Geoffrey Chaucer
Geoffrey Chaucer /ˈʤɛfri ˈʧɔːsə/ (um 1343 – 25. október 1400) var enskt skáld, heimspekingur og hirðmaður. Hann er þekktastur fyrir sagnasafnið Kantaraborgarsögur sem varðveist hefur að hluta. Chaucer er stundum kallaður faðir enskunnar þar sem hann var sá fyrsti sem sýndi fram á að enskt alþýðumál væri jafngott bókmenntamál og franska, latína og anglónormanska sem þá voru ríkjandi ritmál í Englandi. Chaucer notaðist við enskt talmál þess tíma, þ.e.a.s. miðensku sem hafði þróast út frá engilsaxnesku. Staða hans gagnvart enskunni er því hliðstæð við stöðu Dante Alighieri gagnvart ítölskunni hundrað árum fyrr.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Chaucer fæddist í London um 1343, en ekki er vitað nákvæmlega um fæðingarstað og tíma. Bæði faðir hans og afi voru víngerðarmenn í London af ætt kaupmanna frá Ipswitch. Ættarnafnið er dregið af franska orðinu chausseur sem merkir „skósmiður“. 1324 var föður hans, John Chaucer, tólf ára gömlum, rænt af frænku sinni, en hún vildi gifta hann dóttur sinni til að ná að halda fasteign í Ipswitch. Frænkunni var varpað í fangelsi fyrir þetta og gert að greiða 250 punda sekt, sem bendir til þess að fjölskyldan hafi verið vel stæð millistéttarfjölskylda eða jafnvel yfirstétt. John giftist þess í stað Agnesi Copton, sem erfði árið 1349 miklar eignir, þar á meðal 24 verslanir í London, frá frænda sínum Hamo de Copton sem sagður er myntsláttumaður í Lundúnaturni.
Hundrað ára stríðið
[breyta | breyta frumkóða]Lítið er vitað um æsku Chaucers, en ævi hans er þó vel skrásett miðað við samtíðarmenn hans, William Langland og Perluskáldið. Til eru fimm hundruð frumheimildir af ýmsu tagi sem greina frá athöfnum hans. Nafn hans kemur fyrst fyrir árið 1357 í húsreikningum Elizabeth de Burgh sem var greifynja af Ulster, en hann hafði fengið þjónsstöðu hjá henni í gegnum sambönd föður síns. Hann vann einnig sem hirðmaður, erindreki og opinber starfsmaður, auk þess að starfa fyrir konung með því að safna brotajárni og skrá það. Við upphaf Hundrað ára stríðsins 1359 réðist Játvarður 3. inn í Frakkland og Chaucer ferðaðist þangað með prinsinum Lionel frá Antwerpen, eiginmanni greifynjunnar, sem hluti af innrásarhernum. 1360 var hann tekinn höndum í umsátrinu um Rheims og varð stríðsfangi. Játvarður greiddi sjálfur 16 pund upp í lausnargjald fyrir hann og Chaucer var leystur úr haldi. Eftir það var hann kallaður „fanginn“.
Eftir þetta ríkir nokkur óvissa um ferðir Chaucers, en hann virðist hafa ferðast um Frakkland, Spán og Flandur sem sendiboði konungs og hugsanlega farið í pílagrímsferð til Santiago de Compostela. Árið 1366 giftist hann Philippu Roet, hirðmey Filippíu af Hainault, drottningar Játvarðs 3., og systur Katherine Swynford sem síðar (um 1396) giftist vini og stuðningsmanni Chaucers, prinsinum Jóhanni frá Ghent. Ekki er vitað hversu mörg börn Chaucer og Philippa eignuðust en yfirleitt er talað um þrjú eða fjögur. Sonur hans, Thomas Chaucer, hlaut mikinn frama, var yfirbryti fjögurra konunga, konunglegur sendimaður í Frakklandi og þingforseti neðri deildar enska þingsins. Barnabarnabarn Thomasar Chaucers, Jóhann de la Pole, jarl af Lincoln, var erfingi krúnunnar eftir Ríkharð 3. áður en honum var steypt af stóli. Önnur börn Chaucers voru (líklega) Elizabeth Chaucer, sem gerðist nunna, Agnes, sem var viðstödd krýningu Hinriks 4., og Lewis Chaucer.
