Módernismi í íslenskum bókmenntum
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: Þarf að endurskrifa þar sem þetta er ritgerð frekar en alfræðigrein |
Hér hefur verið vikið að helstu skáldverkum íslenskum, sem talin hafa verið módern framundir 1990. Bragarhættir ljóða eru því máli óviðkomandi. Hér er því. ekki fjallað sérstaklega um prósaljóð, þar sem auðséð er innlend hefð allt frá því fyrir aldamót, en einkum ber þó á þeim um 1920. En þau ljóð greinast varla frá öðrum, nema hvað ekki er þar fylgt reglubundinni hrynjandi, stuðlun né rími. Yfirleitt ríkir ljóðrænt orðalag í prósaljóðum, myndir, líkingar og röklegt samhengi. Oft eru þau dæmisögukennd, og mjótt á munum yfir til ævintýra, sem margir sömdu á þessum tíma. Prósaljóðin eru því í sjálfu sér óviðkomandi efni þessa rits. Sama verður að segja um fríljóð, þótt þau komi síðar til, ennfremur eru svokölluð "miðleitin" ljóð þessu óviðkomandi, því yfirleitt lúta þau röklegu samhengi, hnitast um eitt atriði. Fjarstæðast af öllu er að kalla bókmenntaverk módern vegna þess að í þeim birtist tiltekið hugarástand: einmanakennd eða tilfinning fyrir tilgangsleysi lífsins. Þvílíkar hugsanir hafa komið fram á ýmsum tímum og í ýmsu formi, en hér er um bókmenntastraum að ræða, og þá um bókmenntaleg sérkenni, ekki hugmyndir.
Módernismi birtist einkum í samhengisleysi, brotakenndri framsetningu, og þá virðist "Sorg" eftir Jóhann Sigurjónsson réttilega hafa verið talið fyrsta móderna ljóðið á íslensku, það mun hafa verið ort 1908-9. Þar er stokkið milli andstæðra mynda kyrrláts unaðar annarsvegar, en tryllings og eyðileggingar hinsvegar. Tengsl þessa liggja helst í upphöfnu ljóðmáli og -myndum, auk persónu mælanda. Jón Thoroddsen orti allt öðru vísi verk, tæpum áratug síðar, einföld og hversdagsleg frásögn á yfirborðinu, en einnig þar er framsetningin rofin, mótsagnakennd. Hinsvegar verður varla um það talað hjá Jóhanni Jónssyni, en þar koma helst til álita sérkennilegar myndir í einu ljóði, "Söknuði". Það nægir þó ekki til að það teljist módernt, í ljóðinu ríkir röklegt samhengi. Enn fráleitara væri að orða ljóð Þórbergs Þórðarsonar frá öðrum áratug aldarinnar við módernisma, eða "Hel" Sigurðar Nordals, þótt það hafi stundum verið gert. Ljóð Halldórs Laxness bera hinsvegar flest merki expressjónisma í fyrirvaralausum stílrofum, oft spaugilegum. Þar er samhengisleysi milli setninga. Það er þegar um miðjan 3. áratuginn, en Halldór gengur loks lengst allra í einum fimm kvæðum eða kvæðabálkum frá árunum 1926-7. Þau eru nánast óskiljanleg vegna þess að orð eða setningar eru sett saman úr hlutum sem geta ekki átt saman, eða þá að árekstur verður milli einstakra hluta kvæðis. Hér virðast ótvíræð áhrif surrealisma, svo sem Halldór og vottaði sjálfur. Þetta eru ekki fyrirferðarmiklir textar, en þetta eru vönduð ljóð og mikil nýjung í íslenskum bókmenntum. Og þau setja að mínu mati varanlegan svip á skáldverk Halldórs, þar á ég við breytinguna frá Vefaranum mikla til skáldsagna Halldórs á 4. áratugsinum.
