Fara í innihald

Bókmenntarýni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Upphafið á Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles á frummálinu (forngrísku). Um skáldskaparlistina var mikilvægasta rit bókmenntafræðinnar fram á 19. öld

Bókmenntarýni er rannsókn á, umfjöllun um, mat og túlkun á bókmenntum. Nútímabókmenntarýni tekur oft mið af svonefndri bókmenntakenningu (eða bara kenningu, „theoríu“), sem er heimspekileg umfjöllun um aðferðir og markmið bókmenntarýninnar. Bókmenntarýnar eru ekki alltaf kenningasmiðir og beita ekki alltaf kenningu enda þótt þetta tvennt sé náskylt.

Skiptar skoðanir eru um hvort líta beri á bókmenntarýni og bókmenntakenningu sem aðskilin svið fræðilegrar umfjöllunar um bókmenntir. Til dæmis er ekki gerður skýr greinarmunur á þessu tvennu í Johns Hopkins Guide to Literary Theory and Criticism og þar eru orðin nánast ávallt notuð saman til að lýsa einu og sama hugtakinu. Sumir bókmenntarýnar telja bókmenntarýnina einfaldlega vera beitingu kenningar enda fjalli bókmenntarýni ávallt um bókmenntir en þó út frá sjónarhóli einhverrar kenningar.

Nútímabókmenntarýni er oft gefin út í formi ritgerða og bóka. Akademískir bókmenntarýnar kenna í bókmenntafræðideildum og öðrum deildum þar sem bókmenntir eru kenndar og gefa út verk sín í fræðitímaritum. Vinsælir bókmenntarýnar gefa gjarnan út í víðlesnum tímaritum svo sem New York Times Book Review, New York Review of Books, London Review of Books, The Nation, The Times Literary Supplement og The New Yorker.

Saga bókmenntarýninnar

[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntarýni í fornöld og á miðöldum

[breyta | breyta frumkóða]

Sennilega er bókmenntarýni jafngömul bókmenntunum. Eitt elsta og mikilvægasta rit um bókmenntarýni í fornöld er gamanleikur Aristófanesar Froskarnir en það vann til verðlauna á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu árið 405 f.Kr. Í leikritinu etur Aristófanes saman harmleikjaskáldunum Æskýlosi og Evrípídesi og ber saman ólíkan stíl þeirra og viðhorf. Árásir Platons á skáldskapinn sem annars stigs eftirlíkingu, sem væri einskis virði, voru lengi afar áhrifamiklar.

Á 4. öld f.Kr. skrifaði Aristóteles Um skáldskaparlistina, bók um bókmenntir og bókmenntagreinar með ítarlegri umfjöllun um ýmis samtímaverk. Aristóteles var jákvæðari í garð skáldskapar en lærifaðir hans, Platon. Í Um skáldskaparlistina beitir Aristóteles í fyrsta sinn hugtökunum mimesis (eftirlíking) og kaþarsis (hreinsun), sem enn eru mikilvæg í bókmenntafærði. Um skáldskaparlistina var mikilvægasta rit bókmenntafræðinnar alveg fram á 19. öld.

Á helleníska tímanum stunduðu fræðimenn í Alexandríu bókmenntarýni og textafræði af mikilli natni. Það er ekki síst þeim að þakka að margir textar grískra bókmennta hafa varðveist til okkar dags, t.d. Ilíonskviða og Ódysseifskviða Hómers. Merkastir alexandrísku fræðimannanna voru Zenódótos, Aristófanes frá Býzantíon og Aristarkos frá Samóþrake.

Verk Longínosar, Um hið háleita (Περὶ ὕψους), frá 1. öld fjallar einkum um áhrifamátt góðra bókmennta og er ásamt riti Aristótelesar, Um skáldskaparlistina, mikilvægasta rit fornaldar um bókmenntarýni.

Á miðöldum fékkst bókmenntarýni oft við trúarlega texta og nokkrar langlífar hefðir í túlkunarfræði og ritskýringu, sem hófust í rannsókn á trúarlegum textum, hafa haft mikil áhrif á rannsóknir veraldlegra texta.

Bókmenntarýni á endurreisnartímanum

[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntarýni á endurreisnartímanum studdist við hugmyndir klassískra höfunda, einkum Aristótelesar, um einingu forms og efnis. Nýklassisismi ruddi sér til rúms, þar sem bókmenntir voru taldar miðlægar hverri menningu og skáld og rithöfundar voru taldir varðveita langa bókmenntahefð. Tilurð bókmenntarýni á endurreisnartímanum má rekja til enduruppgötvunar Vestur-Evrópubúa á klassískum textum og ekki síst til latneskrar þýðingar á riti Aristótelesar Um skáldskaparlistina sem kom út árið 1498. Áhrif Aristótelesar voru gríðarleg á þessum tíma. Annar áhrifamikill bókmenntarýnir á endurreisnartímanum var Lodovico Castelvetro sem samdi skýringarrit við rit Aristótelesar Um skáldskaparlistina árið 1570.

