John Stuart Mill
John Stuart Mill | |
---|---|
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 20. maí 1806 (Pentonville í London á Englandi) |
Svæði | Vestræn heimspeki |
Tímabil | Heimspeki 19. aldar |
Skóli/hefð | Raunhyggja, nytjastefna |
Helstu ritverk | Frelsið, Nytjastefnan, Kúgun kvenna, Rökkerfi |
Helstu kenningar | Frelsið, Nytjastefnan, Kúgun kvenna, Rökkerfi |
Helstu viðfangsefni | siðfræði, stjórnspeki, þekkingarfræði, vísindaheimspeki, hagfræði |
John Stuart Mill (20. maí 1806 – 8. maí 1873) var frjálslyndur breskur heimspekingur, þingmaður á breska þinginu og einn frægasti málsvari nytjastefnu og raunhyggju. Hann hefur verið nefndur áhrifamesti enskumælandi heimspekingur 19. aldarinnar.[1] Hann ritaði Frelsið 1859 og Kúgun kvenna 1869. Hann sat á þingi frá 1865 til 1868. Hann var mun frægari talsmaður nytjastefnu en guðfaðir hans Jeremy Bentham. Skrif Mills um kúgun kvenna eru talin marka tímamót í þróun femínisma.
Lífshlaup
[breyta | breyta frumkóða]John Stuart Mill var fæddur í Pentonville sem var úthverfi London. Hann var elsti sonur skoska heimspekingsins og sagnfræðingsins James Mill, sem kenndi syni sínum ásamt þeim Jeremy Bentham og Francis Place.[2] Menntun hans var nokkuð sérstök, þar sem hann lærði að lesa á ensku og forngrísku þriggja ára gamall og latínu átta ára gamall. Hann lærði einnig stærðfræði, fornfræði, enska sögu og nam fræði Adams Smith og Davids Ricardo um efnahagsmál sem þóttu mjög móðins á þeim tíma. Hann hlaut guðlaust uppeldi og kvaðst einn af sárafáum mönnum á öllu Englandi sem ekki aðeins höfðu hent slíkri trú heldur hefðu aldrei nokkru sinni haft hana. Árið 1820 heimsótti hann Frakkland þar sem hann lærði frönsku og var hann þaðan af áhugasamur um sögu og menningu landsins.
Árið 1823 stofnaði hann ásamt Jeremy Bentham Westminster Review sem var blað róttækra heimspekinga. Sama ár útvegaði faðir hans honum vinnu hjá Breska Austur Indíafélaginu. Sökum þessa stífa náms fékk John taugaáfall rétt liðlega tvítugur að aldri, árið 1826 eins og hann lýsir því í sjálfsævisögu sinni. Hann þjáðist af miklu þunglyndi um nokkurra mánaða skeið en jafnaði sig þó um síðir meðal annars með lestri á ljóðum William Wordsworths. Tveimur árum seinna kynntist Mill áhangendum Saint Simon og Auguste Comte sem höfðu nokkur áhrif á hann.
Árið 1851 giftist hann Harriet Taylor eftir áralanga nána vináttu þeirra.[3] John, sem trúði á aukin réttindi kvenna, segir hana hafa verið mikinn áhrifavald í lífi sínu. Hann tileinkaði henni lokaútgáfu Frelsisins auk þess sem svo virðist að vísað sé til hennar í riti hans Kúgun kvenna. Mill starfaði fyrir Breska Austur Indíafélagið, þar sem faðir hans vann, uns rekstri þess var hætt 1858. Hann var kjörinn á þing árin 1865-1868 sem óháður frambjóðandi og þar talaði hann fyrir því að létta byrðar Íra, að konur fengju kosningarétt og gegn afnámi dauðarefsinga. Á sama tíma gegndi hann stöðu rektors við St. Andrews háskóla. Hann var guðfaðir heimspekingsins og stærðfræðingsins Bertrand Russells. Mill dó í Avignon í Frakklandi árið 1873 þar sem hann er grafinn ásamt konu sinni.
Frelsið
[breyta | breyta frumkóða]Frelsið (e. On Liberty) kom fyrst út í Englandi árið 1859.[4] Á Íslandi kom það fyrst út í þýðingu Jóns Ólafssonar á vegum Hins íslenzka þjóðvinafélags árið 1886. Árið 1970 kom það út í annarri þýðingu Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Þorsteins Gylfasonar í ritröð Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags. Það fjallar fyrst og fremst um borgaraleg réttindi sem mörg hver eru í dag tryggð í stjórnarskrám ríkja.
