Þorleifur Þorleifsson
Þorleifur Þorleifsson | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fæddur | Þorleifur Þorleifsson 1917 |
Dáinn | 1974 |
Störf | Ljósmyndari og teiknari |
Þorleifur Þorleifsson (fæddur 17. febrúar 1917 í Reykjavík, látinn 22. júlí 1974) var íslenskur ljósmyndari og teiknari.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Foreldrar Þorleifs voru Þorleifur Þorleifsson ljósmyndari (11. júlí 1882 – 3. apríl 1941) og Elín Sigurðardóttir húsmóðir (24. júní 1891 – 4. apríl 1985). Systkini hans eru: Amalía Þorleifsdóttir (21. september 1911 – 11. febrúar 1993), verslunarmær. Oddur Þorleifsson (18. nóvember 1922 – 28. janúar 2002), ljósmyndari. Eyja Pálína Þorleifsdóttir (27. ágúst 1925 – 16. mars 2003), húsmóðir. Sigurður Þorleifsson (22. mars 1927 – 19. júlí 2012), verslunarmaður. Guðjón Þorleifsson (7. október 1928), vélstjóri. Guðbjartur Þorleifsson (24. apríl 1931), gullsmiður og Kristín Þorleifsdóttir (29. Júlí 1937), húsmóðir.
Langafi hans í föðurætt var Þorleifur Þorleifsson í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, víðfrægur fyrir smáskammtalækningar sem reyndust svo haldgóðar að honum var veitt opinbert lækningaleyfi. Auk þess var hann forvitri, sá eða fann á sér óorðna viðburði. Sú dulargáfa varð mörgum að liði og barg frá ýmsum skaða.
Í móðurætt Þorleifs var það ættbogi Þuríðar Árnadóttur (19. mars 1871 – 13. Apríl 1954) og Sigurðar Jónssonar í Bæ sem í daglegu tali var nefnd Bæjarættin. Þangað mun Þorleifur hafa sótt handlagni og hæfileika til listrænnar sköpunar. Afi hans Sigurður var sagður þúsundþjalasmiður, hann smíðaði ýmiskonar amboð eins og hrífur og orf og gerði við hvers kyns verkfæri fyrir bæjarbúa.
Uppvöxtur og nám
[breyta | breyta frumkóða]Þorleifur var fjögurra ára þegar faðir hans, Þorleifur Þorleifsson eldri (sem lærði ljósmyndun hjá Magnúsi Ólafssyni), og Óskar Gíslason ljósmyndari (síðar kvikmyndagerðarmaður) stofnuðu ljósmyndastofu í Kirkjustræti og ráku hana saman í mörg ár. Þeir veittu almenna ljósmyndaþjónustu, tóku myndir, framkölluðu og unnu eftirtökur af ljósmyndum. Árið 1926 stofnaði svo Þorleifur eldri Amatörverslunina (ljósmyndavöruverslun og stúdíó) sem var lengst af staðsett í Austurstræti 6. Meðal nýjunga þar var innflutningur á leikföngum frá Þýskalandi og lifandi jólatrjám frá Danmörku sem seld voru á Austurvelli og basar fyrir hver jól þar til stríðið skall á 1939, þá lokaðist fyrir þann innflutning.
Brot úr minningargrein í Morgunblaðinu 1974.
