Fara í innihald

Draumakenning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Draumatúlkun Freuds)

Draumakenning (Die Traumdeutung) er bók eftir Sigmund Freud frá árinu 1899. Í henni leggur hann fram kenningu um drauma, sem sögð hefur verið sú áhrifamest sem sett hefur verið fram um slíkt. Niðurstöður voru byggðar á ótal draumafrásögnum, hans eigins og annarra, sem hann rýndi nánar í.

Megininntak kenningarinnar er að draumar séu táknrænar svalanir bældra hvata; draumar endurspegla þrár og hvatir dreymanda. Þær hvatir sem stangast á við siðferði dreymanda eru síðan bældar niður með á dulbúinn hátt. Hver draumur fyrir sig er tvíþátta. Annars vegar er hið ljósa inntak, draumurinn eins og hann birtist dreymanda, og hins vegar hið dulda inntak, sem leynist bak við það ljósa og veitir vísbendingu um merkingu draumsins.

Til að túlka hið dulda inntakið beitti Freud frjálsum hugrenningum. Þá veltir dreymandinn sérhverju atriði fyrir sér og rekur allt sem honum dettur í hug. Engu má sleppa svo greining takist; hið minnsta smáatriði getur sagt til um veigamikla merkingu. Samkvæmt Freud eru hugrenningarnar ekki handhófskenndar heldur markvissar og veita þær allar einhverjar vísbendingu um túlkun eða ráðningu draumsins.

Margir hafa gagnrýnt draumakenninguna og velt fyrir sér að hvaða marki hún standist. Sú spurning leitar einnig á hvort hægt sé að prófa kenninguna með nánari, vísindalegri hætti og hvort hún eigi einhverja samleið með kenningum sem byggjast á meiri þekkingu á eðli svefnsins.

Eftirfarandi atriði eru mótbárur sem hafa fundið sér leið úr kenningunni:

  • Oft fær fólk beina útrás hvata og óska í draumum, jafnvel þær siðlausu. „Kinnroðulaust framkvæma menn verknað í draumi sem vökul meðvitund myndi vísa frá með viðbjóði“ Mattías Jónasson
  • Aðferðafræði Freuds gagnvart draumakenningunni og sálgreiningu almennt.
  • Öll greining byggist á hans eigin rannsóknum.
  • Freud rannsakaði sjúklinga sína, sem var oft hann sjálfur, einsamall og skráði niðurstöður eftir eigin minni.

Draumakenning Freuds er talin vera gloppótt kenning, en eins og allt efni Freuds markar hún viss þáttaskil í rannsóknum á draumum.