Írónía
Útlit
Írónía eða háð (einnig nefnt tvísýni, háðhvörf, launhæðni, uppgerð eða látalæti) er stílbragð sem felst í misræmi annars vegar milli þeirrar merkingar sem mælandi leggur í orð sín og hins vegar þeirrar merkingar sem áheyrendur leggja í orðin eða í því hvernig þau rætast á annað máta en búist var við. Írónía getur einnig verið þegar beinlínis er átt við annað en það sem sagt er, gjarnan hið gagnstæða.
Tegundir háðs
[breyta | breyta frumkóða]- Tragískt eða dramatískt háð er þegar orð persónu í leikriti rætast á annan hátt en hún hugði, oft þannig að áhorfendur átta sig á hvernig komið er. Þekkt dæmi er í Ödípúsi konungi eftir Sófókles. Þar óttast Ödípús að banamaður Laíosar gæti einnig lagt hönd á Ödípús sjálfan. Þessi orð rætast þegar Ödípús uppgötvar að hann varð sjálfur Laíosi að bana og blindar sig.
- Sókratískt háð er þegar einhver þykist vera fávís en spyr spurninga sem smám saman leiða viðmælandann í ógöngur.
- Rómantískt háð eða tvísæi er þegar byggð er upp ákveðin (rómantísk) hugsýn og hún síðan rifin niður.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jakob Benediktsson (1983). Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.