Fara í innihald

Óbundin kosning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Óbundnar kosningar)

Óbundin kosning eða óhlutbundin kosning er kosningafyrirkomulag sem notað hefur verið við sveitarstjórnarkosningar á Íslandi og áður Alþingiskosningar í einmennings- og tvímenningskjördæmum. Í sveitarstjórnarkosningum er aðferðin enn notuð í þeim tilfellum þar sem enginn framboðslisti berst fyrir lok framboðsfrests í sveitarfélagi eða ef of fá nöfn eru á þeim framboðslistum sem berast til að sveitarstjórn verði fullskipuð. Í óbundnum kosningum eru í raun allir kjósendur á kjörskrá í framboði fyrir utan þá sem eru löglega undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því. Óbundnar kosningar fara fyrst og fremst fram í fámennunustu sveitarfélögum landsins og þær hafa vikið fyrir hlutbundnum listakosningum eftir því sem sveitarfélögum tók að fækka með sameiningum eftir 9. áratug 20. aldar. Í sveitarstjórnarkosningum 2022 voru 13 af 64 sveitarstjórnum kjörnar í óbundnum kosningum.

Óbundnar kosningar fara þannig fram að kjósandinn skrifar fullt nafn og heimilisfang þeirra aðila sem hann vill kjósa í sveitarstjórn á kjörseðilinn, þó ekki fleiri en sem nemur fjölda aðalmanna í sveitarstjórn. Á neðri hluta kjörseðils skrifar kjósandinn nöfn þeirra sem hann vill kjósa sem varamenn í sveitarstjórn í tölusettri röð. Þeir aðilar ná kjöri í sveitarstjórn sem fá flest atkvæði sem aðalmenn.