Í ritinu áréttar Mill að frelsi sé forsenda raunverulegs lýðræðis. Hann segir aldrei vera hægt að vera svo viss í sinni sök hvað eitthvað varðar að hægt sé að meina öðrum að tjá sig um það. Það verði því að vera frelsi til tjáningar, svo að allar skoðanir fái að heyrast, til að skapa meiri og betri þekkingu. Mismunandi skoðanir verða til við fjölbreytileika og fjölbreytni verður þá og því aðeins til að fólki sé frjálst að hegða sér eins og það vill og hafa þær skoðanir sem því sýnist.
Takmarkanir verða þó að vera á frelsinu, þó þær minnstu mögulegu, þannig að ríkinu sé fært að tryggja öryggi borgaranna. Mill áleit sem svo að frelsi væri það að geta gert „hvað svo sem manni lystir svo lengi sem það skaði ekki aðra“. Hann taldi það einnig brjóta á frelsi annarra ef maður gæti komið í veg fyrir að aðrir hlytu skaða en stæði aðgerðarlaus hjá t.d. með því að kasta ekki björgunarhring til drukknandi manns.
Rit hans um réttindi kvenna Kúgun kvenna (e. The Subjection of Women) kom út í íslenskri þýðingu árið 1900 og aftur árið 2003.[5]
Siðfræði: Nytjastefnan
[breyta | breyta frumkóða]Siðfræðikenning Mills kallast nytjastefna og er svokölluð leikslokasiðfræði.[6] Mill setti kenninguna fram í ritinu Nytjastefnan (e. Utilitarianism). Enska orðið fyrir nytjastefnu er frá honum komið. Löng hefð bjó að baki þessari siðfræði. Megináhrifavaldar Mills voru Jeremy Bentham og faðir Mills, James Mill en leikslokasiðfræði átti rætur að rekja til skoska heimspekingsins Davids Hume.[7]
Útgáfa Mills af nytjastefnunni er þekkt m.a. fyrir „hámarkshamingjulögmálið“ sem er einn meginmunurinn á kenningu Mills og annarri leikslokasiðfræði.[8] Leikslokasiðfræði heldur því fram að siðferðilega rétt athöfn sé sú sem hefur bestar afleiðingar. Hámarkshamingjulögmálið segir að allar athafnir manns eigi að miða að því að hámarka hamingju sem flestra. Meginmunurinn á nytjastefnunni og annarri leikslokasiðfræði er því fólginn í viðbót nytjastefnunnar sem kveður á um að bestu afleiðingarnar séu þær sem hámarka hamingju sem flestra.
Eitt helsta framlag Mills til nytjastefnunnar var rökin fyrir stigskiptingu ánægjunnar.[9] Bentham taldi alla hamingju jafna en Mill færir rök fyrir því að vitsmunaleg og siðferðileg ánægja sé æðri líkamlegri ánægju. Mill greinir á milli hamingju og þess að vera sáttur og heldur því fram að hamingjan sé mikilvægari en að vera sáttur. Mill kom orðum að þessari skoðun með því að segja að það væri betra að vera Sókrates vansæll en ánægður kjáni.
Hagfræði
[breyta | breyta frumkóða]Í hagfræði aðhylltist Mill frjáls viðskipti en sætti sig þó við aðhald og afskipti, svo sem í formi skatts á áfengi, ef nytsemisrök væru fyrir því.[10] Hann féllst einnig á löggjöf til verndar velferð dýra.[11] Mill taldi að „jafnrétti í skattheimtu“ þýddi „jöfn fórn“ og að skattþrepakerfi refsaði þeim sem ynnu meira og væru duglegari að spara og væri þess vegna „mild útgáfa af ráni“.[12]
Rit Mills um hagfræði, Frumatriði stjórnspekilegrar hagfræði (e. Principles of Political Economy), sem kom fyrst út árið 1848, var ein víðlesnasta bók um hagfræði á síðari hluta 19. aldar. Líkt og rit Adams Smith, Auðlegð þjóðanna (e. Wealth of Nations), áður fyrr, vofði rit Mills yfir allri hagfræðikennslu. (Bókin var meðal meginkennsluefnis í Oxford háskóla allt til ársins 1919).
