Ferdinand Magellan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ferdinand Magellan á málverki eftir óþekktan höfund

Ferdinand Magellan (148027. apríl 1521; portúgalska Fernão de Magalhães; spænska Fernando eða Hernando de Magallanes) var portúgalskur landkönnuður í þjónustu Spánarkonungs. Hann varð fyrsti Evrópubúinn til að sigla vesturleiðina til Asíu, fyrstur Evrópubúa til að sigla yfir Kyrrahafið og fyrstur til að stjórna leiðangri umhverfis hnöttinn, þótt hann hafi sjálfur ekki verið meðal þeirra sem luku leiðangrinum þar sem hann var drepinn í orrustu við innfædda á Filippseyjum rúmlega ári áður en síðasta skipið náði höfn á Spáni 6. september 1522.

Magellansund á suðurodda Suður-Ameríku er nefnt eftir honum, en sjálfur nefndi hann það Allraheilagrasund.

Magellan uppgötvaði líka Magellanskýin tvö, stóra og litla, sem eru stjörnuþokur sem sjást sunnan miðbaugs.

Ævisaga[breyta | breyta frumkóða]

Kort sem sýnir leiðangur Magellans umhverfis jörðina

Magellan fæddist í Sabrosa 1480. Hann átti tvö systkini, bróðurinn Diogo de Sousa, og systurina Isabel. Foreldrar hans dóu þegar hann var tíu ára. Ungur að aldri fékk Magellan áhuga á landa- og stjörnufræði. Hugsanlegt er að Martin Behaim hafi kennt honum. Þegar Magellan var tvítugur fór hann fyrst á sjó og árið 1505 var hann sendur til Indlands með Portúgalanum Francisco de Almeida til þess að setja upp her og sjóstöðvar á leiðinni.

Í leiðangrinum komst Magellan í sín fyrstu hernaðarátök, þegar kóngur neitaði að borga þeim. Þá réðst lið Almeidas á þá og tók yfir borgina Kilwa, sem heitir núna Tanzania. Árið 1506 sigldi hann um Austur-Indland að Mólúkkaeyjum og barðist í orrustunni við Diu í febrúar 1509.

Árið 1510 fékk Magellan stöðuhækkun og varð skipstjóri. Hann stalst til þess að sigla til austurs án leyfis og var í refsingarskyni lækkaður í tign og neyddur til þess að fara aftur til Portúgal. Árið 1511 var Magellan sendur til Marokkó þar sem hann barðist í bardaganum við Azamor (28. – 29. ágúst 1513 ) og særðist á hné í átökum gegn Márum. Þrátt fyrir að hafa særst og hlotið fjölda heiðursmerkja var hann ásakaður um ólögleg skipti við íslömsku Márana. Hann hafði líka átt í deilum við Almeida vegna óhlýðni sinnar. Almeidan gaf lélega skýrslu af honum í portúgölskum réttarhöldum.

Magellan byrjaði að skipuleggja leiðangurinn sinn og hlaut rausnarlegan fjárstyrk frá Karli Spánarkonungi. Fyrir þann pening keypti Magellan fimm skip, Trinidad, San Antonio, Concepcion, Victoria og Santiago. Trinidad var skip Magellans. Þann 10. ágúst árið 1519 lögðu skip Magellans af stað frá höfninni í Sevilla, suður eftir ánni Guadalquivir til Sanlúcar de Barrameda og áðu þar í fimm vikur. Skipaflotinn sigldi suður fyrir Suður-Ameríku um Magellansund og kom þann 6. mars 1521 til Maríanaeyja. Þann 16. mars komu skipin til Homonhom í Filipseyjunum, en þá voru aðeins 150 menn í áhöfninni eftir. Magellan var með túlk í för sem skildi tungumál eyjarskeggjana og gat því átt í samskiptum við þá. Áhöfninni tókst ekki að halda frið við eyjarskeggjana og Magellan var drepinn í bardaganum við Mactan þann 27. apríl 1521. Þann 6. september 1522 kom Juan Sebastián de Elcano með það sem eftir var af áhöfn Magellans til Spánar eftir þriggja ára ferð.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.