Fara í innihald

Selfosskirkja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Selfossprestakall)
Selfosskirkja
Selfosskirkja
Selfossi (2005) Jóna Þórunn Ragnarsdóttir
Almennt
Núverandi prestur:  Guðbjörg Arnardóttir
Organisti:  Edit Molnár
Byggingarár:  1952-1956
Kirkjugarður: 
Arkitektúr
Arkitekt:  Bjarni Pálsson
Efni:  Steypa
Turn:  Klukkuturn milli kirkju og safnaðarheimilis

Selfosskirkja er kirkja á Selfossi sem reist var á árunum 1952 til 1956. Málamiðlanir byrjuðu með því að Selfoss myndaðist innan Laugardælasóknar en þorpsbúum þótti kirkjuvegur sinn vera óþægilega langur og vildu fá sjálfstæða kirkju fyrir þorpið. Lóð undir kirkjuna fékkst nálægt Selfossbæjunum á tanga í Ölfusá árið 1942 og kirkjugarðurinn vígður 2. janúar 1945. Fyrsta skóflustungan að kirkjunni var tekin 7. júní 1952 og var mikill mannfjöldi kominn saman til að grafa fyrir grunni kirkjunnar. Sunnudaginn 25. mars 1956, pálmasunnudag þess árs, var kirkjan síðan vígð við hátíðlega athöfn. Frá því fyrst var hugað að kirkju í hreppnum 23 árum fyrr hafði fólki í hreppnum fjölgað úr 171 í meira en 1000.

Skipaðir sóknarprestar við Selfosskirkju hafa aðeins verið sex: Dr. Sigurður Pálsson (til 1971), sr. Sigurður Sigurðarson (1971-1994), sr. Þórir Jökull Þorsteinsson (1994-2001), sr. Gunnar Björnsson (2001-2009) og sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson (frá 2009-2014), en 2009 gekk sóknin inn í Hraungerðisprestakall og nafninu var breytt í Selfossprestakall. Núverandi sóknarprestur er sr. Guðbjörg Arnardóttir og þjónustunni til aðstoðar er sr. Ninna Sif Svavarsdóttir. Fjölmargir prestar hafa verið settir til tímabundinna afleysinga í sóknum prestakallsins þó þeirra sé ekki getið hér. Í prestakallinu eru fjórar sóknir: Hraungerðissókn, Laugardælasókn, Selfosssókn og Villingaholtssókn.

  • Árvaka Selfoss. Ritnefnd: Guðmundur Daníelsson, Haraldur H. Pétursson og Sigurfinnur Sigurðsson. Gefin út af Framkvæmdanefnd Árvöku Selfoss, 1972.