Fara í innihald

Myndbandstæki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vídeótæki)
Fyrstu myndbandstækin voru hlaðin að ofanverðu.

Myndbandstæki eða vídeótæki er raftæki til að spila og taka upp á myndbandsspólu. Myndbandstæki voru algengt heimilistæki á 9. og 10. áratug 20. aldar en liðu smám saman undir lok eftir að DVD-spilarinn varð algengari upp úr aldamótunum 2000.

Fyrstu myndbandstækin fyrir almennan markað komu fram á 7. áratugnum en náðu ekki almennri hylli fyrr en um 1975. Á 9. áratugnum slógu tækin í gegn. Þá voru tveir myndbandsspólustaðlar sem tókust á um markaðinn; Betamax frá Sony og VHS frá JVC. VHS varð ofaná undir lok 9. áratugarins þar sem tækin voru mun ódýrari. Úrval mynda á myndbandaleigum hafði líka áhrif á val á tegund tækis. Myndbandsvélar sem gátu tekið beint upp á myndbandsspólur náðu líka nokkrum vinsældum meðal almennings.

Kvikmyndaframleiðendur börðust gegn myndbandstækjamarkaðnum í upphafi 9. áratugarins þar sem hann gerði fólki kleyft að afrita kvikmyndir bæði af öðrum myndbandsspólum og úr sjónvarpi. Árið 1984 vann Sony málið Sony gegn Universal City Studios fyrir hæstarétti sem úrskurðaði að tækið væri löglegt til afnota á heimilum. Á sama tíma varð ljóst að framleiðsla og sala á kvikmyndum á myndböndum var orðin mikilvæg tekjulind fyrir kvikmyndafyrirtækin.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.