Fara í innihald

Árni Þór Sigurðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Árni Þór árið 2007.

Árni Þór Sigurðsson (f. 1960 í Reykjavík) er íslenskur sendiherra og fyrrum alþingismaður. Árni Þór lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Hamrahlíð 1979 og cand.mag. prófi í hagfræði og málvísindum frá Oslóarháskóla 1986. Hann stundaði framhaldsnám í slavneskum málum við háskólana í Stokkhólmi og Moskvu. Auk þess hefur Árni Þór stundað nám í ensku við King‘s College í Bournemouth á Englandi, í rússnesku við Extra Class í Pétursborg í Rússlandi og í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Hann lauk meistaranámi í alþjóðasamskiptum[1] frá Háskóla Íslands árið 2015.

Árni Þór ólst upp í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigurður Kristófer Árnason skipstjóri og Þorbjörg Friðriksdóttir hjúkrunarkennari (bæði látin). Eiginkona Árna Þórs er Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur og eiga þau þrjú börn.

Árni Þór starfaði sem leiðsögumaður í Rússlandi um tíma, var fréttaritari við Ríkisútvarpið þar í landi og á fréttastofu RÚV. Þá var hann deildarstjóri í samgönguráðuneytinu og ritstjórnarfulltrúi á Þjóðviljanum og Helgarblaðinu. Á árunum 1992-1997 starfaði hann við kjara- og félagsmál hjá Kennarasambandi Íslands.

Í sveitarstjórn

[breyta | breyta frumkóða]

Árni Þór hefur starfað í sveitarstjórnarmálum sem borgarfulltrúi í Reykjavík og stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í Reykjavík hefur hann stýrt málaflokkum eins og hafnamálum, leikskólamálum, skipulagmálum og umhverfis- og samgöngumálum. Þá var hann forseti borgarstjórnar 2002-2005. Árni Þór sat í stjórn Hafnasambands Íslands 1994-2004, þar af sem formaður frá 1997 og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1999-2007, meðal annars sem varaformaður. Þá hefur hann reynslu af alþjóðasamstarfi á sviði sveitarstjórnarmála.

Á Alþingi

[breyta | breyta frumkóða]

Árni Þór var kjörinn alþingismaður í Alþingiskosningunum 12. maí 2007 og er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hann átti sæti í samgöngunefnd Geymt 14 febrúar 2012 í Wayback Machine og umhverfisnefnd Geymt 23 september 2009 í Wayback Machine Alþingis og einnig í þingmannanefnd EFTA Geymt 30 júní 2007 í Wayback Machine. Í kosningunum 2009 var hann endurkjörinn sem þingmaður VG í Reykjavíkurkjördæmi norður. Á kjörtímabilinu 2009-2013 hefur Árni Þór verið formaður utanríkismálanefndar Geymt 22 september 2009 í Wayback Machine, átt sæti í allsherjarnefnd, menntamálanefnd, félagsmálanefnd, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Þá hefur hann átt sæti í þingmannanefnd EFTA/EES Geymt 3 apríl 2013 í Wayback Machine, þar af sem formaður frá 2009, á sæti í Norðurlandaráði, var m.a. formaður mennta- og menningarmálanefndar ráðsins 2012 og sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 2009. Árni Þór var formaður Sameiginlegu þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins Geymt 25 mars 2013 í Wayback Machine fram að afsögn sinni.

Árni Þór hefur verið virkur í alþjóðastarfi, bæði á sveitarstjórnarstigi og á vegum Alþingis. Hann átti sæti í stjórnarnefnd Eurocities um samgöngumál Geymt 6 mars 2016 í Wayback Machine, var fulltrúi íslenskra sveitarfélaga á sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins, sat þing Alþjóðahafnasambandsins árin 1994 - 2006 og var í stjórn Alþjóðasambands hafnaborga. Þá starfaði hann um skeið sem verkefnisstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel.

Árni Þór árið 2018 ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og Ināra Mūrniece forseta Alþingis Lettlands.

Árni Þór sagði af sér þingmennsku sumarið 2014, en skömmu áður hafði verið tilkynnt að hann hefði verið skipaður sendiherra af Gunnari Braga Sveinssyni.[2] Árið 2018 viðurkenndi Gunnar Bragi í einkasamtali sem náðist á upptöku að hafa fyrst og fremst útnefnt Árna Þór í embættið til að draga athygli almennings frá útnefningu Geirs H. Haarde í sendiherraembætti Íslands í Bandaríkjunum.[3]

Árni Þór gegndi starfi sendiherra norðurslóðamála í utanríkisráðuneytinu 2015-2017, sendiherra í Helsinki 2018-2020. sendiherra í Moskvu 2020-2023 og sendiherra í Kaupmannahöfn frá 2023.

Í maí 2024 var Árni Þór skipaður formaður Framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa við Grindavík.

  1. https://skemman.is/bitstream/1946/20832/1/%C3%81rni%20%C3%9E%C3%B3r%20Sigur%C3%B0sson%203007604579%20Meistararitger%C3%B0.pdf
  2. Árni Þór segir af sér[óvirkur tengill], dv.is, 18. ágúst 2014
  3. Kristinn H. Guðnason og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson (28. nóvember 2018). „Gunnar Bragi skipaði Árna Þór sendiherra til að draga athygli frá Geir Haarde – „Ég var brjálaður við þig Gunni". DV. Sótt 28. nóvember 2018.

Fésbókarsíða Árna Þórs.