„Í æsku hóf Þorleifur störf hjá föður okkar sem rak Amatörverzlunina. Hann gekk í Verzlunarskólann, en lauk ekki námi vegna fráfalls föður okkar árið 1941. Hann var þá 24 ára gamall og næstelztur átta systkina. Þá komu einstæðir mannkostir hans fram: Hann fórnaði eigin framtíð fyrir yngri systkini sín og gekk okkur í föður stað. Þrátt fyrir stutta skólamenntun lærði hann til fullnustu þrjú tungumál meðal margs annars. Þessi málakunnátta átti eftir að koma honum í góðar þarfir á lífsleiðinni við rekstur ljósmyndastofu og verzlunar, innflutnings og þýðinga, en ekki sízt vegna ótæmandi fróðleiksþorsta um hin ólíkustu efni. Með frábærum gáfum viðaði hann að sér mannlegri vitneskju og þá jafnframt vísindalegri um hvaðeina, sem menn hafa brotið til mergjar fyrr og nú. Af þessu leiddi, að hann var sjálfur orðinn brunnur þekkingar. Var hrein unun að ræða við hann og spyrja. því að svörin voru borin fram af manni, sem var óvenju gáfaður, en með öllu hrokalaus og framúrskarandi prúður og lítillátur.“[1]
Amatörverzlunin
[breyta | breyta frumkóða]Þorleifur lærði ásamt Oddi bróður sínum ljósmyndatæknina af föður þeirra en þá vantaði prófgráðu til löggildingar svo Óskar tók þá í læri og námu þeir fræðin við Iðnskólann í Reykjavík um fjögurra ára skeið. Eftir lát föður þeirra fluttu þeir fyrirtækið Amatör að Laugarvegi 55 við hliðina á versluninni VON, og ráku saman þar til Þorleifur lést árið 1974, en Oddur hélt áfram ljósmyndastofunni allt til dauðadags. Þeir bræður stunduðu ljósmyndun, framköllun og seldu ýmis tæki til ljósmyndunar og framköllunar. Báðir voru þeir listrænir mjög og brydduðu upp á ýmsum nýjungum, svo sem jóla- og gjafakortum með frumteikningum Þorleifs og álímdum ljósmyndum þeirra bræðra eða frá viðskiptavinum.
-
Frummynd Þorleifs að merki fyrir Amatör verslun.
-
Frummynd Þorleifs af auglýsingu fyrir Amatör verslun.
-
Ljósmynd Þorleifs af útstillingarglugga Amatör verslunar.
-
Ljósmynd Þorleifs af Miðbæjarskólanum - Pantað verkefni.
-
Teikning Þorleifs af Miðbæjarskólanum - Pantað verkefni.
-
Reikningur Þorleifs fyrir pöntuðu verkefni.
-
Grunnmynd Þorleifs af jólakorti fyrir viðskiptavini.
-
Ljósmynd af versluninni VON um 1955, til vinstri sést í glugga Amatör.
Íslenzkir tónar
[breyta | breyta frumkóða]Um 1950 kynntust þeir bræður Tage Ammendrup sem þá var kominn með „horn“ í versluninni Drangey sem móðir hans rak að Laugavegi 58. Þar seldi Tage nótur, nótnahefti og innfluttar hljómplötur. Tage dreymdi stóra drauma fyrir hönd íslenskrar tónlistar og árið 1954 komu fyrstu íslensku hljómplöturnar út á vegum Íslenzkra tóna. Umslögin eru unnin af þeim bræðrum Þorleifi sem teiknaði og Oddi sem ljósmyndaði. Þau urðu alls um 70 talsins sem Þorleifur teiknaði og ljósmyndaði í bland við ljósmyndir Odds. Í byrjun voru umslögin frekar einföld að gerð og naut Þorleifur góðs af því að hafa lært leturskrift í Iðnskólanum. Þorleifur var lúnkinn teiknari en vildi gera betur og skráði sig því í bandarískan bréfaskóla í teikningu.
Við gerð plötuumslaganna var allt letur á framhliðum þeirra handteiknað af Þorleifi sem og vörumerki Íslenzkra tóna. Hann studdist við ljósmyndir við vinnu sína og blandaði saman ólíkum listformum (blandaðri tækni) svo úr varð listræn heild.
Útlit umslaganna þróaðist hratt og þarna urðu til nokkur af flottari hljómplötuumslögum tuttugustu aldar í íslenskri hljómplötuútgáfu. Nægir að nefna 45-2004 Helena og Óðinn - Segðu nei, 45-2006 Óðinn Valdimarsson – Í kjallaranum, 45-2013 Soffía og Anna Sigga – Óli prakkari, EXP-IM 35 Sjómannavalsar, EXP-IM 58 Helena Eyjólfs - Jólasálmur, EXP-IM_59 Ingibjörg Þorbergs – Syngur fyrir börnin og EXP-IM 69 Óðinn Valdimarsson - Einsi kaldi úr Eyjunum (sjá myndir).
