Fara í innihald

Spjall:Bárðarbunga

Innihald síðu er ekki stutt á öðrum tungumálum.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Úr bókinni: Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson, bls. 345:

Bárðarbunga er ein mesta eldstöð landsins. Hún rís 900 m hæð yfir umhverfi sitt, frá 1000-1100 m hæð við suður- og norðurhlíðar. Á miðju fjallinu er allt að 700 m djúp askja, og eru 11 km milli barma hennar frá suðvestri til norðausturs, en 7-9 km frá norðvestri til suðausturs, en 7-9 km frá norðvestri til suðausturs, og umlykja barmarnir 80 km2. Botn öskjunnar er í 1100 m hæð, en hæstu rimar að norðanverðu 1850 m háir, 1650 m að vestan, 1750 m að sunnan, en lægstir eru þeir austanvert, 1450 m. Þrjú skörð eru í brúnum öskjunnar, eitt í suðvestri í um 1450 m og veit að Köldukvíslarjökli, annað í norðaustri í um 1400 m, og það lægsta er fyrir miðjum austurbarminum í um 1350 m, og frá því liggur þröngur dalur, sem jökulhlaup gætu fallið um niður miðjan Dyngjujökul.
Allt að 800 m þykkur jökull er inni í öskjunni (þar eru alls um 43 km3 af ís), en þynnst er yfir norðurrimanum, um 150 m, 250 m yfir þeim vestari, 200 til 400 m á suðurbrúninni, en þykksti ísinn flæðir yfir austurbarmana, 300-400. Sunnan í Bárðarbungu nær jökull 700 m, en þynnsti í 400 m, þegar kemur á norðurbrún Grímsvatna. Í Grímsvatnalægðinni er ís frá 250 til 350 m þykkur.
Bárðarbunga er talin vera miðja eldstöðvakerfis, sem teygir sprungusveim nær 150 km suðvestur til Veiðivatna og Torfajökuls. Frá suðvesturhlíðum Bárðarbungu fer hryggur suðvestur yfir Köldukvíslarjökul í átt að Hamrinum. Norðaustur frá Bárðarbungu stefna sprungusveimar í stefnu frá Dyngjuháls og Trölladyngju, og nær því eldstöðvarkerfið yfir nær 200 km og er stærst allra á Íslandi. Fundist hafa ummerki 27 eldgosa á eldstöðvarkerfi Bárðarbungu og Veiðivatna. Reyndar eru ekki þekkt gos í sjálfri Bárðarbungu, en væntanlega hefur gosið undir jökli norðan í henni, suður af Dyngjuhálsi árið 1902, þegar jökulhlaup fóru bæði í Jökulsá á Fjöllum og í Skjálfandafljót. Á þessum slóðum gæti hafa gosið 1797 og einnig snemma á 18. öld,þegar jökulhlaup spillti jörðum í Kelduhverfi.
Ekki hefur fundist kvikuhólf undir Bárðarbungu, og jarðhiti þar er óverulegur, en hann er skammt frá í Vonarskarði og undir Hágöngulóni. Í gosinu í Jökulbrjóti 1996 mynduðust tveir sigkatlar suðaustast í Bárðarbunguöskju, og það bendir til þess, að þar hafi orðið smágos. Jarðskjálftar voru tíðir í Bárðarbungu frá 1974 og fram til eldgossins haustið 1996. Hinn 29. september það ár varð stórskjálfti (5,4 stig á Richterkvarða) við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar, og síðan hófst skjálftahrina, og færðust upptök skjálfta suður frá Bárðarbungu, þegar kvika braut sér leið um jarðlögin, uns gos kom upp miðja leið til Grímsvatna og við tók stöðugur órói.

Hægt að vinna úr þessu til að gera greinina betri. --89.160.147.231 18. ágúst 2014 kl. 22:18 (UTC)[svara]