Björn Jón Bragason
Björn Jón Bragason (fæddur 1. febrúar árið 1979 í Reykjavík) er íslenskur sagnfræðingur. Foreldrar hans eru Bragi Björnsson bifreiðastjóri (fæddur í Reykjavík 1952) og Katrín Magnúsdóttir bókhaldari (fædd í Reykjavík 1954).
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Björn Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2000. Hann lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2003 með íslensku sem aukagrein og árið 2006 lauk hann meistaraprófi í sagnfræði frá sama skóla. Lokaverkefni hans fjallaði um gjaldþrot Hafskips hf., en sú ritgerð var unnin undir leiðsögn dr. Þórs Whitehead prófessors og Kristjáns Jóhannssonar, lektors við viðskipta- og hagfræðideild. Björn Jón lauk BA prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2012.
Störf
[breyta | breyta frumkóða]Björn Jón hefur verið verslunarmaður frá árinu 2000 og framkvæmdastjóri hópbifreiðaleyfishafa árið 2013. Þá hefur hann unnið að margháttuðum sagnfræðirannsóknum frá 2006. Árið 2008 kom út bók hans Hafskip í skotlínu,[1] sem var afrakstur tveggja ára rannsóknarvinnu um gjaldþrotamál Hafskips hf. og sakamálarannsókn í kjölfar þess.
Meðal fræðigreina Björns Jóns eru „Áhrif veðurfars á sjávarútveg og landbúnað á fyrri öldum“, sem birtist í Sögnum. Tímariti um söguleg efni árið 2005; „Pólitískar afleiðingar Hafskipsmálsins“ sem birtist í 4. hefti Þjóðmála 2006; „Björgunarmönnum refsað. Rannsóknarnefnd Alþingis í Hafskipsmálinu“, sem birtist í Morgunblaðinu 11. október 2009 og byggði á rannsókn Björns Jóns; „Aðdragandinn að falli Straums Burðaráss“, sem birtist í 2. hefti Þjóðmála 2010; „Aðdragandi falls Landsbanka Íslands hf.“ Greinargerð frá ágústmánuði 2010, birt á netinu; „Sagan af einkavæðingu Búnaðarbankans“, sem birtist í 2. hefti tímaritsins Sögu árið 2011; „Skáldkonan frá Sveinatungu“ sem birtist í Borgfirðingabók 2012. Þá grein vann Björn Jón í samvinnu við Ingibjörgu Bergsveinsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra. Einnig hafa birst fjölmargar blaða- og netgreinar eftir Björn Jón um margvísleg málefni, meðal annars um sögu verslunar í miðbæ Reykjavíkur. Þá hefur Björn Jón einnig unnið að heimildarmyndagerð um ýmis sagnfræðileg viðfangsefni.[2] Um tíma var hann einnig framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg.[3]
Stjórnmálaþátttaka
[breyta | breyta frumkóða]Björn Jón hefur verið virkur í starfi Heimdallar og Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þá hefur hann frá árinu 2012 setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Langholts og frá sama ári í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.[4] Hann hefur starfað með Verði – fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og stýrt stjórnmálaskóla Varðar, auk þess að stýra námskeiðum á vegum Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur Björn Jón tekið þátt í starfi ungliða í hverfafélögum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Björn Jón var formaður Frjálshyggjufélagsins árin 2009–2012. Hann sat í stjórn félagsins áður frá árinu 2007. [5][6]
Árið 2011 bauð Björn Jón sig fram til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, á sambandsþingi þess. Björn Jón laut í lægra haldi fyrir Davíð Þorlákssyni og hlaut Björn 38% atkvæða en Davíð 62%.[7]
Björn Jón bauð sig fram í 2.-3. sætið til borgarstjórnar Reykjavíkur 2014. [8]. Hann var langt frá því að ná kjöri og var ekki í 10 efstu sætunum.[9]
Ýmis félagastörf
[breyta | breyta frumkóða]Björn Jón starfaði á vettvangi skátahreyfingarinnar um langt árabil og sömuleiðis með Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Hann var um hríð starfsmaður Alþjóðabandalags drengjaskáta, WOSM, í Kandersteg í svissnesku Ölpunum og þá gegndi hann störfum á vegum Boy Scouts of America í Philmont, New Mexico. Björn Jón lauk æðstu þjálfun skáta og Íslandi og æðstu prófmerkjum. Fyrir störf sín hefur hann hlotið gullmerki Bandalags íslenskra skáta og ýmis fleiri heiðursmerki.
Björn Jón hefur um iðkað frjálsar íþróttir með Íþróttafélagi Reykjavíkur um árabil. Hans meginkeppnisgrein er 400 m hlaup.[10]
Björn Jón sat í stjórn Félags sagnfræðinema árin 2002 – 2003 og 2005 – 2006.
Björn Jón er þekktur fyrir að gefa nemendum sínum mjög persónulega aðstoð innan og utan skóla.
Verkfall framhaldskólakennara 2014
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2014 fóru framhaldskólakennarar í verkfall. Nokkrir nemendur MR fengu Björn Jón til að kenna sér íslensku en Rektor Menntaskólans í Reykjavík stöðvaði kennsluna með þeim rökum að hún væri verkfallsbrot.[11] Útskýring Björns á því af hverju hann hefði tekið að sér þessa kennslu þegar kennarar væru í verkfalli var að hann hefði ekkert á móti kennurum, bara verkföllum.[12]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 7. maí 2013.
- ↑ http://wayback.vefsafn.is/wayback/20111125154508/www.bjornjon.is/?page_id=2
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. ágúst 2013. Sótt 7. maí 2013.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. febrúar 2013. Sótt 7. maí 2013.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. mars 2016. Sótt 7. maí 2013.
- ↑ http://www.visir.is/stjorn-frjalshyggjufelagsins-kosin---formadur-endurkjorinn/article/2011659331283
- ↑ http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/08/28/david_thorlaksson_kjorinn_formadur_2/
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. febrúar 2014. Sótt 27. mars 2014.
- ↑ http://www.xd.is/profkjor2014/reykjavik/nidurstodur-profkjors/[óvirkur tengill]
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 7. maí 2013.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. mars 2014. Sótt 27. mars 2014.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. mars 2014. Sótt 27. mars 2014.