Bókmenntarýni á 19. öld

[breyta | breyta frumkóða]

Með bresku rómantíkinni á fyrri hluta 19. aldar urðu til nýjar fagurfræðilegar hugmyndir í bókmenntafræði, þ.á m.hugmyndin að viðfangsefni bókmennta þyrfti ekki alltaf að vera fallegt, göfugt eða fullkomið, heldur gætu bókmenntirnar sjálfar gert hversdagslegt viðfangsefni háleitt. Þýska rómantíkin, sem fylgdi fast á eftir þýska klassisismanum, lagði áherslu á fagurfræði hins brotakennda, sem kann að virðast furðunútímalegt nútímalesendum, og mat mikils Witz – það er að segja „hnyttni“ eða „kímnigáfu“ af ákveðnu tagi – mun meira en hin alvörugefna rómantík enskumælandi landa.

Seint á 19. öld komu fram á sjónarsviðið þónokkrir höfundar sem eru betur þekktir fyrir bókmenntarýni sína en þeirra eigin bókmenntaverk, svo sem Matthew Arnold.

Rússnesk formhyggja og nýrýnin

[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir mikilvægi allra fyrri strauma í bókmenntarýni eru þær hugmyndir sem nú eru efst á baugi nær allar komnar frá nýjum hugmyndum sem komu fram snemma á 20. öld. Snemma á 20. öld varð sá skóli hugsunar sem kallast rússnesk formhyggja, og skömmu síðar nýrýni í Bretlandi og Norður-Ameríku, allsráðandi í fræðilegri umfjöllun um bókmenntir. Báðar stefnur lögðu áherslu á nákvæmnisletur texta og hófu hann yfir almenna umfjöllun um meiningu höfundar (svo ekki sé minnst á sálarástand hans eða ævisöguleg atriði, sem urðu nánast bannorð) eða viðbrögð lesenda. Þessi áhersla á form og áhersla á „orðin sjálf“ hefur lifað af dvínandi fylgi kenninganna sjálfra.

Bókmenntakenning

[breyta | breyta frumkóða]

Í enskumælandi menntastofnunum var nýrýnin meira eða minna ríkjandi fram á síðari hluta 7. áratugar 20. aldar. Um það leyti fór að breiðast út heimspekilegri bókmenntakenning, undir áhrifum frá strúktúralisma, síðan póststrúktúralisma og fleiri anga af meginlandsheimspeki. Þessi þróun hélt áfram fram á miðjan 9. áratug 20. aldar þegar áhugi á „kenningu“ náði hámarki. Margir bókmenntarýnar, eflaust enn undir áhrifum kenningar, hafa síðar látið sér nægja að túlka bókmenntir fremur en að skrifa sérstaklega um aðferðafræðilegar og heimspekilegar forsendur þess.

Bókmenntarýni nú um mundir

[breyta | breyta frumkóða]

Í dag er áhugi á bókmenntakenningu og meginlandsheimspeki til samhliða í bókmenntadeildum háskóla ásamt íhaldsamari bókmenntarýni sem væri nýrýni eflaust þóknanleg. Deilur um markmið og aðferðir bókmenntarýni, sem einkenndi bókmenntarýna mjög á árum áður þegar „kenning“ var að ryðja sér til rúms, hafa lognast út af að mestu leyti (þótt þær eigi sér af og til stað) og mörgum bókmenntarýnum finnst þeir nú hafa gnægð aðferða og nálgana til að velja um.

Sumir bókmenntarýnar vinna einkum með fræðilegan texta en aðrir einbeita sér að lestri bókmenntaverka. Áhugi á meginverkum Vestrænna bókmennta er enn mikill en margir bókmenntarýnar sýna einnig bókmenntum minnihlutahópa og kvenna aukinn áhuga og enn aðrir bókmenntarýnar, undir áhrifum frá menningarfræði, lesa vinsælar bókmenntir eins og myndasögur eða reyfara. Margir bókmenntarýnar fást einnig við kvikmyndafræði eða fjölmiðlafræði. Sumir skrifa um bókmenntasögu en aðrir beita aðferðum og niðurstöðum félagssögu á bókmenntarannsóknir.

Fyrirmynd greinarinnar var „Literary criticism“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 25. júlí 2006.

  • Murray, Chris (ritstj.), Encyclopedia of Literary Critics and Criticism (London: Fitzroy Dearborn, 1999).