-
Plötuumslagið 45-2004
-
Frummynd Þorleifs af plötuumslaginu 45-2004
-
Plötuumslagið 45-2006
-
Frummynd Þorleifs af plötuumslaginu 45-2006
-
Plötuumslagið 45-2013
-
Frummynd Þorleifs af plötuumslaginu 45-2013
-
Plötuumslagið EXP-IM_35
-
Frummynd Þorleifs af plötuumslaginu EXP-IM_35
-
Plötuumslagið EXP-IM_58
-
Frummynd Þorleifs af plötuumslaginu EXP-IM_58
-
Plötuumslagið EXP-IM_59
-
Frummynd Þorleifs af plötuumslaginu EXP-IM_59
-
Plötuumslagið EXP-IM_69
-
Frummynd Þorleifs af plötuumslaginu EXP-IM_69 - Módel Guðbjartur Þorleifsson
Bréfaskólinn
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Þorleifur vildi ná betri tökum á teikningu og málun voru góð ráð dýr, ekki gat hann sest á skólabekk í einhver ár til að fullnuma sig í listinni því þá hyrfu tekjurnar sem hann hafði af vinnu sinni við verslunina Amatör. Hann hafði um skeið verið áskrifandi að tímariti um listir og er hann sá í blaðinu auglýsingu frá þekktum amerískum teiknibréfaskóla, Art Instruction Inc., var í hasti sótt um og hafið bréfanám í myndlist. Verkefnin hjá skólanum nefndust „Problem“ og þau leysti Þorleifur eitt af öðru með mestu ágætum og hlaut 1. verðlaun og fría kennslu í skólanum í 3 ár.
-
Verkefni úr bréfaskólanum - Bílaauglýsing
-
Útskriftarskjal frá bréfaskólanum
-
Verkefni úr bréfaskólanum - Fantasía
-
Verkefni úr bréfaskólanum - Teikning af konu
-
Verkefni úr bréfaskólanum - Munstur
-
Verkefni úr bréfaskólanum - Ferðauglýsing
-
Verkefni úr bréfaskólanum - Laxveiði
„Problem“ númer átta
Eitt af verkefnunum eða „Problem“ númer átta var að finna sitt eigið sögusvið og útfæra í ljósmyndum, teiknuðum skissum að endanlegri útfærslu í lit. Fyrir valinu varð kafli í Gísla sögu Súrssonar um aðförina að Gísla eða „Gisli the Outlaw“ eins og verkefnið nefndist á ensku. Þetta var árið 1957.
-
Verkefni Þorleifs við bréfaskólann; „Problem“ númer 8. Mynd-01
-
Verkefni Þorleifs við bréfaskólann; „Problem“ númer 8. Mynd-02
-
Verkefni Þorleifs við bréfaskólann; „Problem“ númer 8. Mynd-03
-
Verkefni Þorleifs við bréfaskólann; „Problem“ númer 8. Mynd-04
-
Verkefni Þorleifs við bréfaskólann; „Problem“ númer 8. Mynd-05
-
Verkefni Þorleifs við bréfaskólann; „Problem“ númer 8. Mynd-06
-
Verkefni Þorleifs við bréfaskólann; „Problem“ númer 8. Mynd-07
Tómstundir
[breyta | breyta frumkóða]Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala um „tómstundir“ í lífi Þorleifs. Allt hans líf var list í víðasta skilningi þess orðs. Hann lærði, talaði og skrifaði reiprennandi þýsku, dönsku og ensku um tvítugt, sjálfmenntaður. Hann elskaði náttúru Íslands og fjallaferðir urðu honum innblástur til margra verka. Gullöld Íslands var honum hugleikinn og hann endurskóp vopn fornmanna og verjur í örsmáum fullkomnum og dverghögum eftirmyndum. Þá eru hin einstæðu þrívíddarmódel hans af húsum og hverfandi bæjarhlutum Reykjavíkur fjársjóður að ganga í til fróðleiks fyrir komandi kynslóðir. Vinna við hafnargerð í Reykjavík stóð frá 1913 – 1917 og til þeirrar gerðar var flutt til landsins eimreið og lögð járnbraut frá Öskjuhlíð að höfninni til flutninga á grjóti. Þessi saga verklegra framkvæmda í Reykjavík var Þorleifi einkar hugleikin og árið 1973 gaf hann út hefti um sögu þessa ásamt því að gera nákvæmt líkan af Eimreiðinni í málm sem nú er varðveitt hjá Sjóminjasafni Reykjavíkur – Víkinni ásamt nokkrum öðrum líkönum Þorleifs tengt sjávarsögu bæjarins. Í Árbæjarsafni er líkan eftir Þorleif af einni sjóflugvél frá hnattflugi Bandaríkjamanna árið 1924 með viðkomu á Hornafirði og í Reykjavík, þar sem vélin var dregin upp gömlu steinbryggjuna rétt neðan við Eimskipafélagið og upp á planið hjá Ellingsen. Þorleifur eldri tók myndir af þessum merka atburði og vélinni sem þorleifur yngri gerði síðan líkan af um 1950 eftir myndum föður síns. Það líkan þótti svo listilega gert að Þorleifi var boðið starf hjá Douglas verksmiðjunum sem framleiddu vélina.
