags. Hans er einna helst minnst fyrir að hafa ráðist inn í Ítalíu og hafið þar með fransk-ítölsku stríðin sem settu svip sinn á fyrri hluta 16. aldar.

Æskuár[breyta | breyta frumkóða]

Karl var af Valois-ætt, sonur Loðvíks 11. og seinni konu hans, Karlottu af Savoja. Hann var 13 ára þegar faðir hans dó og hann tók við ríkjum. Hann var heilsuveill og af samtímamönnum var hann sagður ljúfmenni en fremur fákænn og enginn stjórnandi. Samkvæmt óskum Loðvíks föður hans var ríkisstjórnin fengin í hendur Önnu, eldri systur Karls, og manni hennar Pétri 2., hertoga af Bourbon. Anna var skarpgreind og klók og faðir hennar sagði einhverju sinni að hún væri „minnst klikkaða kona í Frakklandi“. Þau hjónin stýrðu ríkinu til 1491.

Hjónaband[breyta | breyta frumkóða]

Anna af Bretagne.

Árið 1482 var gengið frá trúlofun Karls og Margrétar af Austurríki, dóttur Maximilians 1. keisara. Margrét, sem þá var tveggja ára, var send til frönsku hirðarinnar til að alast þar upp og læra tungumál, siði og venjur þar, eins og algengt var þegar barnungar prinsessur voru lofaðar þjóðhöfðingjum annarra landa.

En árið 1488 fórst Frans 2. hertogi af Bretagne af slysförum og erfingi hertogadæmisins var 11 ára dóttir hans, Anna. Bretónskir ráðamenn óttuðust mjög um sjálfstæði hertogadæmisins gegn ásælni Frakkakonunga og sömdu um hjónaband hennar og Maximilians keisara. Þau giftust með staðgengli 1490 og varð Anna þar með stjúpmóðir Margrétar.

Frakkar neituðu að sætta sig við þetta hjónaband þar sem það þýddi að keisaraveldið átti landamæri að Frakklandi á tvo vegu. Karl 8. réðist svo inn í Bretagne, Maximilian gat ekki veitt konu sinni (sem hann hafði aldrei séð) lið, og Anna neyddist til að fallast á ógildingu hjónabandsins og giftast Karli í staðinn.

Þau giftust svo í desember 1491, þegar Anna var tæplega fimmtán ára. Hún var ekki ánægð og sýndi það meðal annars með því að koma með tvö rúm með sér til brúðkaupsins. Hjónabandið var ekki hamingjusamt en Karl var þó mun sáttari því að við brúðkaupið lauk afskiptum ættingja hans af ríkisstjórn hans.

Þótt Karl hefði slitið trúlofuninni við Margréti var hún ekki send heim til Austurríkis og mun Karl hafa haft í huga að gifta hana einhverjum sem honum hentaði. Margrét var afar ósátt, enda hafði hún verið hrifin af Karli, og til eru bréf frá henni til föður hennar þar sem hún hótar því að strjúka frá París á náttkjólnum ef þess þurfi með. Árið 1493 var henni þó skilað aftur heim ásamt þeim heimanmundi sem henni hafði fylgt. Hún hafði alla tíð síðan horn í síðu Frakka og Frakklands.

Ítalíuherförin[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir meðferð sína á Margréti og föður hennar tókst Karli að gera samning við Austurríki og einnig England og tryggja hlutleysi þeirra í hernaði þeim sem hann hafði fyrirhugað á Ítalíu. Hann hafði byggt upp stóran og vel búinn her og taldi sig eiga tilkall til konungsríkisins Napólí. Árið 1494 réðist hann inn á Ítalíu með stuðningi Innósentíusar VIII páfa, fór með her sinn suður Ítalíuskaga og tók Napólí auðveldlega. Alfons konungur var settur af og Karl krýndur konungur Napólí.

Öðrum ítölskum þjóðhöfðingjum leist ekki á blikuna þegar þeir sáu hve auðveldlega Karli tókst að leggja Napólí undir sig og páfanum ekki heldur. Þeir stofnuðu and-franskt bandalag, Feneyjabandalagið, og árið 1495 vann herlið þess sigur á her Karls, sem þurfti að hverfa aftur heim til Frakklands. Á næstu árum reyndi hann að byggja her sinn upp á ný til að geta unnið aftur lönd á Ítalíu en það tókst ekki vegna þess hve skuldugur hann var eftir Ítalíuherförina.

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1498 slasaðist Karl þegar hann var að spila jeu de paume og dó skömmu síðar. Þau Anne höfðu eignast sjö börn á sex árum en ekkert þeirra lifði föður sinn. Krúnan gekk því til frænda hans, hertogans af Orléans, sem varð þá Loðvík 12. Frakkakonungur. Samkvæmt samkomulagi sem gert hafði verið þegar Karl og Anna giftust átti hún að ganga að eiga eftirmann hans ef þeim yrði ekki sona auðið og varð það úr, jafnvel þótt Loðvík væri þegar giftur Jóhönnu systur Karls.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Loðvík 11.
Konungur Frakklands
(14831498)
Eftirmaður:
Loðvík 12.