Módernisma gætir í íslenkum prósaverkum fljótlega eftir fyrri heimsstyrjöld. Fyrsta verkið af því tagi er Bréf til Láru frá 1924, eftir Þórberg Þórðarson. Það er áberandi líkt prósaverkum franskra surrealista frá 3. áratug aldarinnar í því, að framsetning er huglæg og mjög fjölbreytt að efni og stíl, þar blandast saman ritgerðir, þjóðsögur, játningaskrif o.m.fl., en milli þeirra er fyrirvaralaust stokkið úr einu í annað. Að vissu marki er Vefarinn mikli frá Kasmír sem Halldór Laxness samdi 1925 ámóta sundurleitur, auk þess sem þar eru önnur framandleg atriði; óþýddar klausur á erlendum málum, tilvísanir til lítt kunnra listaverka, o.fl. En annars er sú skáldsaga að mestu samkvæmt skáldsagnahefð, í skipulegri frásögn og þar eru stílandstæður milli kafla, líkt og í Bréfi til Láru, en þær andstæður eru út um allan textann í skáldsögum Halldórs á 4. áratugnum, andstæður milli sögumanns og sögupersóna. Sögumaður er mjög áberandi með sérkennileg sjónarmið og málfar heimsmanns. Sögupersónur eru fjótt á litið að skáldsagnahefð með hver sitt sérkennilega fas og málfar. En í rauninni eru þær mjög ýktar, bæði þær sem eru skrípamyndir og hinar sem göfgaðri eru. Þetta hvorttveggja er alkunna frá expressjónisma og einkum virðast mér þessar stílandstæður framhald af stílrofum í ljóðum Halldórs. Þetta einkennir skáldsögur Halldórs æ meir á 4. áratugnum. Því virðast mér þær mun róttækari í módernisma en Vefarinn. En vissulega ráðast þær allar af röklegri fléttu að skáldsagnahefð. Hún ræður líka smásögum Halldórs Stefánssonar. En jafnframt gætir expressjónisma í nokkrum þeirra frá fyrra hluta 4. áratugsins. Þær einkennast m.a. af runum stuttra málsgreina, sem oft eru slitur ein, líkt og í impressjónískum verkum Þorgils gjallanda um aldamótin. Meira ber á andstæðum milli annarsvegar stíls greinaskrifa og annarlegra líkinga í lýsingum á sögusviði annarsvegar, en hinsvegar skáldsagnahefðar í samtölum. Líkt og hjá Halldóri Laxness er sögumaður ágengur og sýnir oft mikla fjarlægð frá efninu og sérkennilegan stíl miðað við persónur. Einnig hér eru þær af tagi skrípamynda frekar en sannfærandi raunsæilegra persóna, sem ríkjandi tíska bauð.
Ekki sé ég önnur merki módernisma fyrr en í lok seinni heimsstyrjaldar með ljóðum Steins Steinars, sem sumum var seinna safnað í ljóðabálkinn Tíminn og vatnið, er birtist fyrst 1948, en aftur þriðjungi stærri 1956. Tíminn og vatnið mótast fyrst og fremst af surrealisma, tengd eru í samsettu orði eða setningu orð sem geta ekki átt saman. Það er helst að hugblær brúi bilið milli þessara mótsagna. Það er af sama tagi og í ljóðum Halldórs Laxness frá 1927, en ekki verða sén nein bein áhrif, og þetta er miklu meira verk en ljóð Halldórs. Það skapar annarlega heildarmynd af sérstæðum heimi og kyrrstæðum. En sá heimur verður nærtækur og lifandi vegna þess að ljóðabálkur þessi er þrunginn andstæðum tilfinningum mælanda, tilfinningum sem örðugt eða ómögulegt er að skilja röklega, eða tengja umhverfinu í bálkinum.
Hjá atómskáldunum ber sáralítið á módernisma nema hjá Hannesi Sigfússsyni, sem er skálda afkastamestur í módernri ljóðagerð. Þar er um þrjár fyrstu ljóðabækur hans að ræða, 1949, 1951 og 1961. Hér ber raunar lítið á því mótsagnakennda orðalagi sem einkennir fyrrnefnd kvæði Halldórs Laxness og Steins. Hinsvegar mótast báðir fyrstu bálkarnir, Dymbilvaka og Imbrudagar, af samhengisleysi milli erinda og stundum milli einstakra lína. Miklar andstæður eru í stíl, enda þótt hefðbundið ljóðmál ríki í bálkunum, bæði í orðfæri, hrynjandi og stuðlun. Þannig skynja lesendur textana sem ljóð, en festast í mótsögnum og fá ekki botn í verkin. Þetta samhengisleysi er af tagi expressjónisma eins og hann birtist í flestum ljóðum Halldórs Laxness, m.a., en aftur er enginn beinn skyldleiki sjáanlegur, ekki heldur við Stein Steinarr, enda þótt einnig hér sé dregin upp annarleg, órökleg heildarmynd af heimi mælanda. Þau ljóðskáld sem síðar koma til með módernisma, eru ekki afkastamikil á því sviði. Einna sérstæðastur er Jónas Svafár frá því um miðja öldina með tvíbent orðalag sem riðlar allri rökhugsun.
