Fara í innihald

Boney M.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Boney M)
Boney M (1981)

Boney M. var þýsk diskóhljómsveit sem átti sitt blómaskeið á áttunda áratugnum og fyrri hluta þess níunda. Hljómsveitin var stofnuð af Frank Farian 1975/1976. Hann samdi einnig flest lög sveitarinnar og framleiddi allar plötur sveitarinnar.

Hljómsveitarmeðlimir frá 1976 voru Marcia Barrett, Liz Mitchell, Maizie Williams og Bobby Farrell. Árið 1982 var Bobby Farrell skipt út fyrir Reggie Tsiboe. Árið 1984 kom Bobby Farrell fram sem gestaflytjandi með sveitinni á smáskífunni Happy Song. Þegar smáskífan Young Free & Single var gefin út ásamt breiðskífunni Eye Dance árið 1985 var Bobby Farrell aftur genginn í sveitina, sem innihélt nú Marcia Barrett, Liz Mitchell, Maizie Williams, Reggie Tsiboe og Bobby Farrell. Þessi uppstilling hélst óbreytt til 1986 þegar hljómsveitin hætti formlega. Sveitin var endurreist árið 1988 vegna endurhljóðblöndunnar breiðskífunnar The Greatest Hits Of All Times – Remix '88, en án Reggie Tsiboe. Hún hætti aftur árið 1989 og hefur ekki komið saman síðan í sinni upprunalegu mynd. Meðlimir sveitarinnar, eins og Liz Mitchell, Maizie Williams og Bobby Farrell hafa komið fram sjálf undir hljómsveitarnafninu við ýmis tækifæri.

Boney M. sló í gegn árið 1976 með laginu „Daddy Cool“. Í kjölfarið fylgdi röð af risasmellum eins og „Sunny“ (1976), „Ma Baker“ (1977) og „Belfast“ (1977). Árið 1978 sló Boney M. öll met með smáskífunni Rivers Of Babylon. B-hliðin á Rivers Of Babylon innihélt smellinn „Brown Girl In The Ring“. Á eftir fylgdu vinsælar smáskífur með lögum eins og „Rasputin“ (1978) og jólalaginu „Mary's Boy Child – Oh My Lord“ (1978), sem sló mörg sölumet, eins og Rivers Of Babylon. Undir lok áratugarins komu út Hooray! Hooray! It's A Holi- Holiday (1979), El Lute/Gotta Go Home (1979) og Bahama Mama/I'm Born Again (1979).

Liz Mitchell og Marcia Barrett sungu kvenraddirnar í hljóðverinu (á plötunum) og sungu bæði forsöng og bakraddir. Framleiðandinn, Frank Farian, söng djúpu karlröddina sem er kölluð „rödd Bobbys“. Þegar Reggie Tsiboe gekk í sveitina varð hann líka hluti af stúdíóteyminu og söng forsöng og bakraddir á nokkrum upptökum hennar á tímabilinu 1982–1985.

Á tónleikum sveitarinnar sungu allir meðlimir hennar á sviðinu. Marcia Barrett og Liz Mitchell fluttu megnið af lögunum, en á sviði var karlröddin sungin af Bobby Farrell. Maizie Williams söng líka á tónleikum svo hljómsveitin virkaði fullkomlega á sviði á tónleikaferðalögum. Þegar Reggie Tsiboe kom í stað Bobby Farrell söng hann líka á tónleikum, þar sem hann var hluti af stúdíóteyminu.

Hljómsveitin gaf út næstum 40 smáskífur á ferli sínum og yfir 10 hafa komið út eftir að hún leystist upp. Um 20 safnplötur hafa auk þess komið út. Breiðskífur sveitarinnar eru 8 talsins: