Ástralasía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir umfang Ástralasíu

Ástralasía er svæði innan Eyjaálfu sem inniheldur Ástralíu, Nýja Sjáland, Nýju Gíneu og margar smærri eyjar á svæðinu sem flestar tilheyra austurhluta Indónesíu. Nafnið var upprunalega smíðað af Charles de Brosses í bókinni Histoire des navigations aux terres australes (1756). Hann fékk það frá latínunni yfir suður-Asíu (en hluta svæðisins má telja hvort sem heldur til Eyjaálfu eða Asíu) og aðgreindi svæðið frá Pólýnesíu og suðausturhluta Kyrrahafsins (Magellanica). Ástralasía er stundum notað sem nafn á Ástralíu og Nýja Sjálandi saman, þar sem ekkert orð er til yfir þau tvö lönd ein.

Frá stjórnmálalegu og menningarlegu sjónarmiði er hugtakið ansi merkingarlítið, þar sem að þó að Ástralía og Nýja Sjáland séu bæði nokkuð rík og aðallega enskumælandi og að mörgu leyti mjög lík, eiga þau lítið sameiginlegt með öðrum löndum á svæðinu. Hugtakið er óvinsælt á Nýja Sjálandi út af áherslunni sem það þykir leggja á Ástralíu og virðist gefa í skyn að svæðið sé í Asíu. Í staðin er notað hugtakið Eyjaálfa, þó merking þess sé þó nokkuð ólík. Ástralía jafnvel oft ekki talin hluti af Eyjaálfu, þegar orðið er notað á þennan hátt.

Frá líffræðilegu sjónarmiði, hins vegar, er Ástralasía mjög ákveðið svæði með sameiginlega þróunarsögu og margar plöntu- og dýrategundir sem hvergi finnast annars staðar, sumar sem finnast um allt svæðið, aðrar takmarkaðar við ákveðna hluta Ástralasíu en með sameiginlega forfeður.

Líffræðilega aðskilnaðarlínan frá Asíu er Wallacelínan (nefnd eftir Alfred Russel Wallace, breskan náttúrufræðing), sem er mörk flekanna tveggja. Súlavesí og Lombok eru austanmegin við línuna, Ástralasíumegin, en Borneó og Balí vestanmegin, Asíumegin.

Áður hefur Ástralía verið notað sem nafn á sameiginlegum liðum Ástralíu og Nýja Sjálands. Til dæmis var þetta gert árið 1905 þegar löndin tvö sameinuðu bestu tennisleikmenn sína til að keppa til Davis bikarsins og á Ólympíuleikunum árin 1908 og 1912.