Yfirlið
Útlit
Yfirlið, öngvit eða ómegin er skyndilegt meðvitundarleysi og aflmissir, sem stendur stutt og hættir jafn skyndilega og það byrjaði. Yfirlið stafar af skyndilegri minnkun blóðflæðis til heila, oftast vegna lágs blóðþrýstings. Stundum fær fólk svima, svitakast, fölva, sjóntruflanir, ógleði eða hitatilfinningu rétt á undan. Orsakir yfirliða eru þrenns konar: ástæður tengdar hjarta- og æðakerfi, eins og óreglulegur hjartsláttur; ástæður tengdar taugakerfinu, eins og óeðlilegur hægsláttur (til dæmis vegna ofsahræðslu, hósta eða uppkasta); og réttstöðuþrýstingsfall þar sem blóðþrýstingur minnkar við að standa upp eða setjast niður.