Þekkingarfræði og vísindaheimspeki
[breyta | breyta frumkóða]Eitt mikilvægasta rit Mills var Rökkerfi (e. A System of Logic, Ratiocinative and Inductive), sem hann endurbætti nokkrum sinnum. Það var meginrit Mills um þekkingarfræði[13] og vísindaheimspeki.[14] Megin innblástur Mills var rit Williams Whewell History of the Inductive Sciences sem kom út 1837. Frægð verksins hvílir einkum á greiningu Mills á tilleiðslu, andstætt rökhendum Aristótelesar, sem eru dæmi um afleiðslu. Mill lýsir fimm meginreglum um tilleiðslu sem eru þekktar sem aðferð Mills. Reglurnar byggjast allar á útilokunaraðferð og eru í raun flóknar útgáfur af útilokunaraðferð sem beita má í ólíkum aðstæðum.
Ritið var öðrum þræði tilraun Mills til að setja fram þekkingarfræði í anda Johns Locke.
Ritverk
[breyta | breyta frumkóða]Mikilvægustu ritin eru feitletruð.
- (1843) A System of Logic (Rökkerfi)
- (1844) Essays on Some Unsettled Questions of Political Economy (Ritgerðir um ósvaraðar spurningar varðandi stjórnspekilega hagfræði)
- (1848) Principles of Political Economy (Frumatriði stjórnspekilegrar hagfræði)
- (1859) On Liberty (Frelsið)
- (1861) Considerations on Representative Government (Hugleiðingar um fulltrúastjórn)
- (1863) Utilitarianism (Nytjastefnan)
- (1865) Examinations of Sir William Hamilton's Philosophy (Rannsóknir á heimspeki sir Williams Hamilton)
- (1865) Auguste Comte and Positivism (Auguste Comte og framstefnan)
- (1867) Inaugural Address at St. Andrews (Innsetningarfyrirlestur við St. Andrews háskóla)
- (1869) The Subjection of Women (Kúgun kvenna)
- (1873) Autobiography (Sjálfsævisaga)
- (1874) Three Essays on Religion (Þrjár ritgerðir um trúarbrögð)
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Stanford Encyclopedia of Philosophy: „John Stuart Mill
- ↑ Um ævi Mills má lesa hér.
- ↑ Um Harriet Taylor Mill má lesa hér.
- ↑ Um stjórnspeki Mills, sjá C.L. Ten, „Democracy, socialism, and the working classes“ í John Skorupski (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998): 372-395.
- ↑ Um skoðanir Mills á réttindum kvenna má lesa hér. Sjá einnig Mary Lyndon Shanley, „The subjection of women“ í John Skorupski (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998): 396-422.
- ↑ Um siðfræði Mills má lesa hér. Sjá einnig Wendy Donner, „Mill's utilitarianism“ í John Skorupski (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998): 255-292.
- ↑ Sjá „Consequentialism“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Sjá hér
- ↑ Um stigskiptinguna er m.a. fjallað hér
- ↑ Um hagfræði Mills má lesa hér. Sjá einnig Jonathan Riley, „Mill's political economy: Ricardian science and liberal utilitarian art“ í John Skorupski (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998): 293-337.
- ↑ „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 26. júní 2008. Sótt 6. nóvember 2006.
- ↑ „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. mars 2009. Sótt 6. nóvember 2006.
- ↑ Um þekkingarfræði Mills má lesa hér og hér.
- ↑ Um vísindaheimspeki Mills má lesa hér og hér. Sjá einnig Geoffrey Scarre, „Mill on induction and scientific method“ í John Skorupski (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998):112-138
Frekari fróðleikur
[breyta | breyta frumkóða]- Ryan, Alan, J.S. Mill (London: Routledge and Kegan Paul, 1974).
- Skorupski, John, John Stuart Mill (London: Routledge, 1989).
- Skorupski, John (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998).
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- MetaLibri Digital Library:
- Utilitarianism Geymt 5 maí 2007 í Wayback Machine
- Verk eftir John Stuart Mill hjá Project Gutenberg
- Frelsið og Nytjastefnan
- Ævisaga, verk og tilvitnanir í verk Johns Stuarts Mill Geymt 19 júlí 2011 í Wayback Machine
- John Stuart Mill Geymt 17 febrúar 2006 í Wayback Machine.
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „John Stuart Mill“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „John Stuart Mill: Overview“
- „Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað getið þið sagt mér um samanburð á siðfræði Kants og Mills?“. Vísindavefurinn.