Á sama tíma, rétt fyrir miðja 20. öld, koma fyrstu prósaverk Thors Vilhjálmssonar. Það eru örstutt prósaverk og ljóð, og sum prósaverkanna hafa mörg framangreindra expressjónískra einkenna prósa, annarlegar líkingar, stuttar slitróttar málsgreinar og myndræna framsetningu. Persónur eru frummyndakenndar, og textarnir eru torskildir röklega. Enda er stundum sérstaklega girt fyrir röklegan skilning með endalausum keðjum af óskiljanlegum útskýringum, síðar með keðjum af annarlegum myndrænum viðlíkingum, sem fara hver í sína átt, hvorttveggja stöðvar framrás textans. Textinn er yfirleitt mjög myndrænn, svo að hann dettur nánast sundur í augnabliksmyndir. Hugarflaums gætir hér nokkuð, eins og í stökum, örstuttum smásögum um eftir Jón Óskar (1952) og Geir Kristjánsson (1956). Steinar Sigurjónson skrifar fyrstur Íslendinga móderna skáldsögu, ástarsögu, 1958 (birtist aftur í mjög breyttri og aukinni gerð undir öðrum titli 1967). Þar er stokkið á milli hugarflaums ýmissa persóna, þar sem ríkir talmál og hugmyndaheimur íslensks alþýðufólks. Grunneiningarnar eru í raun samkvæmt skáldsagnahefð, en hið móderna við sögurnar er, að horfið er ógreinanlega frá einni persónu til annarrar, og söguþráður skiptir litlu máli. Útkoman verður einskonar heildarmynd af lífi þessa fólks, líkt og hjá Guðbergi Bergssyni síðar, þ.e. í Tómas Jónsson metsölubók (1966). Þar er horfið frá röklegri fléttu og tímarás, en hugarflaumur mælanda og vaðall gefur dökka heildarmynd af umheimi hans og þó mjög litríka, allt frá skrípamyndum til bölsýni. Persónur eru frummyndakenndari en hjá Steinari, ámóta og hjá Thor, en meiri skrípamyndir, ýktar svo sem hjá Halldórunum á 4. áratugnum. Það er þó fyrst og fremst með skáldsögum Thors frá árinu 1968 að telja sem módernisminn verður varanlegur í íslenskum prósabókmenntum, það eru mörg verk, löng og vönduð. Auk framangreindra einkenna stuttra prósaverka Thors, eru skáldsögur hans mjög fjölbreytilegar, einnig að stíl, svo ekki verður séð að einstök atriði þeirra raðist eftir neinu kerfi, og síst söguþræði, en þau tengjast margvíslega innbyrðis með þráhyggjukenndum endurtekningum dramatískra mynda, sem eru þó síbreytilegar. Í ljóðum ber á þessum tíma áfram svolítið á surrealisma, hjá Jóhanni Hjálmarssyni og Baldri Óskarssyni á sjöunda áratugnum. Svava Jakobsdóttir skrifaði fáeinar smásögur um miðjan sjöunda áratuginn í köldum, nánast klíniskum stíl, þar sem segir frá allskyns furðum í hversdagslífi kvenna. Útkoman verður einskonar táknsögur sem sýna þennan hversdagsleika sem fáránlegan. En þetta gengur flest upp röklega og verður naumast talið módernismi. Svolítið ber á surrealisma hjá Megasi í byrjun áttunda áratugsins, en meira er um expressjónísk stílrof. Á þeim tíma hefur Pétur Gunnarsson í meginatriðum sömu expressjónísku einkenni og Halldórarnir tveir á 4. áratugnum, í skáldsögum sem í aðalatriðum fylgja röklegri framrás. Árni Larsson minnir töluvert á Thor Vilhjálmsson m.a. með langsóttum líkingum, en auk þess er hann með fágætt dæmi um surrealískar setningar í prósa, þær eru óskiljanlegar vegna þess að orð innan setningar stangast á. Einar Guðmundsson gerði prósaverk þar sem skyndilega er stokkið frá einni frásögn í aðra, en milli þeirra eru óglögg tengsl viðfangsefnis. Mikið ber þar á eftirlíkingum algengustu texta, þetta er í meginatriðum af sama tagi og Tómas Jónsson metsölubók, þótt ekki sé um stælingu að ræða. Mikill vöxtur færist í móderna ljóðagerð eftir 1980. Þar ber töluvert á surrealisma, einkum í mótsagnakenndum ljóðmyndum, en mest er um samhengisleysi milli ljóðmynda, sem tengjast helst í sameiginlegum hugblæ ljóðs eða ljóðabálks.
