Fara í innihald

Ordbog over det norrøne prosasprog

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Orðabók Árnanefndar)

Ordbog over det norrøne prosasprog (skammstafað ONP) – enskur titill: A Dictionary of Old Norse Prose / eldra danskt heiti: Den Arnamagnæanske kommissions ordbog / á íslensku: Orðabók Árnanefndar – er fornmáls orðabók með útskýringum á dönsku og ensku. Orðabókin hefur að geyma heildarúttekt á orðaforða allra íslenskra og norskra miðaldatexta í lausu máli: frumsömdum og þýddum sögum, trúarritum, alfræði, lögum, skjölum og bréfum.

Orðabókin er unnin á vegum Árnanefndar í Kaupmannahöfn fyrir fjárveitingar frá danska ríkinu, og hefur undirbúningur að útgáfu hennar staðið yfir frá árinu 1939. Orðabókin á að taka til óbundins máls norsks fram til 1370 og íslensks fram til 1540; frá því ári er Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, fyrsta íslenska prentbókin sem varðveist hefur, sem jafnframt er elsta ritið sem Orðabók Háskóla Íslands reisir sína orðtöku á. Viðmiðun við árið 1370 er valin fyrir norska texta því að þá hafði norskan breyst svo mjög að líta verður á íslensku og norsku sem tvö aðskilin tungumál. Verkið tekur ekki til bundins máls enda hafði Finnur Jónsson nýlokið endurskoðun sinni á Lexicon Poeticum sem nær yfir skáldamálið.

Út eru komin þrjú bindi: 1: a-bam (1995), 2: ban-da (2000) og 3: de-em (2004). Alls var áætlað að bindin yrðu ellefu talsins, en miðað við það hlutfall stafrófsins sem út er komið gætu bindin orðið rúmlega tuttugu. Útgáfa ONP í bókarformi er nú í biðstöðu. Í bréfi sem fylgdi 3. bindinu var sagt að næstu 8–10 árin yrðu notuð í að koma gagnasöfnum orðabókarinnar (um 900.000 seðlum) í stafrænt form, auk þess sem efni fyrstu þriggja bindanna verði gert aðgengilegt á netinu.

Árnið 1989 kom út lykilbók, þar sem er mjög nákvæmt yfirlit um handritaforðann sem orðabókin er byggð á, ítarleg heimildaskrá o.fl. Lykilbókin var síðast uppfærð 2004 með sérstöku hefti, þar sem einnig eru leiðbeiningar um notkun bókarinnar.

Ritstjórar orðabókarinnar eru Bent Chr. Jakobsen (aðalritstjóri), Christoper Sanders, Helle Degnbol, Eva Rode og Þorbjörg Helgadóttir (í október 2008).