Oktoberfest
Oktoberfest er árleg bjórhátíð haldin í München, höfuðborg Bæjaralands í Þýskalandi og er fjölmennasta hátíð í heimi. Oktoberfest hefur verið haldin síðan árið 1810. Hátíðin er haldin á svæði sem nefnist Theresienwiese í vesturhluta München. Ár hvert sækja yfir sex milljónir gestir hátíðina heim. Á Oktoberfest er bjórinn í háveigum hafður og fyrir hátíðina brugga brugghúsin í München sérstakan Oktoberfest-bjór sem inniheldur hærra áfengismagn en hin hefbundna framleiðsla.
Saga Oktoberfest
[breyta | breyta frumkóða]Svo kallaðar Oktoberfest-hátíðir voru algengar áður fyrr í Bæjaralandi og þjónuðu þær þeim tilgangi að tæma bjórgeymslurnar áður en nýtt bruggtímabil gengi í garð.
Hin hefðbundna Oktoberfest í München var haldin í fyrsta skipti þann 17. október 1810. Í tilefni af brúðkaupi Ludwigs krónprins og Therese prinsessu þann 12. október 1810 var efnt til kappreiða á engi fyrir utan borgarmúra München. Eftir það var engið nefnt Theresienwiese. Til að gleðja múginn ákvað bæverska konungshirðin að endurtaka kappreiðarnar á sama stað og sama tíma að ári, og þar með skapaðist hefðin fyrir Oktoberfest. Þó nokkrum sinnum hefur reynst nauðsynlegt að hætta við Oktoberfest, ýmist vegna átaka eða farsótta. Árin sem hátíðin var ekki haldin voru: 1813 vegna Napóleonsstyrjaldanna, nokkur ár milli 1854 og 1873 vegna kólerufarsóttar, 1866 vegna prússnesk-austurríska stríðsins, 1870 vegna þýsk-franska stríðsins, 1914 til 1920 vegna heimstyrjaldarinnar fyrri, 1923/1924 vegna óðaverðbólgu og 1939 til 1948 vegna heimstyrjaldarinnar síðari.
Svæðið
[breyta | breyta frumkóða]Svæðið þar sem Oktoberfest hátíðin fer fram heitir Theresienwiese og er í vesturhluta München. Svæðið er um 42 hektarar að stærð. Á svæðinu má finna 14 stór bjórtjöld, 15 smærri bjórtjöld auk þess sem stórt tívolí er á svæðinu. Stóru bjórtjöldin eru misstór, það minnsta hefur yfir um 6 þúsund sætum að ráða á meðan það stærsta hefur 12 þúsund sæti. Alls eru um 100 þúsund sæti í boði.
Á Oktoberfest hátíðinni hafa einungis hin hefðbundnu München-brugghús leyfi til að selja bjór, en þau eru: Spaten-Franziskaner-Bräu, Augustiner, Paulaner, Hacker-Pschorr, Hofbräu og Löwenbräu. Eingöngu er hægt að kaupa bjórinn í svo kölluðum Maß einingum, þar sem 1 Maß samsvarar einum lítra.
Dagsetningar og opnunartímar
[breyta | breyta frumkóða]Vegna algengs kulda í október hefur hátíðin verið látin hefjast í september síðan árið 1872. Opnunardagur hátíðarinnar er því ávallt fyrsti laugardagur eftir 15. september, og lokadagurinn er fyrsti sunnudagur október mánaðar. Vilji svo til að fyrsti sunnudagur október sé 1. eða 2. október, þá er hátíðin framlengd fram á 3. október, sem er þjóðhátíðardagur Þýskalands (Tag der Deutschen Einheit). Hátíðin er því 2 vikur og 3 helgar að lengd.
Bjórtjöldin eru opin virka daga frá 10 að morgni til 23 að kvöldi. Um helgar er opið frá 9 til 23, nema á opnunardaginn, þá er fyrst byrjað að skenkja klukkan 12 á hádegi.
Dagsetningar Oktoberfest frá 2008 til 2015
|
Áhugaverðar tölur
[breyta | breyta frumkóða]- Árlega sækja yfir 6 milljónir gesta Oktoberfest heim. Metaðsókn var árið 1985 þegar 7,1 milljón gestir mættu. Árið 2007 mættu 6,2 milljónir gesta.
- 6,7 milljón lítrar af bjór voru drukknir á Oktoberfest árið 2007.
- Starfsmenn hátíðarinnar eru um 12 þúsund talsins.
- Velta einnar Oktoberfest hátíðar er um það bil 1 milljarður Evra.
- 100 þúsund sæti standa gestum til boða.
- Hátíðarsvæðið (Theresienwiese) er 42 hektarar að stærð.
Vefsíður
[breyta | breyta frumkóða]- www.oktoberfest.de – Heimasíða Oktoberfest
- Myndir frá Oktoberfest Geymt 25 september 2015 í Wayback Machine
- www.muenchen.de – Vefsíða München um Oktoberfest