Almenningsíþróttadeild Fram
Almenningsíþróttadeild Fram er íþróttadeild sem stofnuð var innan Knattspyrnufélagsins Fram árið 2003. Hún heldur utan um ýmis konar starfsemi sem ekki fellur undir hefðbundnar keppnisíþróttir
Sagan og starfið
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2003 varð Fram fyrst reykvískra íþróttafélaga til að stofna sérstaka almenningsíþróttadeild. Var það í samræmi við íþróttastefnu Reykjavíkurborgar, sem kveður á um að íþróttafélög skuli bjóða upp á slíka starfsemi og helst innan sérstakra deilda.
Í raun var deildin aðeins framhald á starfsemi sem þegar fór fram á vegum félagsins. Frá 1995 var starfandi leikfimihópur í tengslum við íþróttahús og tækjasal Fram. Jafnframt höfðu verið skipulagðir skokk- og stafgönguhópar fyrir Framara og aðra íbúa hverfisins.
Almenningsíþróttadeildin er í dag starfrækt á tveimur stöðum: í Safamýri og í Grafarholti. Á báðum stöðum heldur deildin úti Íþróttaskóla Fram fyrir börn á aldrinum 3-6 ára. Skóli þessi var upphaflega stofnsettur af handknattleiksdeild Fram árið 1993.
Veturinn 2010-11 mun Fram senda lið til keppni í 2. deild Íslandsmóts karla í körfuknattleik undir merkjum almenningsíþróttadeildar. Verður það í fyrsta sinn sem Framarar tefla fram liði í þeirri íþrótt frá því að körfuknattleiksdeildin lognaðist út af á níunda áratugnum.