Fara í innihald

Þinganes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þinganes. Rauðu húsin fremst á myndinni eru öll nýtt af færeysku landsstjórninni.

Þinganes (færeyska: Tinganes) er elsti hluti Þórshafnar í Færeyjum, lítið nes sem gengur út í víkina sem bærinn stendur við og skiptir henni í Eystaravág og Vestaravág. Þar var þing Færeyinga haldið frá fornu fari. Talið er líklegt að það sé eldra en Alþingi Íslendinga þótt engar heimildir séu til um stofnun þess.

Aðsetur þingsins er nú annars staðar í bænum en færeyska landsstjórnin hefur aðsetur í Skansapakkhúsinu, sem stendur fremst á nesinu. Aðalaðsetur dönsku einokunarverslunarinnar í Færeyjum var öldum saman á nesinu og mörg húsanna þar voru reist á hennar vegum á 16. og 17. öld.