-
Frummynd Þorleifs af fjallgöngumanninum Þorleifi.
-
Þrívíddarmmynd Þorleifs frá Reykjavíkurhöfn.
-
Þrívíddarmmynd Þorleifs af Vífilfelli.
-
Þrívíddarverk Þorleifs af vopnum fornmanna.
-
Þorleifur við vinnu sína.
-
Þrívíddarverk Þorleifs af vopnum fornmanna.
-
Þrívíddarmmynd Þorleifs frá sjávarsíðunni.
-
Þorleifur á fjöllum
-
Ljósmynd Þorleifs eldri af hnattflugi bandaríkjamanna 1924.
-
Líkan Þorleifs af hnattflugsvél bandaríkjamanna 1924.
-
Ljósmynd Þorleifs af jólum á Austurvelli.
-
Ljósmynd Þorleifs af Kjarval á hausnum 1955.
-
Ljósmynd Þorleifs af Oddi bróður.
-
Ljósmynd Þorleifs af "stórborg".
Kvikmyndir
[breyta | breyta frumkóða]Frá þeirri stundu er Óskar Gíslason gerðist kvikmyndagerðarmaður varð Þorleifur stoð hans og stytta í kvikmyndagerðinni. Óskar var hugmyndasmiðurinn, hann var tökumaður, sá um framköllun og klippingu en Þorleifur sá um „hitt“. Samstarfsverkefnin urðu mörg og í kynningarmyndinni Reykjavík vorra daga (1947–48) léku þeir bræður Þorleifur og Oddur smá hlutverk. Myndina Björgunarafrekið við Látrabjarg (1949), unnu þeir Þorleifur og Óskar saman að hluta. Sú mynd var gerð fyrir Slysavarnarfélagið og átti að fjalla um björgun manna af enska togaranum Dhoon sem strandaði undir Látrabjargi í desember 1947. Byrjað var á myndinni 1948 og léku björgunarmenn frá árinu áður sjálfa sig. Allt gekk samkvæmt áætlun þar til boð berast um að annar breskur togari Sargon væri strandaður í mynni Patreksfjarðar. Þar með breytist myndin úr leikinni heimildamynd í fréttamynd af atburðum sem voru að gerast. Myndin fór sigurför um heiminn og þykir enn í dag meðal bestu mynda sinnar tegundar.
Síðasti bærinn í dalnum
-
Leikskrá Síðasti bærinn í dalnum - Forsíða
-
Leikskrá Síðasti bærinn í dalnum - Síða tvö
-
Leikskrá Síðasti bærinn í dalnum - Síða þrjú
-
Leikskrá Síðasti bærinn í dalnum - Síða fjögur
-
Leikskrá Síðasti bærinn í dalnum - Síða fimm
-
Leikskrá Síðasti bærinn í dalnum - Síða sex
-
Leikskrá Síðasti bærinn í dalnum - Síða sjö
Stórvirki þeirra félaga varð svo Síðasti bærinn í dalnum (1950), sem er talsett litmynd í fullri lengd. Handritið gerði Þorleifur eftir sögu Lofts Guðmundssonar blaðamanns, þýðanda og söngtextahöfundar en leikstjóri var Ævar Kvaran.
