Jamal Khashoggi
Jamal Khashoggi جمال أحمد خاشقجي | |
---|---|
Fæddur | 13. október 1958 |
Dáinn | 2. október 2018 (59 ára) |
Dánarorsök | Myrtur |
Störf | Blaðamaður |
Maki | Rawia al-Tunisi (skilin) |
Börn | 4 |
Jamal Ahmad Khashoggi (13. október 1958 – 2. október 2018) var sádi-arabískur blaðamaður, rithöfundur og ritstjóri og framkvæmdastjóri fréttastofunnar Al-Arab News. Hann var myrtur í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl þann 2. október 2018 af útsendurum sádi-arabísku ríkisstjórnarinnar. Hann hafði einnig verið ritstjóri sádi-arabíska fréttablaðsins Al Watan og hafði þar birt fjölda greina eftir umbótasinnaða Sáda.[1]
Khashoggi hafði í pistlum sínum (sér í lagi í blaðinu The Washington Post) mælt með því að sádi-arabísk yfirvöld hefðu hemil á harðlínumönnum sem vilja stjórna ríkinu í samræmi við strangan wahhabisma[2] og hafði kallað eftir því að Sádar reyndu að „samræma veraldarhyggju og íslam, líkt og gert hefur verið í Tyrklandi“.[2] Khashoggi hafði á yngri árum átt í tengslum við Bræðralag múslima og hafði í seinni tíð lýst yfir þeirri skoðun sinni að ekki væri hægt að koma á lýðræði í arabaríkjum án þess að viðurkenna að íslömsk stjórnmálastefna væri hluti af þeim.[3] Khashoggi komst í kynni við Osama bin Laden á árum bin Ladens í stríðinu í Afganistan og tók nokkur viðtöl við hann.[4][5]
Khashoggi flúði frá Sádi-Arabíu í september árið 2017 og fór í sjálfskipaða útlegð. Hann sagði að sádi-arabíska ríkisstjórnin hefði gert Twitter-aðgang hans upptækan og hóf í auknum mæli að skrifa greinar þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld Sádi-Arabíu. Khashoggi var sér í lagi mjög gagnrýninn í garð sádi-arabíska krónprinsins Múhameðs bin Salman og föður hans, Salmans konungs. Khashoggi var hlynntur sumum umbótum krónprinsins, eins og þeirri að veita konum ökuréttindi, en mótmælti öðrum aðgerðum, sér í lagi handtöku stjórnvalda á mótmælendum og aðgerðasinnum eins og kvenréttindakonunni Loujain al-Hathloul. Hann gagnrýndi einnig hernaðarinngrip Sáda í borgarastyrjöldina í Jemen. Í apríl 2018 sagði Khashoggi um krónprinsinn: „Það er rétt hjá krónprinsinum að frelsa Sádi-Arabíu undan íhaldssömu trúarofstæki en rangt hjá honum að breiða út nýja tegund af ofstæki sem er, þótt hún sé kannski frjálslyndari og boðlegri í augum vesturheims, ekkert síður óumburðarlynd gagnvart hvers kyns andófi.“[6]
Khashoggi gekk inn í sádi-arabísku ræðismannsbygginguna í Istanbúl þann 2. október árið 2018 en kom aldrei aftur út. Eftir að fréttir bárust um að hann hefði verið myrtur og skorinn í búta þar inni hófu tyrkneskir og sádi-arabískir embættismenn rannsókn á ræðismannsbyggingunni þann 15. október. Í fyrstu neituðu stjórnvöld Sáda því að Khashoggi hefði dáið inni í byggingunni og héldu því fram að hann hefði yfirgefið ræðismannsskrifstofuna á lífi. Þann 20. október viðurkenndu stjórnvöldin að Khashoggi hefði verið drepinn inni í byggingunni en héldu því fram að hann hefði verið kyrktur til bana eftir að slagsmál brutust út. Sádar breyttu framburði sínum aftur þann 25. október þegar ríkissaksóknari Sádi-Arabíu lýsti því yfir að morðið hefði verið skipulagt fyrirfram.[7]
Þann 16. nóvember árið 2018 ályktaði bandaríska leyniþjónustan að krónprinsinn Múhameð bin Salman hefði fyrirskipað morðið á Khashoggi.[8] Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði leyniþjónustuna síðar hafa rangt fyrir sér og sagði að rannsóknin yrði að halda áfram. Þann 23. desember 2019 voru fimm menn dæmdir til dauða fyrir morðið á Khashoggi.[9] Mannréttindavaktin, Amnesty International og Blaðamenn án landamæra fordæmdu dóminn og sögðu réttarhöldin ekki hafa litið til hlutar krónprinsins eða annarra valdamanna Sádi-Arabíu í morðinu. Stjórnvöld Tyrklands tóku í sama streng og sögðu að skipuleggjendum morðsins hefði verið tryggð friðhelgi.[10] Árið 2021 birti ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta tveggja ára gamla skýrslu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að krónprinsinn hefði veitt samþykki fyrir morðinu á Khashoggi.[11]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Paul Hendley (17. maí 2010). „Saudi newspaper head resigns after run-in with conservatives“ (enska). Al Hdhod. Sótt 26. nóvember 2018.
- ↑ 2,0 2,1 „Jamal Khashoggi was a journalist, not a jihadist“ (enska). CNN. 22. október 2018. Sótt 26. nóvember 2018.
- ↑ „Jamal Khashoggi, journalist who spoke truth to power, 1958–2018“ (enska). Financial Times. 20. október 2018.
- ↑ „Missing Saudi journalist Jamal Khashoggi's ties to Osama bin Laden explained“ (enska). Global News. 13. október 2018. Sótt 26. nóvember 2018.
- ↑ „Last bastion: Saudi Arabia's silent battle to halt history“ (enska). Der Spiegel. 14. júní 2011. Sótt 26.nóvember 2018.
- ↑ Jamal Khashoggi (3. apríl 2018). „By blaming 1979 for Saudi Arabia's problems, the crown prince is peddling revisionist history“ (enska). The Washington Post. Sótt 26. nóvember 2018.
- ↑ „Sádar segja nú morðið á Khashoggi að yfirlögðu ráði“. Vísir. 25. október 2018. Sótt 31. október 2018.
- ↑ „CIA segir krónprinsinn hafa fyrirskipað morðið“. mbl.is. 17. nóvember 2018. Sótt 17. nóvember 2018.
- ↑ „Fimm dæmdir til dauða fyrir morð á blaðamanni“. Fréttablaðið. 23. desember 2019. Sótt 8. janúar 2020.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (24. desember 2019). „Dómar í Khashoggi-máli fordæmdir“. RÚV. Sótt 8. janúar 2020.
- ↑ „Krónprinsinn hafi veitt samþykki fyrir morðinu“. mbl.is. 26. febrúar 2021. Sótt 28. febrúar 2021.