Margskonar módernir straumar eru á ferðinni í íslenskum bókmenntum 20. aldar. Einna róttækastur er surrealisminn, sérstaklega í ljóðum Halldórs Laxness upp úr miðjum 3. áratugnum, en þó einkum Steins Steinars upp úr seinni heimsstyrjöld. Undir þá stefnu mætti líka heimfæra Bréf til Láru 1924, fyrsta móderna prósaskáldritið. En það er vegna sameiginlegra einkenna, en ekki vegna bókmenntaáhrifa, og vissulega er það með allt öðru yfirbragði en surrealismi í ljóðum. Framvegis örlar á surrealisma, hjá Jóhanni Hjálmarssyni og Baldri Óskarssyni á 7. áratugnum, Medúsumönnum á þeim 9. Önnur helsta móderna stefna 20. aldar, expressjónisminn, er fyrirferðarmeiri í íslenskum bókmenntum. Þar skal fyrst nefna flest ljóð Halldórs Laxness, önnur en fyrrtalin, en auk þess skáldsögur hans, einkum eftir Vefarann mikla, smásögur Halldórs Stefánssonar frá fyrri hluta 4. áratugs og ljóðabálka Hannesar Sigfússonar um miðja öldina. Það eru þó önnur einkenni en á expressjónískum ljóðum. Áþekk einkenni eru á prósaverkum Thors Vilhjálmssonar frá sama tíma og alla tíð síðan, einnig á skáldsögum Guðbergs Bergssonar frá 7. áratugnum og Péturs Gunnarssonar á þeim áttunda. En vitaskuld er hér margt svo sérkennilegt, að svona stimpill segir ekki mikið um verkin, það á einkum við um skáldsögur Thors, frá lokum 7. áratugsins að telja. Auk þess eru ýmis módern verk sem varla verða flokkuð til slíks undirstraums módernismans. Það gildir bæði um þau fyrstu, eftir Jóhann Sigurjónsson og Jón Thoroddsen, um Jónas Svafár frá því um miðja öldina, og t.d. um Gyrði Elíasson á síðustu árum. Módernismi birtist yfirleitt í smærra móti í ljóðum en prósaverkum, og fylgir það eðli bókmenntagreinanna. Í ljóðum eru andstæður eða sundurleysi ýmist innan málsgreinar, milli málsgreina, eða erinda. En í prósaverkum eru andstæðurnar milli stærri eininga, milli kafla eða stílandstæður persóna.
Þetta er langt tímabil, frá því um 1908 fram á miðjan níunda áratuginn. Það vekur athygli, að sjaldnast verður séð neitt samhengi milli þessara skálda. Það er ekki fyrr en á 8. áratugnum með prósahöfundum, að sjá má áhrif frá innlendum skáldverkum módernum. Augljóst er einnig, að yngstu ljóðskáldin þekkja vel verk Steins og Hannesar Sigfússsonar, en ekki verður bent á bein áhrif. Annars virðist hver taka upp sinn þráð eftir því sem hann hefur kynnst erlendis frá og skapað eftir. Einnig vekur athygli að hlé verður á millum módernisma á 3. og 4. áratugnum, ogþess sem kemur fram um miðja öldina. Það er reyndar alþjóðlegt fyrirbæri, og skýrist af því hve tæpri fótfestu módernisminn náði á Íslandi - sem annarsstaðar - á 3. áratugnum, því stóðst hann ekki þau straumhvörf sem urðu á 4. áratugnum, frá módernisma til skáldverka sem áttu að gegna áróðurshlutverki, eða a.m.k. vekja fólk til umhugsunar um samfélagsmál. Í því efni ríkti hérlendis hefð ættjarðarljóða og skáldsagna, en hvor tveggja hefðin mótaðist á 19. öld. Módernismi blómstrar aftur í ljóðum um miðja öldina og gætir slitrótt síðan. Í prósa kemur hann aftur fram á sama tíma, og fáeinir höfundar stunda hann eitthvað áfram. Hvörf verða síðan aftur um 1970, þá verður hlé á módernri ljóðagerð, en hennar fer svo aftur að gæta undir lok 8. áratugsins. Athyglisvert er, að þvílík hvörf verða ekki í prósa. Þar koma fram skáld sem fást við módernisma, bæði á áttunda áratugnum og síðar. Þessi munur held ég að sé innan marka tilviljana, því það er um svo fá skáld að ræða, að tískubylgja einsog "opin ljóð" á áttunda áratugnum getur þurrkað annað út um hríð. Í módernum prósa kom sífellt ný örvun utanlands frá, auk þess sem svo stórvirkur módernisti sem Thor Vilhjálmsson hefur haft áhrif til eftirbreytni, einsog hin víðfræga Tómas Jónsson metsölubók Guðbergs. En í ljóðagerð var módernismi eldri og kunnuglegri en í prósa, það virðist skýringin á því að hann rís þar aftur upp með miklum krafti um 1980.
Af þessu yfirliti má sjá, að módernisminn í íslenskum bókmenntum var slitróttur straumur og sundurleitur. Margháttuð erlend áhrif berast til Íslands með ýmsum skáldum, rétt eins og í ljóðum, skáldsögum og smásögum 19. aldar. Það sýnir þá einu sinni enn, að íslenskar bókmenntir eru ekki sjálfstæð heild, sem lýtur innri þróun fyrst og fremst, heldur eru þær hluti heimsbókmenntanna á hverjum tíma.