„Aðstæður hafa hagað því þannig, að eftir að Þorleifur yngri hafði verið lærlingur minn og tekið ljósmyndarapróf, áttum við eftir að vinna saman í mörg ár við kvikmyndagerð, Þorleifur hefir skrifað handritin að öllum mínum kvikmyndum, sem leiknar hafa verið, sérstaklega er kvikmyndahandritið að „Síðasti bærinn í dalnum," eitt af hans meistaraverkum. þar sem hann fann upp sérstakan stíl við gerð kvikmyndahandrita, og býst ég við, að þetta handrit eigi eftir að verða mjög sögulegt. Það leiddi af sjálfu sér, að Þorleifur var sjálfkjörinn aðstoðarleikstjóri í öllum mínum kvikmyndum, sem leikarar léku í. Einnig smíðaði hann allan leiksviðsútbúnað eftir eigin teikningum, og þar ber einna hæst sviðsútbúnaðurinn í kvikmyndinni „Ágirnd", sem tekin var á fjölum Þjóðleikhússins.[2]“
Tökur á Síðasta bænum í dalnum fóru fram í skriðunum undir Ingólfsfjalli og við bæinn Tannastaði í Ölfusi en innisenur voru að mestu teknar í Árbæ. Vinnan við kvikmyndina var einstaklega gefandi og skemmtileg fyrir Þorleif sem bryddaði upp á ýmsum nýjungum svo sem við gerð titla í myndinni, brellum í myndatöku og afbragðs lausn á hinni fljúgandi kistu.
Óskar fékk vélstjórann Guðjón bróður Þorleifs til að smíða vagn (Dolly) til að geta náð mjúkri hreyfingu myndavélar við tökur á útisenum. Vagn Guðjóns mun líklega vera fyrsti vagn sinnar tegundar sem smíðaður er hérlendis.
Tónlistina við myndina samdi Jórunn Viðar tónskáld og var það fyrsta kvikmyndatónlist sem samin var á Íslandi við mynd í fullri lengd.
Eftir gerð myndarinnar „Síðasti bærinn í dalnum“ sem hlaut metaðsókn og einróma lof var ráðist í gerð grínmyndarinnar Reykjavíkurævintýri Bakka bræðra (1951) sem fékk talsverða aðsókn á sínum tíma.
Því næst var það glæpamyndin Ágirnd (1952) sem unnin var eftir sögu Svölu Hannesdóttur og mynduð á sviði Þjóðleikhússins. Sú mynd var bönnuð eftir nokkrar sýningar með lögregluvaldi því í henni sást prestur fremja þjófnað. Það fór fyrir brjóstið á klerkastéttinni sem fékk lögbann sett á myndina. Að lokum var það svo myndin Nýtt hlutverk (1954) sem er Reykjavíkursaga gerð eftir samnefndri smásögu Vilhjálms S. Vilhjálmssonar í leikstjórn Ævars Kvaran. Myndirnar hafa allar verið sýndar í kvikmyndahúsum.
Eftirmál
[breyta | breyta frumkóða]„Þorleifur var mikill og einlægur náttúruskoðari og náttúruunnandi og urðu það ófáar gönguferðirnar, er við fórum saman í um rúmlega 20 ára skeið. Á slíkum gönguferðum var eðlilega margt skrafað og rætt, en einkum voru honum andleg viðfangsefni kærkomið umræðuefni, því að Þorleifur heitinn var mjög andlega sinnaður og leitandi maður með víðsýnt og bjart hugarfar og næma samkennd til alls, er lifði og dafnaði, hvort heldur voru æðri eða lægri Iífverur, og mátti helzt ekkert aumt sjá. Það má því segja, að hann hafi hlotið þá gæfu í þessu lífi að rækta með sér flestar þær eigindir, er góðan og göfugan mann mega prýða, enda maðurinn hvers manns hugljúfi öllum þeim, er kynntust honum. Minningar um margar af skemmtilegustu samverustundum okkar Þorleifs geymi ég í hjarta mínu sem dýrmætan fjársjóð, sem ég vildi ekki hafa farið á mis við.“[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Bréfaskólinn í myndlist – Art Instruction Inc. Geymt 23 apríl 2015 í Wayback Machine
- Vagn (Dolly) Geymt 30 desember 2013 í Wayback Machine
- Járnbrautin í Reykjavík 1913 – 1928
- Um kvikmyndina Ágirnd