Vandsveinn
Vandsveinar voru þjónustumenn í hinni fornu Róm, er gengu fyrir æðstu embættismönnum Rómverja og báru axarvönd, svonefndan „fasces,“ sem var exi umslegin hrísi og var tákn valdsins.
Helsta verkefni vandsveina var að fylgja ræðismönnum og höfðu í raun samskonar hlutverki að gegna og lífverðir nútímans. Þeir báru axarvönd sinn með sér hvert sem ræðismennirnir fóru, hvort sem það var á þing eða í laugar. Vandsveinar ruddu þeim leið í gegnum mannfjöldann og gátu handtekið óbreytta þegna ef ræðismaðurinn skipaði svo fyrir. Vestumey var úthlutaður vandsveinn ef hún þurfti að gegna opinberri þjónustu.
Vandsveinn heitir lictor á latínu (komið af orðinu ligare (að binda)). Vandsveinn hefur einnig verið nefndur vöndulsveinn og bundinsveinn á íslensku.
Orðið fasisti er dregið af orðinu „fasces“.