Talið er að Chaucer hafi lært lögfræði við Inner Temple í London um þetta sama leyti, þótt ekki sé til óyggjandi staðfesting á því. Hann er skráður herbergisþjónn (valet), þegn (yeoman) eða skutulsveinn (esquire) við hirð Játvarðs 3. 20. júní 1367, sem gat þýtt hin ýmsustu störf. Hann fór erlendis nokkrum sinnum og 1368 kann hann að hafa verið við brúðkaup Lionels frá Antwerpen og Violante, dóttur Galeazzo 2. Visconti, hertoga í Mílanó. Tveir aðrir frægir bókmenntamenn voru viðstaddir brúðkaupið, Francesco Petrarca og Jean Froissart. Um þetta leyti er talið að Chaucer hafi samið Bók hertogafrúarinnar til heiðurs Blanche af Lancaster, eiginkonu Jóhanns frá Ghent sem lést 1369.
Ferðir til Ítalíu og ritstörf
[breyta | breyta frumkóða]Árið eftir tók Chaucer þátt í herför til Picardie og heimsótti í framhaldinu borgríkin Genúa og Flórens árið 1373. Talið er að í þeirri ferð hafi hann komist í kynni við ítalska ljóðagerð sem hann nýtti sér síðar, bæði bragfræðilega og efnislega. Önnur ferð sem hann fór árið 1377 er hins vegar sveipuð óvissu. Síðari heimildir gefa til kynna að hún hafi verið sendiför með Jean Froissart til að skipuleggja hjónaband krónprinsins Ríkharðs og franskrar prinsessu, sem hefði þýtt endalok Hundrað ára stríðsins. Ef þetta var takmark ferðarinnar er ljóst að það mistókst.
1378 sendi Játvarður Chaucer sem leynilegan sendiboða til hallar Viscontis og til að hitta enska málaliðann John Hawkwood í Mílanó. Chaucer byggði persónu „riddarans“ í Kantaraborgarsögum á Hawkwood, en lýsingar Chaucers á honum eru nákvæmar lýsingar á því hvernig 14. aldar málaliði hefur litið út en ekki byggðar á kunnuglegum minnum úr riddarasögum.
Vísbending um að ritstörf hans hafi verið mikils metin var þegar Játvarður veitti Chaucer „gallon af víni daglega það sem eftir er æfinnar“ fyrir eitthvað ótilgreint verk. Þetta voru óvenjuleg verklaun, en þau voru veitt á degi heilags Georgs 1374 þegar venja var að verðlauna listamenn. Hugsanlegt er að Chaucer hafi um þetta leyti, mögulega fyrir ljóð sín, verið orðinn eins konar hirðskáld. Hann tók út þessi laun sín þar til Ríkharður 2. komst til valda en eftir það var þeim breytt í peningaframlag 18. apríl 1378.
Fjármálastjóri við tollinn
[breyta | breyta frumkóða]Chaucer hlaut umtalsverða stöðu sem fjármálastjóri við tollheimtuna við höfnina í London og hóf störf þar 8. júní 1374. Þessu starfi sinnti hann í tólf ár, sem var óvenjulangur tími í stöðu af þessu tagi á þeim tíma. Lítið er vitað um ævi hans næstu tíu árin en talið er að hann hafi skrifað eða byrjað á flestum frægustu verkum sínum á þessum tíma. Hann kemur fyrir í dómskjölum 4. maí 1380 í tengslum við raptus Cecily Chaumpaigne. Atvikið var túlkað á 19. og 20. öld sem mannrán eða jafnvel nauðgun en nýlega hefur verið sannað að ekkert alvarlegt var á ferð. Chaumpaigne hafði verið vinnukona í þjónustu manns sem hét Thomas Staundon. Chaucer sannfærði hana um að vinna hjá sér en við þetta reiddist Staundon og stefndi Chaucer (og Chaumpaigne) fyrir dóm.[1] Málið virðist hafa fengið skjóta lausn. Ekki er vitað hvort Chaucer var í London á tímum bændauppreisnarinnar 1381.
Chaucer virðist hafa flutt til Kent meðan hann gegndi starfi fjármálastjóra og var skipaður friðdómari þar þegar hætta var á innrás frá Frakklandi. Talið er að hann hafi byrjað að skrifa Kantaraborgarsögur snemma á 9. áratugnum (Pílagrímaleiðin sem persónur hans fylgja á leið sinni til Kantaraborgar liggur gegnum Kent). Hann settist líka á enska þingið fyrir Kent árið 1386. Eftir það ár er ekki lengur minnst á eiginkonu Chaucers, Philippu, í heimildum og talið að hún hafi látist 1387. Hann lifði af umrótið í kringum Áfrýjunarlávarðana þrátt fyrir að hann þekkti marga af þeim sem voru teknir af lífi vegna málsins.
Framkvæmdaeftirlitsmaður og skógarvörður
[breyta | breyta frumkóða]12. júlí 1389 var Chaucer skipaður framkvæmdaeftirlitsmaður konungs, eins konar yfirverkstjóri sem skipulagði öll byggingarverkefni á vegum konungsvaldsins. Engin meiriháttar verk hófust á hans tíma, en hann sá um viðgerðir á Westminster-höll, kapellu heilags Georgs í Windsor-höll, hélt áfram að byggja hafnarbakkann við Lundúnaturn og reisti palla fyrir burtreiðar árið 1390. Þetta var erfitt starf en vel borgað. Hann fékk tvo skildinga á dag, þrisvar sinnum meira en sem fjármálastjóri. Heimildir greina frá því að hann hafi verið rændur og hugsanlega særður þar sem hann var við vinnu sína í september árið 1390 og tæpu ári síðar, 17. júní 1391, hætti hann. Næstum samstundis, eða 22. júní, tók hann við starfi aðstoðarskógarvarðar við konungsskógi við North Petherton í Somerset. Þetta var ekki róleg staða, þar sem viðhald var snar þáttur í starfinu, og það voru nokkur tækifæri til að skapa hagnað. Talið er að Chaucer hafi hætt vinnu við Kantaraborgarsögur undir lok aldarinnar.
Andlát
[breyta | breyta frumkóða]Skömmu eftir að stuðningsmanni hans, Ríkharði 2., var steypt af stóli 1399 hverfur Chaucer úr heimildum. Talið er að hann hafi látist af óþekktum orsökum 25. október 1400 en það eru engar öruggar heimildir fyrir þeirri dagsetningu þar sem hún var höggvin í grafhýsi hans sem var reist meira en öld eftir dauða hans. Terry Jones hefur varpað fram þeirri hugmynd að hann hafi verið myrtur af óvinum Ríkharðs, jafnvel að undirlagi Hinriks 4., en engar heimildir styðja þá fullyrðingu.
Þegar Hinrik tók við völdum staðfesti hann þau framlög sem Ríkharður hafði veitt Chaucer en í kvæðinu „Chaucer kvartar við pyngju sína“ (Complaint of Chaucer to His Purse) gefur hann í skyn að hann hafi ekki fengið greitt. Síðast er minnst á Chaucer í samtímaheimildum frá 5. júní 1400 þegar hann fékk greidda einhverja peninga sem hann átti inni. Hann var jarðsettur í Westminster Abbey eins og hann átti rétt á sem starfsmaður konungs og vegna þess að húsið sem hann hafði tekið á leigu 29. desember 1399 var í eigu kirkjunnar. Árið 1556 voru jarðneskar leifar hans fluttar í íburðarmeira grafhýsi. Hann var fyrsti höfundurinn sem var grafinn í Skáldahorninu í kirkjunni.
Verk
[breyta | breyta frumkóða]Geoffrey Chaucer er oft nefndur sem upphafsmaður bókmennta á ensku. Engilsaxneskar bókmenntir höfðu áður blómstrað á Englandi en sú þróun stöðvaðist þegar normannar hernámu landið 1066. Eftir það varð franska (eða franska mállýskan anglónormannska nánar tiltekið) tungumál yfirstéttarinnar. Enskan fór fyrst að njóta einhverrar virðingar á 14. öld og Chaucer var með þeim fyrstu til að nota eigið móðurmál sem bókmenntamál.
Verk hans byggja greinilega á eldri fyrirmyndum úr fornaldarbókmenntum og frönskum og ítölskum bókmenntum, en innihalda engu að síður nýjungar, bæði í stíl, bragfræði og efni, sem áttu eftir að mynda undirstöðu fyrir enskar bókmenntir í kjölfarið. Venjulega er ritferli Chaucers skipt í þrjú tímabil: fyrstu verk hans eru kölluð „frönsku“ verkin og þau sem hann skrifaði eftir 1372 „ítölsku“ verkin. Kantaraborgarsögur skrifaði hann að megninu til eftir 1390 á „enska“ tímabilinu.
Franska tímabilið (til 1372)
[breyta | breyta frumkóða]Talið er að fyrsta verk Chaucers sé, Romaunt of the Rose, ensk þýðing á franska ljóðabálknum Roman de la Rose sem var eitt áhrifamesta ritverk miðalda. Þýðingin hefur aðeins varðveist að hluta og ekki er ljóst hvort Chaucer hafi tekist að ljúka henni. Prentaða útgáfan frá 1532 skiptist í þrjá hluta sem eru málfræðilega mjög ólíkir. Einungis fyrsti hlutinn (línur 1-1705) er eignaður Chaucer með nokkurri vissu, en með annan hlutann ríkir nokkur vafi og talið er öruggt að þriðji hlutinn sé ekki eftir hann. Frá Romaunt of the Rose tók Chaucer upp ýmis efnistök, sérstaklega notkun drauma sem rammafrásagnar.
Verkið ABC frá sama tíma er líka þýðing úr frönsku á lofkvæði Guillaume de Deguillevilles um Maríu guðsmóður. Nafnið er dregið af upphafsstöfum fyrstu þriggja hendinganna í kvæðinu.
Bók hertogafrúarinnar er fyrsta kvæðið sem er eftir Chaucer sjálfan. Það er tileinkað Blanche af Lancaster, eiginkonu Jóhanns frá Ghent, sem lést árið 1368. Sagt er að kvæðið hafi verið samið fyrir minningarathöfn sem prinsinn vildi halda konu sinni á hverju ári. Þetta er draumkvæði að franskri fyrirmynd sem notar allegóríu til að lýsa sorg ekkilsins.
Helstu verk
[breyta | breyta frumkóða]- Þýðing á Roman de la rose
- Bók hertogafrúarinnar
- Hús frægðarinnar
- Anelida og Arcite
- Fuglaþing
- Þýðing á Huggun heimspekinnar eftir Boethius
- Troílus og Kressída
- Saga góðra kvenna
- Kantaraborgarsögur
- Ritgerð um stjörnuskífuna
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Roger, Euan; Sobecki, Sebastian (2022a). „Geoffrey Chaucer, Cecily Chaumpaigne, and the Statute of Laborers: New Records and Old Evidence Reconsidered“. Chaucer Review. 57 (4): 407–437. doi:10.5325/chaucerrev.57.4.0407. S2CID 252866367.